• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

14
Jun

Verkafólk eins og hamstrar í búri!

Það er eins og við manninn mælt að þegar styttist í að kjarasamningar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru að verða lausir þá heyrast varnaðarorð vítt og breitt um samfélagið. Varnaðarorð sem byggjast á því að nú þurfi að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til handa verkafólki til að stöðugleiki ríki í íslensku samfélagi. Varnaðarorð í þessum anda hefur verkafólk ætíð þurft að heyra þegar kemur að kjarasamningum. Frægt er til dæmis þegar greiningastjórar bankanna sögðu í janúar 2008 að það yrði að ganga frá hófstilltum kjarasamningum til að hér myndi ríkja stöðugleiki en þá voru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði lausir. Hugsið ykkur, greiningastjórar bankanna vöruðu við því í byrjun hrunársins mikla árið 2008 að ef verkafólk fengi örlitla hækkun þá yrði stöðugleika í íslensku hagkerfi ógnað. Á sama tíma og þessi orð voru látin falla var nánast verið að ræna bankana innan frá sem hafði skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag eins og allir þekkja og það beint fyrir framan nefið á þessum greiningastjórum sem höfðu mestar áhyggjur af því að verkafólk fengi einhverjar launahækkanir sem talandi væri um.

Fræg eru líka orð seðlabankastjóra þegar kjarasamningar voru lausir árið 2011 en þá lagði hann mikla áherslu á að kjarasamningarnir yrðu hófstilltir og að innistæða væri fyrir þeim því annars myndi stöðugleikanum verða ógnað. Á sama tíma og hann lét þessi orð falla var hann að stefna sínum eigin banka fyrir dómstóla og krefjast hundruð þúsunda í launahækkun á mánuði.

Og síðast í gær kemur nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og hvetur til þess að gengið verði frá hófstilltum kjarasamningum því innistæðulausir samningar leiði óhjákvæmilega til verðbólgu og verri lífskjara. Segir hann í þessu samhengi að „enginn sigri í launakapphlaupinu.“ Gott og vel, ugglaust margt til í þessu hjá framkvæmdastjóra SA. En málið er einfalt. Ef við skoðum kjarasamningana sem gerðir voru 2011 þá var til dæmis samið um 12 þúsund króna launahækkun á mánuði fyrir verkafólk það ár. Það var gengið frá svokallaðri samræmdri launastefnu, launastefnu sem gekk út á það að launafólk ætti að fá sambærilegar launahækkanir. En þetta sama ár og var samið um þessa 12 þúsund króna launahækkun til handa verkafólki þá hækkuðu stjórnendur, framkvæmdastjórar og æðstu stjórnendur fyrirtækja laun sín um 200-300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar. Það má því eiginlega segja að það væri nær fyrir Samtök atvinnulífsins að hvetja æðstu stjórnendur í fyrirtækjum til að gæta hófs í sjálfskömmtunarlaunahækkunum sínum heldur en að vara við að verkafólk sem er með skammarlega lág laun sem duga vart til lágmarksframfærslu fái einhverja leiðréttingu á sín laun.

Hlaupaleiðirnar misjafnar

Já, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að enginn sigri í launakapphlaupinu. Það liggur fyrir og það er staðfest að nánast allir kjarasamningar sem gengið er frá hjá Ríkissáttasemjara eftir að samið hefur verið fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði eru mun innihaldsríkari heldur en kjarasamningar verkafólks. Þannig hefur þetta ætíð verið og því má segja að launakapphlaupið sem framkvæmdastjóri SA talar um byggist á því að hlaupaleiðir launþega séu afar mismunandi. Það má eiginlega segja að hlaupaleið verkafólks sé eins og fyrir hamstur í búri sem hleypur í hlaupahjólinu og kemst ekkert áfram á meðan hlaupaleið til dæmis æðstu stjórnenda í fyrirtækjum og sumra launahópa virðist liggja í því að þeim er keyrt í limmósínu í mark og þurfa ekki einu sinni að hafa fyrir því að svitna.

