• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

17
Feb

Samningafundur vegna Norðuráls

Í dag verður haldinn tíundi samningafundurinn hjá ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings starfsmanna Norðuráls, en eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá rann samningurinn út um síðustu áramót.

Það er svo sem enginn launung á því að töluvert ber ennþá á milli samningsaðila en hins vegar er ætíð von að saman dragi með aðilum á meðan viðræður eiga sér stað. Það liggur fyrir að starfsmenn Norðuráls eygja von um góðan samning enda hefur rekstur Norðuráls blessunarlega ætíð gengið mjög vel, en fyrirtækið er eitt besta rekna fyrirtæki á landinu og hefur skilað hagnaði nánast öll þau ár sem það hefur verið starfrækt. Á þeirri forsendu vilja starfsmenn eðlilega fá aukna hlutdeild í þessari góðu afkomu.

Á fundinum í dag verður farið yfir hin ýmsu atriði er snúa að kröfugerð stéttarfélaganna, en ein aðalkrafan er hvellskýr: að grunnlaun fyrir dagvinnu hækki umtalsvert enda eru grunnlaunin í dag því miður alltof lág og þar verður að verða umtalsverð breyting á í komandi kjarasamningi.

Það er morgunljóst að miklu máli skiptir fyrir alla að samningsaðilar nái saman sem fyrst, því álögur á almenning í þessu landi hafa hækkað gríðarlega á undanförnum árum og misserum og því mikilvægt að starfsmenn Norðuráls sem og annað launafólk fái lagfæringu á sínum launum til að geta meðal annars mætt þessum kostnaðarauka sem heimili landsins hafa þurft að taka á sig í gegnum árin.   

13
Feb

Undirbúningur að verkfallsaðgerðum að hefjast

Í gær kom aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness saman til fundar og var aðalmál fundarins að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin á hinum almenna vinnumarkaði. Það liggur fyrir að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa alfarið hafnað sanngjörnum kröfum Starfsgreinasambandsins um að stigin verði jöfn og ákveðin skref í því að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu, en eins og fram hefur komið fréttum þá er aðalkrafa SGS að lágmarkslaun verði komin uppí 300.000 kr. innan þriggja ára.

Það kom hvellskýrt fram á fundi aðalstjórnar félagsins í gær að þessu skilningsleysi og óbilgirni forsvarsmanna Samtaka atvinnulífsins verði að mæta af fullri hörku og ljóst að Verkalýðsfélag Akraness verður að búa sig undir hörð verkfallsátök á næstu vikum og mánuðum eins og önnur aðildarfélög innan SGS. Það er ekki og verður ekki hægt að láta það átölulaust að dagvinnulaun verkafólks skuli vera frá 201 þúsund krónum uppí rúmar 240 þúsund enda liggur fyrir að þessi laun duga alls ekki fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

Það ríkti gríðarleg gremja hjá stjórnarmönnum VLFA yfir því að hræðsluáróður Samtaka atvinnulífsins skuli enn á ný óma á ljósvakamiðlum hér á landi eins og enginn sé morgundagurinn, en slíkur hræðsluóhróður byrjar ætíð að óma þegar kröfur verkafólks eru lagðar fram. Það liggur fyrir að það hefur verið bullandi launaskrið á íslenskum vinnumarkaði undanfarin ár, enda hefur launavísitalan hækkað mun meira en almennar prósentuhækkanir sem um hefur verið samið á hinum almenna vinnumarkaði. Og hverjir bera ábyrgð á launaskriðinu? Að sjálfsögðu eru það stjórnendur fyrirtækja innan SA.

Einnig er rétt að benda á og rifja upp að fyrirtæki, ríki, sveitarfélög og aðrir þjónustuaðilar hafa þann möguleika að varpa sínum vanda yfir á neytendur og launafólk og gera það hiklaust. Núna er komið að verkafólki sem þarf nauðsynlega að fá lagfæringu og leiðréttingu á sínum kjörum til að geta staðið undir öllum þessum álögum sem á herðar þeirra hafa verið lagðar. 

