• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Jun

Félagið gerði allt sem það gat

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaÍ gær skrifaði fyrrverandi starfsmaður ISS á Grundartanga, Málmfríður Guðrún Sigurvinsdóttir, góða grein í héraðsblaðið Skessuhorn undir fyrirsögninni „Til verkalýðsfélaga og vinnustaða á landinu.“

Hún var ein af fimm starfsmönnum ISS sem var sagt upp störfum eftir fjórtán ára starf. Fyrst starfaði hún hjá Íslenska járnblendifélaginu, síðan hjá Fang og nú síðast hjá ISS. Ástæða uppsagnarinnar var „skipulagsbreytingar“ að sögn fyrirtækisins. Formaður VLFA getur vel skilið þá gríðarlegu gremju sem ríkir á meðal þeirra starfsmanna sem lentu í þessum uppsögnum enda eru uppsagnirnar ógeðfelldar með öllu. Í greininni spyr höfundur til hvers launþegar séu að greiða í stéttarfélög ef ekki er hægt að koma í veg fyrir að verið sé að brjóta á starfsfólki. Hún tilgreinir sérstaklega að í sínu tilfelli hafi stéttarfélagið ekki náð að verjast því að henni ásamt fjórum öðrum konum var sagt upp störfum hjá ISS á Grundartanga.

Verkalýðsfélag Akraness verður seint sakað um að verja ekki hagsmuni sinna félagsmanna með kjafti og klóm og formaður vonar að sagan hingað til staðfesti það. Það sem greinarhöfundur er óánægð með er að félagið hafi ekki náð að koma í veg fyrir að þeim hafi verið sagt upp störfum. 

Það er mikilvægt að launafólk átti sig á þeirri köldu staðreynd að stéttarfélögin vítt og breitt um landið hafa engar lagaheimildir sem banna fyrirtækjum að segja upp starfsfólki, því miður.  Málið er að atvinnurekendur ráða algerlega hverja þeir ráða til sín og hverjum þeir segja upp störfum, þannig eru lögin og reglurnar á hinum almenna vinnumarkaði. Það eina sem fyrirtækjunum ber að uppfylla er að greiða starfsmönnum þann uppsagnarfrest sem starfsmenn hafa áunnið sér þegar uppsögn á sér stað, ef ekki er óskað eftir vinnuframlagi starfsmannsins á uppsagnartímanum.

Hins vegar liggur algerlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi ISS harðlega fyrir þessar siðlausu uppsagnir og skrifaði formaður m.a. pistil í apríl um þessar uppsagnir undir fyrirsögninni „Hafið þið skömm fyrir“ og því til viðbótar skrifaði formaður frétt sem birtist í félagsblaði VLFA sem kom út í maí þar sem þessar uppsagnir voru harðlega gagnrýndar. Þessu til viðbótar talaði formaður bæði við forsvarsmenn ISS og forsvarsmenn Elkem Ísland og gerði alvarlegar athugasemdir við þessar uppsagnir sem voru og eru algerlega siðlausar en því miður löglegar.

Ég get svo sannarlega skilið að þeir starfsmenn ISS sem unnu í mötuneytinu á Grundartanga séu sárir og svekktir yfir þessari framkomu hjá fyrirtæki eins og ISS sem vill kenna sig m.a við  heiðarleika og ábyrgð. Sér er nú hver heiðarleikinn og ábyrgðin að segja m.a góðum starfsmönnum upp störfum með starfsaldur sem spannar allt að 14 ár.

Ég get að lokum fullyrt að Verkalýðsfélag Akraness hefur gert allt sem í valdi þess stendur til að verja þessi störf sem um ræðir, en sum mál eru einfaldlega þannig að félagið hefur ekki lagalegar heimildir til að verja sína starfsmenn eins og t.d þegar fólki er sagt upp störfum. Það er hægt að lesa um þá baráttu sem VLFA hefur háð á undaförnum 10 árum m.a. til að verja kjör og atvinnuöryggi þeirra sem starfa á Grundartangasvæðinu inni á vef félagsins www.vlfa.is. Sláið inn leitarorðinu Fang eða Klafi eða ISS, Elkem Ísland eða Norðurál og lesið þessa baráttu og þá sést af hverju það borgar sig að vera í stéttarfélagi. En formaður vill ítreka að alltaf má gera betur í hagsmunabaráttunni, en það er alltaf sorglegt þegar svona mál fá ekki farsælan endi og ég ítreka enn og aftur, ISS og Elkem Ísland hafið ævarandi skömm fyrir ykkar framkomu gagnvart áðurnefndum starfsmönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image