Ekkert verður gefið eftir

Það liggur fyrir að það þarf að laga kjör verkafólks eins og til dæmis þeirra sem starfa í fiskvinnslunni enda verður þar nægt svigrúm þar sem búið er að lækka sértæka veiðigjaldið um milljarða króna og því morgunljóst að þar verður innistæða fyrir þeim launahækkunum sem sækja þarf til handa fiskvinnslufólki. Það liggur einnig fyrir að afkoma útflutningsfyrirtækja hér á landi er mjög góð um þessar mundir og því morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki sjá neina ástæðu til þess að gefa þeim fyrirtækjum sem klárlega hafa svigrúm fyrir hækkun launa sinna starfsmanna neinn afslátt í komandi kjarasamningum. Vonandi er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sammála formanni Verkalýðsfélags Akraness í því að fyrirtæki eins og útflutningsfyrirtækin þar sem klárlega er innistæða fyrir launahækkun deili góðri afkomu með starfsmönnum í formi góðrar launahækkunar.

12
Jun

Fundi með forsætisráðherra lokið

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá boðaði forsætisráðherra formann félagsins til fundar í stjórnarráðinu og var sá fundur haldinn í morgun. Það er skemmst frá því að segja að þessi fundur var bæði góður og gagnlegur.

Eins og flestir vita hefur eitt aðalbaráttumál Verkalýðsfélags Akraness á undanförnum árum á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar verið afnám verðtryggingar á neytendalánum og að forsendubrestur heimilanna verði leiðréttur. Því miður hafa þær tillögur og ályktanir sem VLFA hefur lagt fram á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum árum ekki hlotið hljómgrunn hjá forystu hreyfingarinnar. Á þeirri forsendu hefur formaður félagsins lýst yfir ánægju með að núverandi ríkisstjórn ætli að taka á þessum helstu baráttumálum Verkalýðsfélags Akraness.

Á fundinum í morgun ræddi forsætisráðherra tillögur er lúta að aðgerðaáætlun um skuldavanda heimilanna sem lögð var fram á þinginu í gær og er í 10 liðum. Þessi aðgerðaáætlun virðist í fljótu bragði vera í algjöru samræmi við þau loforð sem gefin voru út fyrir kosningar. Formanni VLFA líst vel á þetta aðgerðaplan og er fullur bjartsýni á að loksins muni sjá fyrir endann á þeim miskunnarlausa forsendubresti sem heimilin máttu þola og síðast en ekki síst að nú hilli undir afnám verðtryggingar á húsnæðislánum heimilanna. Skýrt er kveðið á um í þessari aðgerðaáætlun að skipaður verði starfshópur sem eigi að skila tillögum er lúta að afnámi verðtryggingar fyrir áramót.

Formaður félagsins ræddi fjölmörg önnur mál á fundinum er tengjast hagsmunum alþýðunnar, svosem komandi kjarasamninga og mikilvægi þess að bæta stöðu þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Benti formaður meðal annars á að mikilvægt væri að hækka persónuafslátt því það væri morgunljóst að það kæmi þeim tekjulægstu hvað best.

Eins og áður sagði þá var þetta góður fundur enda var gott að eiga þetta samtal við forsætisráðherra og gat formaður ekki skynjað annað en að það væri fullur hugur hjá ríkisstjórninni að taka á þessum málum er lúta að skuldavanda heimilanna af fullri einurð og krafti. Enda er mjög mikilvægt að þetta taki eins skamman tíma og hægt þar sem skuldsett heimili geta ekki beðið í mjög langan tíma eftir aðgerðum. Formaður nefndi við forsætisráðherra að mikilvægt væri að fresta nauðungarsölum á íbúðarhúsnæði til áramóta í ljósi þess að allir starfshópar sem skipaðir verða vegna skuldavanda heimilanna eigi að skila af sér niðurstöðum og tillögum seinnihluta þessa árs. Þá mun liggja fyrir hvernig endanleg aðgerðaáætlun mun líta út hvað varðar aðgerðir til handa heimilunum. Það var ekki annað að heyra á forsætisráðherra en að öll þessi mál væru svo sannarlega til skoðunar hjá ríkisstjórninni sem er vel.  

