• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

07
Mar

Sáttatillaga ríkissáttasemjara samþykkt á Akranesi

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um sáttatillögu vegna tveggja kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að í gegnum tvö landssambönd, annars vegar í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og hins vegar Samiðn. Félagsmenn VLFA kolfelldu þessa samninga í janúar, en þann 28. febrúar síðastliðinn var skrifað undir þá sáttatillögu sem félagsmenn hafa nú kosið um.

Niðustaðan er sú að félagsmenn sem starfa á almenunm vinnumarkaði og tilheyra Starfsgreinasambandinu samþykktu sáttatillöguna með 85,1% atkvæða, 6,8% voru á móti og 8,1% skiluðu auðu. Félagsmenn í iðnsveinadeild og tilheyra Samiðn samþykktu einnig sáttatillöguna með 75% atkvæða, 25% voru á móti og enginn var auður.Það er því ljóst að kjarasamningar sem gerðir voru 21. desember síðastliðinn munu taka gildi frá 1. febrúar 2014 með breytingum sem kveður á um í sáttatillögunni. Helstu breytingar eru þær að í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014 greiðist sérstök eingreiðsla, kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Einnig hækka desember- og orlofsuppbætur um kr. 32.300, en desemberuppbót m.v. fullt starf á árinu 2014 er kr. 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 er m.v. fullt starf kr. 39.500.

Launabreytingar frá 1. febrúar eru þær að almennt hækka laun um 2,8%. Kauptaxtar sem eru undir kr. 230.000 hækka sérstaklega og nemur hækkunin tæplega 5%. Dæmi: Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um 9.565 og Launaflokkur 17, eftir 7 ár hækkar um kr. 10.107. Aðrir kauptaxtar og kjaratengdir liðir (bónus, premía, akkorð o.fl. hækka um 2,8%, þó að lágmarki um kr. 8.000 kr. á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Press here for information in english.

Informacje w języku polskim

07
Mar

Árangurslaus fundur hjá Ríkissáttasemjara vegna Elkem

Í gær var haldinn fundur hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna Elkem Íslands á Grundartanga. Það skal algerlega viðurkennast að formaður eygði þá von að forsvarsmenn fyrirtækisins myndu leggja fram einhvers konar tilboð sem hægt væri að taka til skoðunar, en það er skemmst frá því að segja að það sem lagt var fram í gær var ekki pappírsins virði. Með öðrum orðum, þetta var gamla góða samræmda launastefnan sem samið var um 21. desember síðastliðinn með örlitlum breytingum.

Nú hefur yfirvinnubann staðið yfir hjá Elkem Ísland í rétt tæpar tvær vikur og morgunljóst að ef ekki mun draga til tíðinda og stefnubreytingar af hálfu Samtaka atvinnulífsins og forsvarsmanna fyrirtækisins þá er ekkert annað en verkfall sem mun blasa við í þessari deilu. Á mánudaginn mun formaður funda með starfsmönnum Elkem Íslands á Gamla Kaupfélaginu og hefst fyrri fundurinn kl. 13 og sá síðari kl. 19. Á þeim fundum verður farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í deilunni. Það er mikilvægt að forsvarsmenn Elkem átti sig á þessari stöðu og fari nú að leggja fram einhverjar hugmyndir til lausnar á þessari deilu, ekki hugmyndir sem gera ekkert annað en að hleypa illu blóði í starfsmenn eins og gerðist eftir tilboðið frá þeim í gær.

07
Mar

Sérkjarasamningur vegna starfa í síldarbræðslu samþykktur

Í gær fór formaður fór á vaktaskiptum í síldarbræðslu HB Granda á Akranesi og kynnti fyrir starfsmönnum nýjan sérkjarasamning sem félagið skrifaði undir síðastliðinn mánudag. Í heildina gefur samningurinn rétt rúm 5% við undirskrift, en samningurinn er til þriggja ára. Samningurinn gefur starfsmönnum einnig færi á að sækja námskeið sem getur fært þeim töluverðar kjarabætur. Til dæmis mun starfsmaður síldarbræðslunnar sem hefur lokið báðum þeim námskeiðum sem standa til boða samkvæmt samningi þessum og hefur starfað í verksmiðjunni í 7 ár hafa í grunnlaun 287.000 krónum á mánuði.

