• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

04
Sep

Árangurslítill fundur í gær með stjórnendum Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa fjölmargir starfsmenn Norðuráls kvartað sáran yfir stórauknu vinnuálagi á liðnum misserum.  Starfsmönnum ber flestum saman um að þetta álag hafi verið að aukast jafn og þétt á síðastliðnum árum.

Félagið hélt t.d. fund fyrir rétt rúmri viku síðan með starfsmönnum steypuskála en þar hefur vinnuálagið að sögn starfsmanna verið ómanneskjulegt að undanförnu.  Það liggur fyrir að á 12 tíma vakt hafa starfsmenn þurft að nærast í sínum neysluhléum undir mikilli pressu og ná vart 30 mínútna matartíma á 12 tíma vakt.  Meira að segja hefur það komið fyrir að menn hafa vart komist í neysluhlé. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað komið á framfæri þessum umkvörtunum starfsmanna um aukið álag, en þetta aukna álag er ekki bara einskorðað við steypuskálann heldur teygir það anga sína víðar í verksmiðjunni m.a. inn í kerskálana.

Ugglaust eru margar ástæður fyrir þessu aukna álagi en það liggur m.a. fyrir að framleiðsla fyrirtækisins hefur aukist umtalsvert á liðnum árum og hvert framleiðslumetið hefur verið slegið á fætur öðru en núna er framleiðslan að verða komin upp í 300 þúsund tonn á ári. Á sama tíma og þessi framleiðsluaukning á sér stað hefur starfsfólki verið að fækka enda hefur launakostnaður fyrirtækisins lækkað á milli árana 2012 og 2013 um tæp 7%.

Að sjálfsögðu liggur fyrir að álag eykst á þá sem eftir verða þegar starfsfólki fækkar á sama tíma og framleiðslan er að aukast. 

Í gær áttu formaður og aðaltrúnaðarmaður fund með framkvæmdastjóra Norðuráls og einnig framkvæmdastjóra mannauðssvið.  Það er mat formanns að skilningur yfirstjórnar fyrirtækisins á þeim kvörtunum sem hafa borist um aukið álag sé því miður ekki til staðar enda kemur skýrt fram í máli stjórnenda að þetta aukna álag eigi vart stoð í raunverulekanum.  En framkvæmdastjórarnir viðurkenndu þó að það væri tímabundið álag í steypuskálanum vegna steypu á nýrri sérframleiðslu en tóku skýrt fram að við því hafi fyrirtækið brugðist með fjölgun starfsmanna í steypuskálanum.

Starfsmenn segja hins vegar að eðli málsins samkvæmt þurfi að fjölga vegna þessa sérframleiðslu en hún ein og sér kallar á allt að þrjú nú störf. En álagið í steypuskálanum er áfram nánast það sama og ennþá standa menn nánast samfleytt í 12 tíma með einu 30 mínútna neysluhléi sem starfsmenn þurfa að taka undir pressu eins og áður sagði.

Á fundinum í gær var rædd sú krafa sem upp er komin inni í steypuskálanum um að tekið verði upp 8 tíma vaktakerfi eins og er hjá Elkem en ekki var annað að heyra á framkvæmdastjóra Norðuráls að honum hugnaðist ekki slíkt kerfi, en benti þó á að vissulega sé allt undir þegar kjarasamningar losna um næstu áramót.

Það er morgunljóst að komandi kjaraviðræður vegna kjarasamnings Norðuráls verða erfiðar enda er mikilvægt að ef menn ætla að greiða úr að mínu mati réttmætum  umkvörtunum starfsmanna þá verði stjórnendur að hlusta og vera tilbúnir til að viðurkenna vandann en gera ekki eins og strútarnir þegar þeir skynja utanaðkomandi hættu með því að stinga hausnum í sandinn og halda að vandamálið og hættan hverfi við slíkt.