Forsætisráðherra er það fullkunnugt að formaður Verkalýðsfélags Akraness mun fylgjast vel með að öll þessi mál er lúta að hagsmunum alþýðunnar og skuldsettum heimilum fái farsælan endi og að staðið verði við gefin loforð. Enda mun formaður VLFA veita ríkisstjórninni fullkomið aðhald og vera gagnrýninn á ef hún fer út af sporinu hvað varðar lausn á vanda íslenskra heimila.

05
Jun

Formaður VLFA fundar með forsætisráðherra

Stjórnarráð ÍslandsStjórnarráð ÍslandsFormaður Verkalýðsfélags Akraness hefur fengið boð um að funda með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, í stjórnarráðinu næstkomandi miðvikudag og að sjálfsögðu þáði formaður boðið.

Eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur eitt aðal baráttumál Verkalýðsfélags Akraness allt frá árinu 2008 verið afnám verðtryggingar á neytendalánum og að forsendubresturinn sem heimilin þurftu að þola í kjölfar efnahagshrunsins verði leiðréttur. Félagið hefur til dæmis lagt fram tillögur og ályktanir á vettvangi verkalýðshreyfingarninar á undanförnum árum hvað þessi mál varðar en því miður án mikils hljómgrunns. Fyrir kosningar höfðu hinir ýmsir stjórnmálaflokkar samband við formann VLFA og báðu hann um að halda erindi, meðal annars um þessi mál sem og önnur og að sjálfsögðu varð formaður ætíð við þeim beiðnum og sem dæmi hélt hann erindi fyrir Framsóknarflokkinn á einum 15 fundum fyrir síðastliðnar kosningar. 

Væntanlega verða þessi mál er lúta að aðgerðum til handa heimilanna til umræðu á þessum fundi og verður forvitnilegt að heyra í forsætisráðherra hvað það varðar. Það er morgunjóst að formaður mun styðja komandi ríkisstjórn í að koma til móts við heimilin og skuldsetta alþýðu eins og kostur er því það er mat formanns að afnám verðtryggingar og leiðrétting á forsendubrestinum sé eitt brýnasta hagsmunamál sem skuldsett alþýða þessa lands hefur staðið frammi fyrir fyrr og síðar.  

03
Jun

Tveir sjómenn heiðraðir í gær

Í tilefni sjómannadagsins í gær voru tveir sjómenn heiðraðir við hátíðarguðsþjónustu í Akraneskirkju. Athöfnin hófst kl. 11 og voru þar heiðraðir þeir Sigvaldi Loftsson og Jóhann Þóroddsson sem báðir eiga að baki langa og farsæla starfsævi sem sjómenn.

Að heiðruninni lokinni var gengið fylktu liði að minnismerki sjómanna á Akratorgi. Þar hélt sr. Eðvarð Ingólfsson stutta tölu og formaður sjómannadagsráðs, Tómas Rúnar Andrésson, lagði blómsveig að minnismerkinu. Fánaberar voru þeir Sigmundur Lýðsson og Haraldur Jónsson. Fyrr um morguninn var einnig farið að minnismerki um týnda sjómenn en það er staðsett í kirkjugarði Akraness. Þar var einnig lagður blómsveigur.

Það er Verkalýðsfélag Akraness sem stendur að þessari athöfn er lýtur að heiðrun sjómanna, minningarathöfninni um týnda sjómenn og athöfninni sem fram fer á Akratorgi þar sem blómsveigur er lagður að minnismerki sjómanna.