Aðaltekjumöguleikar starfsmanna síldarbræðslna liggja í vöktunum og því skiptir miklu máli að veiðar á uppsjávarafla séu góðar, því laun taka miklum hækkunum þegar staðnar eru vaktir í bræðslum. Það ánægjulega í síldarbræðslunni á Akranesi er að allt stefnir í að fljótlega muni hefjast bræðsla á beinum í verksmiðjunni og til stendur að staðnar verði vaktir mánudaga til föstudaga, en slíkt mun hafa talsverð áhrif til launahækkana starfsmanna.

Starfsmenn voru almennt ánægðir með samninginn og var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum

07
Mar

Laust í Ölfusborgum vegna forfalla

Vegna forfalla er orlofshús félagsins í Ölfusborgum laust nú um helgina, áhugasamir hafið samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900.

05
Mar

Öskudagur 2014

Það fer vart framhjá neinum að í dag er Öskudagur og bærinn fullur af búningaklæddum börnum sem syngja í búðum og á vinnustöðum gegn greiðslu í formi sælgætis. Að sjálfsögðu er vel tekið á móti söngglöðum börnum á skrifstofu VLFA, en mikið líf og fjör hefur verið á skrifstofunni í dag. 

Myndir eru komnar inn á Facebook-síðu félagsins og í myndaalbúm hér á síðunni.

05
Mar

Fundað hjá ríkissáttasemjara á morgun vegna Elkem

Járnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaJárnblendiverksmiðja Elkem Ísland á GrundartangaEins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur Elkem Ísland út 1. desember síðastliðinn. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að koma á kjarasamningi hefur það ekki tekist. Fyrir þónokkrum vikum síðan vísaði félagið deilunni til ríkissáttasemjara og undir hans handleiðslu hafa verið haldnir 5 fundir án árangurs. Á síðasta mánudag var fundur með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara en því miður gerðist æði lítið á þeim fundi. Á morgun er fyrirhugaður fundur hjá sáttasemjara í þessari deilu og væntir formaður þess að Samtök atvinnulífsins muni leggja fram einhvers konar tilboð þá.

Fyrir rúmri viku síðan hófst yfirvinnubann hjá starfsmönnum Elkem en það er einn liður í því að knýja fram sanngjarnar og eðlilegar kjarabætur fyrir starfsmennina. Það er ljóst að ef ennþá mun bera mikið í milli á fundinum á morgun þá verður fátt annað í stöðunni en að boða tafarlaust til fundar með starfsmönnum. Næsta skref er því væntanlega að kjósa um verkfall ef ekkert miðar áfram til lausnar á deilunni.

Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá þá miklu samstöðu og einhug sem ríkir á meðal starfsmanna fyrirtækisins í þessari deilu og er ekki nokkurn bilbug að finna á samtakamætti starfsmanna. Ljóst er að ögurstund í þessari deilu mun væntanlega renna upp á morgun. Það liggur fyrir að störf í stóriðjum eru krefjandi, áhættusöm og erfið og því mikilvægt að launakjör þeirra endurspegli þessar bláköldu staðreyndir. Það liggur til að mynda fyrir að Elkem Ísland hefur hagrætt í launakostnaði verkafólks á liðnum misserum en launakostnaður fyrirtækisins hefur lækkað um tæp 10% á milli ára. Það endurspeglar það að starfsfólki hefur fækkað sem hefur leitt af sér stóraukið álag á þá sem eftir eru. Það má líka segja og hafa í huga að launakostnaður stóriðja almennt er afar lágur sé tekið tillit til heildarveltu þessara fyrirtækja. Sem dæmi þá liggur fyrir að launakostnaður af heildarveltu Elkem er einungis 6,15%. Það verður líka að hafa í huga að Elkem er útflutningsfyrirtæki og það hefur verið stefna VLFA að fyrirtæki í útflutningi sem hagnast hafa á falli íslensku krónunnar skili þeim ávinningi með einhverjum hætti til starfsmanna.  

