• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fundi með forsætisráðherra lokið Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra
12
Jun

Fundi með forsætisráðherra lokið

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá boðaði forsætisráðherra formann félagsins til fundar í stjórnarráðinu og var sá fundur haldinn í morgun. Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var bæði góður og gagnlegur.

Eins og flestir vita hefur eitt aðalbaráttumál Verkalýðsfélags Akraness á undanförnum árum á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar verið afnám verðtryggingar á neytendalánum og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur. Því miður hafa þær tillögur og ályktanir sem VLFA hefur lagt fram á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum ekki hlotið hljómgrunn hjá forystu hreyfingarinnar. Á þeirri forsendu hefur formaður félagsins lýst yfir ánægju með að núverandi ríkisstjórn ætli að taka á þessum helstu baráttumálum Verkalýðsfélags Akraness.

Á fundinum í morgun ræddi forsætisráðherra tillögur er lúta að aðgerðaáætlun um skuldavanda heimilanna sem lögð var fram á þinginu í gær og er í 10 liðum. Þessi aðgerðaáætlun virðist í fljótu bragði vera í algjöru samræmi við þau loforð sem gefin voru út fyrir kosningar. Formanni VLFA líst vel á þetta aðgerðaplan og er fullur bjartsýni á að loksins muni sjá fyrir endann á þeim miskunnarlausa forsendubresti sem heimilin máttu þola og síðast en ekki síst að nú hilli undir afnám verðtryggingar á húsnæðislánum heimilanna. Skýrt er kveðið á um í þessari aðgerðaáætlun að skipaður verði starfshópur sem eigi að skila tillögum er lúta að afnámi verðtryggingar fyrir áramót.

Formaður félagsins ræddi fjölmörg önnur mál á fundinum er tengjast hagsmunum alþýðunnar, svosem komandi kjarasamninga og mikilvægi þess að bæta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Benti formaður meðal annars á að mikilvægt væri að hækka persónuafslátt því það væri morgunljóst að það kæmi þeim tekjulægstu hvað best.

Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda var gott að eiga þetta samtal við forsætisráðherra og gat formaður ekki skynjað annað en að það væri fullur hugur hjá ríkisstjórninni að taka á þessum málum er lúta að skuldavanda heimilanna af fullri einurð og krafti. Enda er mjög mikilvægt að þetta taki eins skamman tíma og hægt þar sem skuldsett heimili geta ekki beðið í mjög langan tíma eftir aðgerðum. Formaður nefndi við forsætisráðherra að mikilvægt væri að fresta nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði til áramóta í ljósi þess að allir starfshópar sem skipaðir verða vegna skuldavanda heimilanna eigi að skila af sér niðurstöðum og tillögum seinnihluta þessa árs. Þá mun liggja fyrir hvernig endanleg aðgerðaáætlun mun líta út hvað varðar aðgerðir til handa heimilunum. Það var ekki annað að heyra á forsætisráðherra en að öll þessi mál væru svo sannarlega til skoðunar hjá ríkisstjórninni sem er vel.  

Forsætisráðherra er það fullkunnugt að formaður Verkalýðsfélags Akraness mun fylgjast vel með að öll þessi mál er lúta að hagsmunum alþýðunnar og skuldsettum heimilum fái farsælan endi og að staðið verði við gefin loforð. Enda mun formaður VLFA veita ríkisstjórninni fullkomið aðhald og vera gagnrýninn á ef hún fer út af sporinu hvað varðar lausn á vanda íslenskra heimila.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image