Akraneskaupstaður bauð síðan þeim sem heiðraðir voru og mökum þeirra til kvöldverðar á Galito og ber að þakka fyrir það.

Verkalýðsfélag Akraness óskar áðurnefndum aðilum innilega til hamingju með heiðrunina.

Myndir frá deginum má sjá hér en þær tók Ómar Traustason.

31
May

Sjómannadagurinn - leikskólabörn á Akranesi fengu harðfisk í morgun

Nú er Sjómannadagurinn að renna upp og af því tilefni fengu leikskólabörn á Akranesi glaðning frá sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness í morgun. Þar voru á ferðinni félagarnir Tómas Rúnar Andrésson og Sigmundur Lýðsson sem gáfu yfir 400 börnum á öllum leikskólum bæjarins harðfisk.

Aðrir dagskrárliðir tengdir sjómannadeginum eru þeir að eins og venjulega munu Slysavarnakonur á Akranesi halda upp á sjómannadaginn með glæsilegri kaffisölu í Jónsbúð sunnudaginn 2. júní milli kl. 13:30 og 16:00. 

Sjómannasunnudaginn sjálfan verður athöfn við minnisvarða um drukknaða og týnda sjómenn kl. 10:00 í kirkjugarðinum.

Kl. 11:00 verður Sjómannamessa í Akraneskirkju þar sem aldraðir sjómenn verða heiðraðir. Að messu lokinni verður gengið að Akratorgi og blómsveigur lagður að minnismerki sjómanna.  Þessar athafnir eru kostaðar og í umsjón Verkalýðsfélags Akraness.

30
May

Verðlagseftirlit VLFA - vörukarfan hækkað um 4,9% síðan í febrúar

Fyrr á þessu ári ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að gangsetja eigið verðlagseftirlit og fylgjast með reglubundnum hætti með þróun verðlags á matvöru og öðrum vörum til heimilanna. Eftirlitið fer þannig fram að félagið kaupir fyrirfram ákveðna vörukörfu og staðgreiðir hana á kassa. Enginn ágreiningur er um verð á vörunni því hann kemur skýrt fram á strimlinum og verðsamanburður milli tímabila ætti því að vera óumdeilanlegur.

Vinna við þetta verðlagseftirlit VLFA hófst í febrúar síðastliðinn þegar fyrsta vörukarfan var keypt og í dag fór starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness aftur á stúfana með innkaupalistann. Búið er að taka saman vörukörfu sem inniheldur ýmsar vörur úr flestum vöruflokkum og kostaði sú vörukarfa í febrúar kr. 23.287. Þessi sama vörukarfa kostar í dag kr. 24.430. Hækkunin á þessum þremur mánuðum nemur kr. 1.143 eða 4,9%. Velflestar vörutegundir hækka á tímabilinu, mest er hækkun á Icebergi um 57%, Kjarna jarðaberjasulta hækkar um 54% og frosið lambalæri hækkar um 17%. Ýmsar vörur standa í stað í vörukörfunni eins og mjólk, ostur, smjörvi og hreinsivörur sem hafa hvorki hækkað né lækkað á tímabilinu. Fáar vörur hafa lækkað í verði milli tímabila og þá er lækkunin ekki mikil.

Athygli vekur að ekki birtist ákveðið mynstur í þeim verðbreytingum sem orðið hafa, íslenskar vörur eru bæði að hækka og lækka, t.d. hækkar agúrkan um tæp 6% en tómatarnir lækka í verði um 5% hvað svo sem veldur því. Innfluttar vörur eru fáar að lækka, flestar standa í stað eða hækka þrátt fyrir styrkingu krónunnar undanfarna mánuði.

Þessu verðlagseftirliti verður haldið áfram og verður fróðlegt að vita hvaða breytingar verða á strimlinum að þremur mánuðum liðnum þegar næsta vörukarfa verður keypt.

30
May

Hækka stjórnarlaun um 87% - verið að skerpa á ábyrgðinni!