28
Feb

Skrifað undir sáttatillögu vegna kjarasamnings á almennum vinnumarkaði

Nú í morgun skrifuðu fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins undir sáttatillögu ríkissáttasemjara vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þessi sáttatillaga er viðauki við kjarasamninginn sem mörg félög undirrituðu þann 21. desember sl.

Í viðaukanum felst að kjarasamningurinn frá 21. desember 2013 tekur gildi 1. febrúar, en með þeim breytingum að orlofsuppbætur hækka samtals um 32.300 kr., en desemberuppbót verður kr. 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 verður 39.500. Einnig kemur til sérstök eingreiðsla kr. 14.600 í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014. Miðast upphæðin við fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Samningurinn gildir til loka febrúar 2015.

Launabreytingar eru þær að frá 1. febrúar 2014 skulu laun og kauptaxtar hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma. Kauptaxtar kr. 230.000 og lægri á mánuði hækka sérstaklega um jafnvirði eins launaflokks. Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um kr. 9.565 og launaflokkur 17 , eftir sjö ár, hækkar um kr. 10.107. Lágmarkslaun verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Sáttatillöguna má sjá í heild sinni hér.

Í næstu viku fer fram kosning um sáttatillöguna og verður kjörfundur á skrifstofu VLFA frá kl. 10:00 mánudaginn 3. mars og stendur hann yfir til kl. 12:00 á hádegi föstudaginn 7. mars. Hægt er að kjósa á opnunartíma skrifstofu milli kl. 8 og 16, en einnig er hægt að óska eftir því að fulltrúar félagsins mæti á vinnustaði og gefi fólki kost á að kjósa þar.

Í morgun var einnig skrifað undir kjarasamning fyrir starfsmenn Síldarbræðslunnar og munu starfsmenn fá kynningu í næstu viku og kjósa um samninginn þá.

28
Feb

Gríðarleg samstaða á meðal starfsmanna Elkem

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni á félagið í harðri kjaradeilu vegna starfsmanna Elkem Ísland á Grundartanga. Einnig hefur komið fram að yfirvinnubann hefur nú staðið yfir í 6 daga og er þetta yfirvinnubann einn liður í því að reyna að ná fram sanngjörnum og réttlátum kröfum starfsmanna um hækkun launa.

Í gærmorgun lá orðið fyrir að Samtök atvinnulífsins höfnuðu því alfarið að láta Verkalýðsfélag Akraness hafa þá kjarasamninga sem gerðir höfðu verið á hinum almenna vinnumarkaði, og einnig við síldarbræðslurnar fyrir austan og í Vestmannaeyjum, nema félagið myndi skuldbinda sig til að ganga í takt við samræmda launastefnu ASÍ og SA. Launastefnu sem kveður einungis á um 2,8% launahækkun. Slíkri kröfu hefur Verkalýðsfélag Akraness algjörlega hafnað og ríkir algjör einhugur á meðal starfsmanna Elkem um að slíka launahækkun verði ekki undir nokkrum kringumstæðum samið um.

Um hádegið í gær höfðu Samtök atvinnulífsins samband við félagið og viðruðu þá hugmynd hvort félagið vildi skoða að gera samning til lengri tíma fyrir Elkem en gerður var á hinum almenna vinnumarkaði og snerust þær hugmyndir þá um 2-3 ára samning. Slík hugmynd er í anda þess sem félagið sjálft hefur meðal annars viðrað bæði við forsvarsmenn fyrirtækisins og við Samtök atvinnulífsins þannig að það hefur alltaf legið fyrir að þessa leið væri félagið til í að skoða. Enda mun slík leið verða þess valdandi að félagið er ekki þátttakandi í þeirri samræmdu launastefnu sem samið hefur verið um.