Það liggur fyrir að hinir ýmsu starfshópar eins og kennarar, læknar, flugstjórar og aðrar háskólastéttir hafa samið um tugprósenta launahækkun og hafa því hækkað í sumum tilfellum um og yfir 100 þúsund krónur á mánuði og nú þegar verkafólk fer fram á að laun þeirra dugi fyrir lágmarksframfærslu ætlar allt um koll að keyra hjá forystu Samtaka atvinnulífsins.

Verkalýðsfélag Akraness tekur heils hugar undir með Alþjóðavinnumálastofnun, en þar á bæ er varað við of litlum launahækkunum og bent á að slíkt geti leitt til verðhjöðnunar og vandræðum í hagkerfum heimsins. Það er mjög mikilvægt að laun verkafólks hækki, enda mun það klárlega koma öllum til góða: sveitafélög munu fá hærri útsvarstekjur sem hugsanlega gerir það að verkum að þau geti haldið aftur af gjaldskrárhækkunum og það sama gildir um ríkissjóð, hærri tekjuskattur skilar sér í betri afkomu ríkissjóðs. Hvað með verslun og þjónustu? Að sjálfsögðu skilar betri afkoma verkafólks sér í aukinni veltu og hagnaði í verslunum og þjónustufyrirtækjum, sem sagt allir græða á að laun verkafólks hækki. Það liggur fyrir að sumar atvinnugreinar mala gull þessi misserin eins og ferðaþjónustan, stóriðjan og sjávarútvegurinn og verður það að teljast ótrúverðugur málflutningur þegar því er haldið fram að þessar greinar geti ekki lagfært kjör sinna starfsmanna svo um munar í komandi kjarasamningum, því það geta þær svo sannarlega.

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundinum í gær að hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum í samvinnu við önnur félög Starfsgreinasambandsins. Fram kom á fundinum að stjórn félagsins er svo sannarlega tilbúin að láta sverfa til stáls í komandi kjaraátökum, því þessu óréttlæti sem íslenskt verkafólk þarf ætíð að lifa við verður að linna í eitt skipti fyrir öll. Samninganefnd Starfsgreinasambandsins fundar í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag kl. 13.

10
Feb

Níundi fundurinn í kjaradeilu við Norðurál var haldinn í gær

Í gær var haldinn níundi samningafundurinn í kjaradeilu stéttarfélaganna við Norðurál, en eins og áður hefur komið fram þá var þessari deilu vísað til ríkissáttasemjara fyrir áramót. Fundurinn í gær var sá fimmti sem haldinn er undir handleiðslu ríkissáttasemjara en áður en deilunni var vísað til hans höfðu stéttarfélögin átt fjóra fundi með forsvarsmönnum Norðuráls.

Á fundinum í gær var farið yfir hin ýmsu mál er lúta að kröfugerð stéttarfélaganna og sumt skýrðist en annað ekki. Töluvert ber enn á milli deiluaðila en eins og í öllum kjaradeilum þá er það jákvætt á meðan aðilar tala saman, eins og allir vita þá ná samningsaðilar ekki samningi nema samræður eigi sér stað. Það er svo sem enginn launung á því að enn ber talsvert á milli deiluaðila, en stóru kröfurnar eru þær að grunnlaun starfsmanna hækki umtalsvert á fyrsta ári og tekið verði upp nýtt 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og tíðkast hjá Elekm Ísland. Það liggur hins vegar fyrir að þeirri kröfu hafa forsvarsmenn Norðuráls alfarið hafnað.

Næsti fundur verður mánudaginn 16. febrúar og á þeim fundi mun væntanlega skýrast hvort grundvöllur sé fyrir frekari viðræðum eða hvort viðræðurnar sigli endanlega í strand, en að sjálfsögðu standa vonir til að forsvarsmenn Norðuráls komi með eitthvað útspil á þeim fundi sem færir deiluaðila nær hverjum öðrum.

09
Feb

Kynningafundur um nýja sólarkísilverksmiðju

Síðastliðinn föstudag héldu forsvarsmenn Silicor Materials kynningarfund í bæjarþingsalnum á Akranesi um hið gríðarstóra verkefni sem fyrirtækið vinnur nú að, en fyrirhugað er að reisa öfluga sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Um er að ræða mjög stóra verksmiðju á íslenskan mælikvarða, sem gæti framleitt um 19 þúsund tonn af kísil á ári og mun verksmiðjan skapa gríðarlegan fjölda nýrra starfa, en áætlað er að um 450 manns muni starfa í verksmiðjunni þegar starfsemin verður komin á fulla ferð.