Verkalýðsfélag Akraness mun mjög fljótlega boða til fundar með öllum starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni þar sem þetta aukna álag verður til umræðu sem og hvaða áherslur starfsmenn vilji leggja upp með í komandi kjarasamningum.

29
Aug

Starfsmenn steypuskála Norðuráls vilja 8 tíma vaktakerfi

Verkalýðsfélag Akraness hélt fjölmennan fund með starfsmönnum steypuskála Norðuráls á þriðjudaginn síðastliðinn. Tilefni fundarins var umkvörtun starfsmanna yfir stórauknu álagi á undanförnum misserum. Óskuðu starfsmenn eftir aðstoð félagsins við að reyna að koma óánægju þeirra vel á framfæri.

Það liggur fyrir að álag á starfsmenn Norðuráls vítt og breitt um verksmiðjuna hefur aukist á liðnum árum og er það samróma álit þeirra sem þar starfa. Ástæðan er margþætt, meðal annars hefur framleiðsla fyrirtækisins aukist umtalsvert og sem dæmi þá er fyrirtækið að framleiða uppundir 300.000 tonn af áli ár hvert. Á sama tíma og það hefur verið að gerast hefur starfsmönnum á gólfi, ef þannig má að orði komast, fækkað töluvert. Það liggur til dæmis fyrir að launakostnaður Norðuráls vegna verkafólks lækkaði á milli áranna 2012 og 2013 um 3,1% og þegar tekið hefur verið tillit til kjarasamningsbundinna hækkana á tímabilinu þá nemur þessi lækkun 6,6%.

Þetta er einfaldlega vegna þess að starfsmönnum hefur fækkað þrátt fyrir þessa miklu framleiðsluaukningu fyrirtækisins sem síðan kemur fram sem stóraukið álag á þá starfsmenn sem eftir eru. Það var mikill hiti í starfsmönnum steypuskála á fundinum sem töluðu um að þeir væru að bugast undan auknu álagi og voru fundarmenn sammála um að þeir hræðast það að þetta álag muni ógna velferð og auka slysahættu starfsmanna.

Fundurinn samþykkti að fela formanni Verkalýðsfélags Akraness að koma þessum umkvörtunum starfsmanna rækilega á framfæri við yfirstjórn fyrirtækisins og þeir kröfðust þess einnig að teknar verði án tafar upp viðræður um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Í dag eru starfsmenn Norðuráls að vinna á 12 tíma vöktum og undir því álagi sem starfsmenn eru tekur slíkt verulega á.

Formaður hefur sent forstjóra, framkvæmdastjóra og starfsmannastjóra fyrirtækisins erindi þar sem þessum áhyggjum og umkvörtunum starfsmanna er komið vel á framfæri og einnig ósk um að hafnar verði viðræður um manneskjulegt vinnufyrirkomulag sem byggist á rótgrónu vaktakerfi Elkem Ísland. Vaktakerfi sem er fjölskylduvænt og fer mun betur með starfsmenn í alla staði en 12 tímavaktakerfi. 

Formaður vonast til að fá jákvætt svar frá forsvarsmönnum fyrirtækisins og átti hann meðal annars gott samtal við forstjóra fyrirtækisins í gær sem lofaði að kynna sér þessi mál vel og rækilega enda kom fram í máli hans að það skipti Norðurál miklu máli að starfsmenn séu ánægðir í starfi og öll fyrirtæki þurfi að hafa jákvæða og ánægða starfsmenn til að ná árangri. Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls eru orðnir þreyttir á þessu álagi og það er mikilvægt fyrir Norðurál að átta sig á því að ef ekki verður tekið á þessu aukna álagi getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið þegar atvinnuástand á vinnumarkaði lagast.