Þann 27 maí síðastliðinn var umfjöllun hér á heimasíðunni um þá gríðarlegu hækkun sem orðið hefur á stjórnarlaunum í lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði.  En frá árinu 2011 til ársins 2013 hafa stjórnarlaun í nokkrum lífeyrissjóðum hækkað frá 28% uppí allt að 87% eins og gerðist hjá Stapa lífeyrissjóði.

 Eðli málsins samkvæmt vakti þessi mikla launahækkun verðskuldaða athygli fjölmiðla og sem dæmi þá fjallaði mbl.is um þessa umfjöllun Verkalýðsfélags Akraness um launahækkun stjórnarmanna lífeyrissjóðanna.

Formaður vill byrja á því að ítreka að hann var að fjalla um hækkanir á stjórnarlaunum sjóðanna frá árinu 2011 til 2013 en ekki hvort stjórnarlaun hafi verið skert árin þar á undan.  Enda hafa allir launþegar orðið fyrir skerðingu á sínum launum og meira að segja hefur lífeyrir verið skertur um tugi prósenta frá hruni hjá þeim sjóðum sem hafa núna hækkað stjórnarlaun um tugi prósenta.

Ástæðan fyrir því að formaður er að skoða launahækkanir lífeyrissjóðanna frá 2011 eru þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru 5. maí 2011, samningar sem báru nafnið „samræmd launastefna“.  En í samningi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands var gerð bókun þar sem skýrt var kveðið á um að almennar launahækkanir skyldu vera samtals 11,4% í þriggja ára samningi og í þessari bókun kemur skýrt fram að samningsaðilar skuldbundu sig til þess að framfylgja þeirri launastefnu í framhaldinu. Orðrétt segir í þessari bókun ASÍ og SA frá 5. maí 2011:

"Almennar launahækkanir verða samtals 11,40% á samningstímanum. Sérstök hækkun kauptaxta er láglaunaaðgerð sem hækkar launakostnað misjafnlega eftir því hve margir taka laun skv. kauptöxtum. Framangreind niðurstaða kjarasamninga felur í sér að mótuð hefur verið sameiginleg og samræmd launastefna gagnvart þeim fjölmörgu samningum sem enn eru ógerðir á samningssviði aðila. Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að framfylgja framangreindri launastefnu í framhaldinu"

Grundvallaratriðið í þessu er að það eru aðilar vinnumarkaðarins sem fara með stjórn lífeyrissjóðanna og eru þeir sömu og gerðu þessa bókun sem kvað á um að laun skyldu ekki hækka meira en 11,4% á samningstímanum. Já, þessir aðilar semja um 11,4% til handa verkafólki og hækka síðan stjórnarlaun sín um allt að 87%.

Fréttamenn mbl.is höfðu samband við framkvæmdastjóra þessara lífeyrissjóða og báru þessar miklu launahækkanir undir þá. Þessir ágætu menn fóru eins og köttur í kringum heitan graut og svöruðu út og suður.  En flestir komu sér undan því að svara því hvort rétt væri að stjórnarlaunin hefðu hækkað um þessar prósentu tölur, heldur töluðu þeir um hver stjórnarlaunin voru fyrir árið 2011 og töluðu jafnvel um að stjórnarlaun hafi verið lækkuð 2008 og svo framvegis.

Það undarlega í þessu er að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Verslunarmanna sagði að stjórnarlaunin hefðu ekki hækkað um 51% hjá þeim heldur 22,7%.  Ég verð að viðurkenna að ég hef áhyggjur ef framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs VR kann ekki prósentureikning, því stjórnarlaunin árið 2011 voru 89.500 kr. en eru í dag 135.000 kr. og samkvæmt mínum útreikningum er þetta 51% hækkun.