Félagið hélt tvo öfluga starfsmannafundi í gær með starfsmönnum Elkem og fóru þeir fram á Gamla kaupfélaginu á Akranesi. Á þeim fundum var farið ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu og það var gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þá ofboðslegu samstöðu sem ríkir á meðal starfsmanna í þessari kjaradeilu. Þessi ákvörðun SA varð þess valdandi að starfsmenn samþykktu að fresta því í nokkra daga að láta kjósa um verkfall í fyrirtækinu og vilja menn sjá hvort kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku muni skila einhverjum árangri eður ei. Krafa starfsmanna er alveg skýr. Ef kjaraviðræðurnar í byrjun næstu viku skila ekki árangri og fyrirtækið og SA koma ekki verulega til móts við kröfur starfsmanna þá verður kosið um allsherjarverkfall hjá Elkem Ísland á Grundartanga um miðja næstu viku.

Það liggur fyrir að fyrirtækið hefur leitað til mikillar hagræðingar er tengist starfsmannahaldi og á það reyndar við um flest fyrirtæki sem tengjast stóriðju. Sem dæmi hefur launakostnaður Elkem Ísland á Grundartanga lækkað um tæp 10% hjá verkafólki á árunum 2012 og 2013. Þessa lækkun má rekja til þess að starfsmönnum hefur fækkað og hefur sú fækkun leitt af sér stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Formaður fór líka yfir það á fundinum að hlutfall launa af heildarveltu fyrirtækisins er afar lágt en það nemur einungis 6,15% af heildarveltunni. Þetta er umhugsunarefni því það sama er uppi á teningnum hjá Norðuráli á Grundartanga, þar er hlutfall launa af heildarveltu einungis 6,85%. Með öðrum orðum, önnur atriði sem hafa áhrif á rekstur þessara fyrirtækja eru rúm 93%. Því má segja að hækkun launa hefur ekki mikil áhrif á það hver rekstrarafkoma stóriðja er.

Að mati formanns félagsins eru það forréttindi að fá að stjórna stéttarfélagi þar sem slíkur einhugur og samstaða ríkir þegar kemur til jafnalvarlegra átaka eins og félagið á nú í. Það morgunljóst að forystumaður í stéttarfélagi er ekki neitt nema hann njóti víðtæks stuðnings sinna félagsmanna í þeirri kjarabaráttu sem félagið stendur í á hverjum tíma fyrir sig. Samstaða er hornsteinninn í allri verkalýðsbaráttu á Íslandi en því miður er þeirri samstöðu ekki til að dreifa þegar horft er yfir verkalýðshreyfinguna í heild sinni. Nægir að nefna í því samhengi að það eru fjögur önnur stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem á Grundartanga en þau hafa neitað að taka þátt í þeirri kjarabaráttu sem háð er nú á Grundartanga og neitað að taka þátt í yfirvinnubanninu sem allir sem þátt tóku í kosningu um bannið samþykktu. Þetta er að mati formanns þeim félögum til skammar.

28
Feb

Aðalfundur deilda félagsins haldinn

Á síðasta miðvikudag var haldinn aðalfundur allra deilda félagsins nema sjómannadeildar enda er sá aðalfundur ætíð haldinn á milli jóla og nýaárs sökum aðstæðna sjómanna.

Auk venjubundinna aðalfundarstarfa, sem eru fólgin í því að kjósa stjórnarmenn í deildirnar, var farið yfir starfsemi félagsins og síðast en ekki síst stöðu kjaramála. Á fundinum fór formaður yfir að Verkalýðsfélag Akraness hefur alfarið hafnað samræmdri launastefnu hvað varðar sérkjarasamninga félagsins á Grundartanga. Enda er þar um sjálfstæða kjarasamninga að ræða og ekki hægt undir nokkrum kringumstæðum að sætta sig við að launakjör þeirra starfsmanna sem þar starfa séu ákvörðuð í einhverri samræmdri launatefnu á milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins.

Það ríkti gríðarlegur einhugur og samstaða á meðal fundarmanna vegna þeirra kjaradeilna sem félagið á í og sem dæmi þá er félagið núna í harðri kjaradeildu vegna sérkjarasamnings Elkem Ísland á Grundartanga en yfirvinnubann skall á þar af fullum þunga síðasta sunnudag.

Ánægjulegt var að góð mæting var á fundinn og eins og áður sagði, samstaða og einhugur á meðal fundarmanna um að standa þétt við bakið á félaginu í þeim kjaradeilum sem í gangi eru.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image