Það er til að mynda morgunljóst í huga formanns að ef þetta mikla álag og 12 tíma vaktakerfi muni ekki lagast þá muni margir núverandi starfsmenn Norðuráls horfa hýru auga á nýjan 400 manna vinnustað sem hugsanlega rís við hliðina á Norðuráli á Grundartanga. En eins og flestir vita stefnir í að sólarkísilverksmiðjan Silicor hefji framkvæmdir á haustmánuðum sem skapa eins og áður sagði allt að 400 ný störf og því er mikilvægt að yfirstjórn Norðuráls hlusti af athygli á þessar sem og aðrar umkvartanir starfsmanna og bregðist við þeim því annars getur farið illa.

25
Aug

Fundur annað kvöld með starfsmönnum steypuskála Norðuráls

Annað kvöld, þriðjudaginn 26. ágúst, mun formaður Verkalýðsfélags Akraness funda með starfsmönnum steypuskála Norðuráls. Fundurinn hefst kl. 20:00 og verður haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Ástæða fundarins er það aukna álag sem starfsmenn steypuskála hafa fundið fyrir undanfarna mánuði en fjölmargir þeirra hafa leitað til félagsins og óskað eftir aðstoða vegna þess.

Á fundinum verður meðal annars farið yfir til hvaða aðgerða hægt er að grípa í aðstæðum sem þessum en gríðarlega mikilvægt er að öryggi og velferð starfsmanna sé ætíð í fyrsta sæti.

Verkalýðsfélag Akraness vonast til að sjá sem flesta starfsmenn steypuskálans á þessum áríðandi fundi. Auglýsingu um fundinn má sjá hér til hliðar.

25
Aug

Ferð eldri félagsmanna VLFA næstkomandi fimmtudag

Næstkomandi fimmtudag, 28. ágúst, er komið að hinni árlegu ferð Verkalýðsfélags Akraness með eldri félagsmönnum og mökum þeirra.

Að þessu sinni er ferðinni heitið í uppsveitir Borgarfjarðar og boðið verður upp á hádegisverð í Reykholti. Að því loknu verður haldið til Þingvalla um Kaldadal með viðkomu á ýmsum áhugaverðum stöðum. Ferðin verður farin undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen sem mun vafalaust fræða ferðalanga um ýmislegt áhugavert á leiðinni.

Þessar árlegu ferðir með eldri félagsmönnum hafa alltaf verið einstaklega ánægjulegar og mikið tilhlökkunarefni. Félagsmenn sem eru 70 ára og eldri hafa fengið sent bréf heim og skráning stendur yfir til hádegis á miðvikudaginn.

21
Aug

Til leigu fullbúin íbúð á Akureyri í vetur

Ein af íbúðum félagsins á Akureyri er laus til leigu í vetur, um er að ræða tímabundna leigu frá 1. september til 15. maí og hentar íbúðin því vel þeim sem til dæmis sækja skóla á Akureyri í vetur.  Íbúðin er 53 fm og leigð með öllum húsgögnum og húsbúnaði. Í henni eru tvö svefnherbergi, þvottavél inni á baði, rúmgóðar svalir.

Hægt er að skoða myndir úr íbúðinni með því að smella hér. Áhugasamir hafi samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900.

Uppfært kl. 13:30 - Búið er að finna leigjanda í íbúðina, svo hún er ekki laus lengur.

06
Aug

Heiðursfélaginn og baráttukonan Bjarnfríður Leósdóttir níræð í dag

Í dag á baráttukonan og verkalýðsfrömuðurinn og heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Akraness Bjarnfríður Leósdóttir 90 ára afmæli. Bjarnfríður fæddist þann 6. ágúst 1924 sem er sama ár og Verkalýðsfélag Akraness var stofnað, en það var stofnað 14. október 1924 og verður því, eins og Bjarnfríður, nírætt á þessu ári.