Málið er að umfjöllun formanns snérist ekkert um hvað gerðist fyrir 2011 heldur hversu mikið stjórnarlaunin hækkuðu frá árinu 2011, einfaldlega vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins voru búnir að skuldbinda sig til að semja ekki um hærri launahækkanir en 11,4% . Svo koma þessir snillingar og reyna að réttlæta það að hækkun stjórnarlauna í lífeyrissjóðum langt umfram það sem samið var til handa verkafólki eigi sér eðlilega skýringar. Við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyri launafólks og hafa frá hruni skert réttindi sjóðsfélaga skv. fjármálaeftirlitinu um 130 til 150 milljarða. Svo reynir framkvæmdastjóri Stapa að réttlæta 87% launahækkun á stjórnarlaunum þannig að verið sé að skerpa á ábyrgð stjórnarmanna. Í fyrsta lagi hefur nánast enginn framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs borið nokkra ábyrgð þrátt fyrir þetta gríðarlega tap sjóðanna og einnig að búið sé að skerða réttindi um 150 milljarða frá hruni. Í öðru lagi er rétt að benda framkvæmdastjóra Stapa á að sjóðurinn hans tapaði 5,2 milljörðum og það bara vegna þess að þeir gleymdu að lýsa kröfu í þrotabú Straums. Já, takið eftir, 5,2 milljörðum og tala svo um að það þurfi að hækka stjórnarlaun um 87% því verið sé að skerpa á ábyrgð stjórnarmanna, ja hérna.

Málið er að það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að sömu lögmál gilda ekki fyrir almennt verkafólk þegar kemur að launahækkunum eins og hjá þeim sem eiga auðveldar með að skammta sér sínar eigin launahækkanir, eins og t.d. hjá lífeyrissjóðselítunni.

27
May

Stjórnarlaun í lífeyrissjóði hækkuð um 87%

Eins flestir muna þá var gengið frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði þann 5. maí 2011 undir heitinu „samræmd launastefna“. En í þessum kjarasamningum skuldbundu Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög Alþýðusambands Íslands, að undanskildu Verkalýðsfélagi Akraness, sig til þess að ganga frá öllum sínum kjarasamningum á þeim nótum að launahækkanir yrðu ekki hærri en 11,4% í þriggja ára samningi.

Eins og áður sagði gagnrýndi Verkalýðsfélag Akraness þessa samræmdu launastefnu harðlega á grundvelli þess að um 70% félagsmanna félagsins tilheyra fyrirtækjum sem eru starfandi í útflutningi og hafa því verið að hagnast umtalsvert m.a. vegna gengisfalls krónunnar. Það var mat félagsins að ekki kæmi til greina að setja útflutningsfyrirtækin uppá þennan láglaunavagn sem þarna var verið að semja um. Félagið var jafnframt tilbúið að sýna fyrirtækjum skilning sem ættu í rekstrarerfiðleikum vegna efnahagshrunsins, en var alls ekki tilbúið að setja öll fyrirtæki undir einn og sama hattinn hvað launahækkanir varðar.

Verkalýðsfélag Akraness fékk bágt fyrir þá afstöðu sína að vilja ekki taka þátt í þessari samræmdu launastefnu sem ASÍ og SA gengu frá. Það var algerlega ótrúlegt að forysta ASÍ skuli hafa lagst gegn því að nýta þetta tækifæri til verulegra launahækkana eins og t.d. handa fiskvinnslufólki og öðrum sem störfuðu hjá útflutningsfyrirtækjum en þessi fyrirtæki voru að hagnast eins og enginn væri morgundagurinn.

Gildir bara fyrir verkafólk

En kæru félagar, samræmda launastefnan uppá 11,4% í þriggja ára samningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, virðist bara átt að hafa gilda fyrir verkafólkið á hinum almenna vinnumarkaði. Alla vega er kristalskýrt að samræmda launastefnan gildir ekki fyrir launahækkanir stjórnarmanna í sumum lífeyrissjóðum á hinum almenna vinnumarkaði. Það er þyngra en tárum taki að aðilar vinnumarkaðarins sem fara með sameiginlega stjórn lífeyrissjóðanna skuli ætlast til þess að almennu verkafólki skuli vera gert að fara eftir samræmdri launastefnu sem kveður á um 11,4% launahækkun í þriggja ára samningi en tryggja svo sjálfum sér launahækkun á sama tímabili sem nemur 87% sem er 77% meira en samið var um handa verkafólki.