Fundinn sátu sveitarstjórnarmenn, þingmenn norðvestur-kjördæmis auk fleiri hagsmunaaðila. Á fundinum fór Davíð Stefánsson talsmaður fyrirtækisins yfir stöðuna og kom fram að allt væri samkvæmt áætlun og afar fátt sem getur komið í veg fyrir það að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Það kom fram í kynningu Stefáns að fyrirtækið hefur lagt gríðarlega vinnu í undirbúning verkefnisins og til dæmis liggur fyrir að þeir sem standa að þessu verkefni munu leggja til 40% eiginfjárhlutfall sem sýnir hversu gríðarlega trú menn hafa á þessu verkefni.

Það er morgunljóst að þessi nýja sólarkísilverksmiðja mun verða gríðarlega mikilvæg fyrir samfélögin hér í kring og mun styrkja atvinnustoðir samfélaganna en frekar. Það er ekki aðeins um 450 gjaldeyrisskapandi störf að ræða, heldur hafa óháðar rannsóknir sýnt fram á að þessi sólarkísilverksmiðja verði ein umhverfisvænasta á landinu.

Það er morgunljóst að mörg sveitafélög öfunda okkur Akurnesinga og Hvalfjarðasveit af þeirri gróskumiklu starfsemi sem finnst á Grundartanga og ekki mun það skemma fyrir að fá þetta öfluga fyrirtæki sem Silicor Materials er, enda skapar það eins og áður sagði 450 ný störf.

05
Feb

Formaður Framsýnar stéttarfélags í heimsókn

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Húsavík, kom í heimsókn á skrifstofu félagsins síðastliðinn þriðjudag ásamt Kristbjörgu Sigurðar, fv. varaformanni Framsýnar, en mjög náið og gott samstarf hefur verið með þessum tveimur stéttarfélögum í gegnum árin.

Það liggur fyrir að mikill samhljómur hefur verið í áherslum og baráttu fyrir bættum hag alþýðunnar hjá þessum félögum. Í þessari heimsókn var mikið rætt um komandi kjarasamninga og morgunljóst að bæði þessi félög vilja að látið verði sverfa til stáls ef atvinnurekendur sjá ekki að sér og ganga að afar sanngjarnri kröfu stéttarfélaganna um að launataxtar verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.

05
Feb

Mikið að gera í hagsmunagæslu fyrir félagsmenn

Mjög annasamt hefur verið á skrifstofu félagsins að undanförnu í verkefnum sem tengjast hagsmunagæslu fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness og fjölmörg mál hafa verið til skoðunar. 

Í gær náðist sátt um eitt málið, en það laut að kauptryggingu skipverja á togara þegar skipið fór í slipp í einn mánuð. Útgerðin ákvað að greiða skipverjum einungis 50% af kauptryggingu en ekki 100% eins og kjarasamningar kveða á um. Að sjálfsögðu gerði Verkalýðsfélag Akraness alvarlega athugsemdir við þessa afgreiðslu útgerðarinnar, en eftir umræður við forsvarsmenn útgerðarinnar féllust þeir á rök félagsins og ákváðu að greiða skipverjum fulla kauptryggingu.

Einnig náði félagið sátt í máli sem varðaði veikindalaun skipverja, en sú hagsmunagæsla skilaði skipverjanum hundruðum þúsunda króna. Einnig gerði félagið athugasemdir við lokauppgjör hjá verkamanni, en þar vantaði ýmsar greiðslur eins orlof, fasta yfirvinnu og fleira og skilaði þessi vinna félagsmanninum vel á annað hundrað þúsund krónum.

Þessu til viðbótar er félagið nú með nokkur stór mál til skoðunar sem klárlega skipta milljónum króna fyrir þá félagsmenn sem um ræðir.

Verkalýðsfélag Akraness skorar á félagsmenn sína að fylgjast vel með launaseðlum sínum og hika ekki við að hafa samband við skrifstofu félagsins ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum.

05
Feb

Verður loðnuvertíðinni stefnt í hættu?