Bjarnfríður hefur tilheyrt Verkalýðsfélagi Akraness allt frá árinu 1959 þegar hún fyrst tók þátt í baráttu fyrir bættum kjörum kvenna sem störfuðu við síldarvinnslu Haraldar Böðvarssonar. Þessi mikla baráttukona hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Akraness, en fyrst var hún kjörinn í aðalstjórn félagsins sem varagjaldkeri árið 1960. Hún hefur barist gríðarlega fyrir réttindum kvenna í gegnum kvennadeild Verkalýðsfélags Akraness, en þar var hún fyrst kjörin í stjórn 1966. Þær störfuðu náið saman, hún og Herdís Ólafsdóttir sem einnig tilheyrði Verkalýðsfélagi Akraness um alllanga hríð, en Herdís lést árið 2007. Formaður félagsins er ekki í neinum vafa um að sú elja og atorkusemi sem einkenndi störf og baráttu Bjarnfríðar Leósdóttur fyrir bættum kjörum íslenskrar alþýðu hefur svo sannarlega skilað sér í hinum ýmsu réttindum til handa íslensku verkafólki.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar Bjarnfríði innilega til hamingju með daginn, með þökk fyrir hennar framlag í þágu Verkalýðsfélags Akraness að bættum kjörum íslenskrar alþýðu.

28
Jul

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða samþykkja nýjan kjarasamning

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var þann 11. júlí síðastliðinn.

Á kjörskrá voru 149 manns. Greidd atkvæði voru 52 talsins eða tæp 35%. Já sögðu 50 eða 96,2%. Nei sögðu 2 eða 3,8%. Enginn seðill var auður eða ógildur.

Samningurinn telst því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða og tekur því gildi frá 1. maí 2014.

25
Jul

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða - munið að skila atkvæðaseðlinum!

Starfsmenn Akraneskaupstaðar og Höfða eru minntir á að koma atkvæðaseðli sínum til skila fyrir klukkan 14. næstkomandi mánudag, en allir félagsmenn sem eru að vinna eftir nýgerðum kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga eiga að hafa fengið kjörgögn vegna póstatkvæðagreiðslunnar heimsend.

Póststimpill gildir ekki, atkvæðið þarf að komast í hús á Sunnubraut 13 fyrir klukkan 14 á mánudaginn. Atkvæði sem berast eftir þann tíma teljast ekki með. Hægt er að skila atkvæðaseðlum inn um póstlúgu bakdyramegin á Sunnubraut 13 um helgina, eða skila því á mánudaginn fyrir kl. 14.

22
Jul

Stöðvið blóðbaðið á Gaza - Útifundur á Lækjartorgi á morgun kl. 17

Engum þeim sem eitthvað hafa fylgst með fréttum ætti að geta dulist hið grafalvarlega ástand sem nú ríkir á Gaza-svæðinu. Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir kröfur friðar- og mannréttindasamtaka víða um heim og krefst þess að mannréttindi séu virt á svæðinu og fordæmir það ofbeldi og ofsóknir sem saklausir borgarar hafa þurft að þola á svæðinu, enda getur slíkt aldrei verið réttlætanlegt.

Félagið Ísland-Palestína, með stuðningi fjölmargra annarra félagasamtaka, gengst fyrir útifundi á Ingólftorgi kl. 17 á morgun, miðvikudaginn 23. júlí. Ræðumaður er Dagur B. Eggertsson borgarstjóri en auk hans koma fram nokkrir listamenn. Fundurinn verður haldin undir kjörorðunum:

„Stöðvum blóðbaðið, alþjóðlega vernd"

"Burt með herkvína, niður með hernámið“ og

„Frjáls Palestína“

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hvetur félagsmenn og landsmenn alla til að mæta á útifundinn og mótmæla þeim grimmilegu mannréttindabrotum sem eiga sér stað á Gaza-svæðinu.

21
Jul

Laust í bústað 8. ágúst vegna forfalla

Vegna forfalla er laust í orlofshús félagsins við Efstaás í Svínadal vikuna 8. til 15. ágúst. Tilvalið að skella sér í berjamó, fara í sund að Hlöðum, golf á Þórisstöðum og veiða í vötnunum í Svínadal.

Fyrstur kemur - fyrstur fær!

Uppfært 21.07.2014 kl. 15:00 - Vikan er bókuð og ekki laus lengur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image