Það liggur fyrir að stjórnarlaun t.d. í lífeyrissjóðnum Stapa voru hækkuð fyrir nokkrum dögum síðan um 87%, já takið eftir, um 87% og það skrautlega í þessu var að þetta var tillaga sem fulltrúar atvinnurekenda í lífeyrissjóðnum lögðu fram, en atvinnurekendur fara með 50% atkvæða á aðalfundum sjóðanna. Rétt er að geta þess að Stapi er alls ekki eini lífeyrissjóðurinn sem hefur hækkað stjórnarlaun umtalsvert frá árinu 2011 og nægir að nefna lífeyrissjóð Verslunarmanna sem hefur hækkað sín stjórnarlaun um 51% og lífeyrissjóðinn Gildi sem hefur hækkað sín stjórnarlaun um 36%. Hér að neðan er myndræn samantekt sem sýnir hækkanir nokkurra lífeyrissjóða á launum stjórnarmanna frá árinu 2011 til 2013:

 Já, aðilar vinnumarkaðarins sögðu í kjarasamningunum 2011, við verðum að semja af skynsemi til að viðhalda hér stöðugleika og máttu launahækkanir alls ekki vera hærri en 11,4%. Svo koma þeir sjálfir og hækka laun sín um tugi prósenta meira en samið var um til handa verkafólki.

Já, það er von að hækka þurfi launakjör stjórnarmanna lífeyrissjóðanna og það í sumum tilfellum um tugi prósenta, þeir bera jú svo „mikla ábyrgð“ eins og sannaðist þegar sjóðirnir töpuðu 500 milljörðum af lífeyri launafólks og hafa samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins skert lífeyrisréttindi launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um allt að 150 milljarða frá hruni.  Nei, stjórnendur lífeyrissjóðanna bera ekki nokkra ábyrgð enda eru nánast allir framkvæmda- og forstjórar lífeyrissjóðanna enn við störf þrátt fyrir þessa útreið sem sjóðirnir fengu.

Rétt er að rifja upp í ljósi mikillar „ábyrgðar“ að Stapi lífeyrissjóður sem hækkaði stjórnarlaun sín um 87% þurfti að afskrifa t.d. 4 milljarða og það bara vegna þess að lögmenn sjóðsins gleymdu að lýsa kröfu í þrotabú Straums árið 2009.

Formaður félagsins vill taka það skýrt fram að auðvitað eigi fólk að fá sem mestar launahækkanir, en það á ekki að gilda bara fyrir sérhagsmunaelítuna, það að gilda fyrir alla.  En stór hluti þeirra sem sömdu samræmdu launastefnuna sem kvað á um einungis 11,4% launahækkun til handa verkafólki er núna að skammta sér launahækkun fyrir stjórnarsetu í lífeyrissjóðum sem nemur eins og áður sagði tugum prósenta umfram samræmdu launastefnuna og við slíku segir formaður VLFA: algjör hræsni.

24
May

Sumarleiga orlofshúsa hefst í dag

Undanfarna viku hefur verið unnið að endurbótum í orlofshúsi félagsins að Efstaási í Svínadal. Þar var skipt um eldhúsinnréttingu og er nú til dæmis komin uppþvottavél í húsið sem ekki var áður. Einnig var sett upp ný innrétting í baðherbergið. Félagið festi kaup á orlofshúsinu síðasta sumar og hefur það verið mjög vel nýtt síðan þá, jafnt að sumri sem vetri.

