• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Dec

Kjaradeilunni vísað til ríkissáttasemjara – aðgerðahópur virkjaður

Eins og fram kom í fréttum í gær þá sleit samninganefnd ASÍ viðræðum við Samtök atvinnulífsins í ljósi þeirra staðreynda að Samtök atvinnulífsins höfnuðu kröfunni um krónutöluhækkun á lægstu laun. Í ljósi þess kom samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands saman í morgun og er óhætt að segja að afar þungt hljóð hafi verið í fulltrúum hennar. Það kom skýrt fram að það er með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins skuli ekki vilja fara í þá vegferð með SGS að lagfæra hér þau skammarlega lágu lágmarkslaun sem ríkja á íslenskum vinnuamarkaði. Við erum að tala um launataxta sem einungis eru frá 191 þúsund upp í 227 þúsund krónur. Krafa Starfsgreinasambandsins sem byggð er á afar hóflegri kröfugerð hljóðar upp á að þessir taxtar hækki um 20 þúsund krónur sem myndi gera það að verkum að lægsti taxtinn færi upp í rétt rúmar 211 þúsund krónur.

Það er með ólíkindum að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafi yfir höfuð samvisku í sér til að bjóða sínum starfsmönnum upp á slík launakjör. Það er gríðarlega mikilvægt að almenningur átti sig á því að það eru fjölmargar atvinnugreinar að skila milljarða hagnaði, og samt starfar þar lágtekjufólk. Þetta á t.d. við um ferðaþjónustuna svo ekki sé nú talað um útgerðarfyrirtækin þar sem fiskvinnslufólkið starfar. En í útgerðinni nemur hagnaður í kringum 80 milljarða ár hvert á undanförnum árum.

Það er morgunljóst að það er himinn og haf á milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands hvað varðar hugmynd að nýjum kjarasamingi og má þar segja að þar sé vægt til orða tekið. Samtök atvinnulífsins hafa í raun og veru boðið upp á launahækkun sem nemur í kringum 5.000 krónum. Þegar búið er að draga skatta og launatengd gjöld af þeirri upphæð þá dugar slíkt ekki einu sinni fyrir 12“ pizzu og kóki með. Í ljósi þessa djúpstæða ágreinings sem er á milli samningsaðila ákvað samninganefnd SGS því að vísa kjarasamningsviðræðum til ríkissáttasemjara, enda er talið vonlítið um frekari árangur í samningaumleitunum. Jafnframt var samþykkt að virkja aðgerðarhóp SGS í framhaldinu. Það þýðir á mannamáli að ef ekki nást samningar á næstu dögum og vikum þá er ljóst að það getur stefnt í einhvers konar verkföll ef aðilar Samtaka atvinnulífsins sjá ekki að sér og koma verulega til móts við lágtekjufólk hér á landi.

Það er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin í heild sinni standi nú þétt saman og hviki hvergi frá þeirri sanngjörnu kröfu sem lýtur að því að lagfæra kjör lágtekjufólks með sanngjörnum hætti eins og kröfugerð SGS kveður á um. Nú er tækifæri fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að ávinna sér aftur það traust sem hreyfingin hefur tapað á undanförnum árum með því að standa þétt saman og hvika hvergi frá því að bæta kjör sinna félagsmanna með afgerandi hætti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image