Í dag hefst sumarleiga orlofshúsanna en þá eru húsin leigð í viku í senn. Búið er að undirbúa öll hús og íbúðir félagsins fyrir komandi sumar en það eru íbúðirnar þrjár á Akureyri auk orlofshúsa í Húsafelli, Kjós, Ölfusborgum, Hraunborgum og tveggja húsa í Svínadal. Þess utan leigir félagið íbúð á Flateyri og orlofshús að Eiðum í sumar. Nýting allra orlofshúsanna er gífurlega góð og er nánast hver einasta vika bókuð á öllum stöðum fram til 6. september þegar sumarleigunni lýkur.

Það er von Verkalýðsfélags Akraness að félagsmenn eigi eftir að eiga góðar stundir í orlofshúsum og -íbúðum félagsins í sumar.

17
May

Ótrúleg vinnubrögð fjármálaráðneytisins

Eins og allir muna stóðu hjúkrunarfræðingar á Landsspítalanum í mikilli kjaradeilu á síðasta ári og endaði hún með því að ríkisstjórnin ákvað að hækka laun þeirra í gegnum svokallaða stofnanasamninga. Sú hækkun nam um 7%. Í kjölfar þessarar hækkunar kom eðlilega krafa frá öðum kvennastéttum innan heilbrigðisstofnana um sambærilega launahækkun og gerðist á Landspítalanum. Á grundvelli þessa þrýstings ákvað ríkisstjórnin þann 21. janúar 2013 að hækka laun kvennastétta á heilbrigðisstofnunum um 4,8% undir heitinu „jafnlaunaátak.“   

Fyrir nokkrum vikum síðan kom tilkynning frá fjármálaráðneytinu til heilbrigðisstofnana  um  þessa launahækkun, en í þeirri tilkynningu var kveðið á um að hún ætti að gilda afturvirkt frá 1. mars 2013.  Þessi launahækkun var til dæmis tilkynnt starfsmönnum á Heilbrigðisstofnun Vesturlands fyrir skemmstu og þeim sagt að launahækkunin kæmi til framkvæmda um næstu mánaðarmót og einnig greiðsla vegna afturvirkninnar.

Í morgun heyrði formaður VLFA í forsvarsmönnum Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands og var honum tjáð að þeir hefðu átt fund með aðilum frá fjármálaráðuneytinu. Þar var þeim tjáð að þeir fengju enga fjármuni til þessara launahækkana fyrr í desember á þessu ári og það þrátt fyrir að þeim hafi borist bréf um að þeim bæri að hækka laun frá og með 1. mars síðastliðnum.

Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands tilkynntu formanni VLFA að þar sem að ekki komi fjármunir til þessara launahækkana fyrr í desember þá muni þessar launahækkanir ekki koma til framkvæmda fyrr en þá þó svo að starfsmönnum hafi áður verið tilkynnt að greiðslan kæmi um næstu mánaðarmót. Það kom fram hjá forsvarsmönnum HVE að ekki væru til fjármunir til að mæta þessum launahækkunum og að þeim bæri skylda til að halda sig innan þeirrar fjárheimildar sem þeir hafa og á þeirri forsendu geta þeir ekki orðið við þessum launahækkunum fyrr en í desember.

Formaður verður að lýsa yfir undrun sinni á vinnubrögðum fjármálaráðuneytisins í þessu máli, að tilkynna heilbrigðisstofnunum að hækka eigi laun starfsmanna um 4,8% og láta stofnanirnar tilkynna starfsmönnum að fyrirhuguð hækkun eigi að taka gildi frá 1. mars en segja síðan eftir á að fjármagn með hækkuninni eigi ekki að koma fyrr en 1. desember.

Formaður skorar á stjórnvöld að veita Heilbrigðisstofnun Vesturlands þá fjármuni sem búið var að lofa í þetta verkefni án tafar þannig að hægt verði að standa við þær launahækkanir sem búið var að tilkynna starfsmönnum um.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image