Aukningu loðnukvóta og þeirri búbót sem hann færir þjóðinni ber að fagna innilega og ef allt væri eðlilegt þá ætti þessi búbót að auðvelda gerð kjarasamninga verkafólks verulega. Rétt er að benda á að Hafrannsóknarstofnun leggur nú til að loðnukvótinn á yfirstandandi vertíð verði hvorki meira né minna en 580.000 tonn og er það 320.000 tonna aukning frá fyrstu tillögu og meira en þreföldun frá kvóta síðasta árs. Fram hefur komið í fréttum að þessi aukning á loðnukvótanum muni skila þjóðarbúinu 25 til 28 milljörðum í auknum útflutningstekjum. 

Því ber að fagna að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja sé mjög góð en jafnframt skal gera þá skýlausu kröfu að fiskvinnslufólk fái hlutdeild í þessari gríðarlegri hagsæld sem ríkt hefur í sjávarútvegnum um allanga hríð. Það liggur fyrir að útgerðin hefur verið að skila tugmilljarða hagnaði síðustu ár og sem dæmi þá nam hagnaðurinn um 53 milljörðum árið 2013. 

Það verður ekki látið átölulaust að ofsagróði útflutningsfyrirtækja eins og  t.d. í sjávarútvegsfyrirtækja sé ekki skilað að einhverju leyti til þeirra sem starfa í greinunum í gegnum hækkun launa og bónusa. Ef við leikum okkur að tölum og skoðum allt fiskvinnslufólk sem SGS semur fyrir þá eru það um 3.300 manns og kostnaður við að verða við kröfum SGS til handa fiskvinnslufólki væri í kringum 4 milljarða á ársgrundvelli.

Það eru því hjáróma raddir sem segja að allt fari á hliðina í samfélaginu ef atvinnulífið greiðir fólki dagvinnulaun sem nægja fyrir framfærslu. SGS hefur lagt áherslu á að hækka laun í gjaldeyrisskapandi greinum, fiskvinnslan er þar efst á blaði. Það er alls ekki ólíklegt að stéttarfélög innan SGS muni  beina sjónum sínum að loðnubræðslunni og hrognatöku ef kemur til verkfallsaðgerða á næstu vikum.

Verður núverandi loðnuvertíð jafnvelstefnt í hættu vegna þess að SA hefur algerlega hunsað kröfur stéttarfélagana og er ekki tilbúið að láta fiskvinnslufólks njóta góðs af ofsagróða útgerðarinnar? Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins er gríðarleg hvað þessa kjaradeilu við verkafólk varðar. Ætlar SA virkilega að stefna núverandi loðnuvertíð jafnvel í hættu með því að hunsa algerlega sanngjarnar og eðlilegar kröfur SGS að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu? 

Gríðarlegar fjárhæðir gætu verið í húfi ef ekki tekst að semja um leiðréttingu á kjörum verkafólks og eins og fram hefur komið í fréttum, nemur bara viðbótin 25-28 milljörðum í auknar útflutningstekjur til handa þjóðarbúinu.

30
Jan

Hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum

Eins og flestir vita þá lagði Starfsgreinasamband Íslands fram kröfugerð sína síðastliðinn mánudag. Kröfugerð sem byggist á því að innan þriggja ára verði lágmarkstaxti verkafólks orðinn 300.000 kr. Þetta er sanngjörn krafa sem byggist á því að stíga jöfn og þétt skref í átt að þvi að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að verkafólk geti haldið mannlegri reisn.

Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins létu ekki á sér standa þar sem hræðsluáróðurinn reið ekki við einteyming, íslenskt efnahagslíf myndi nánast hrynja til grunna ef stigið yrði leiðréttingarskref til handa íslensku verkafólki. Meira að segja í nýjum leiðara framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins er talað um að fella þurfi gengi íslensku krónunnar til að forða stóriðjunni, ferðaþjónustunni og útgerðinni frá gjaldþroti. Málflutningur af þessu tagi er forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins til ævarandi skammar en hér er um hræðsluáróður að ræða af verstu sort. Samtökin hafa látið hafa eftir sér að þessi sanngjarna krafa aðildarfélaga SGS sé ekki grundvöllur til frekari viðræðna og er henni hafnað með öllu. 

Á þeirri forsendu hafa aðildarfélög SGS ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Einnig hafa þau ákveðið að kalla til og byrja að skipuleggja aðgerðahópa sem munu hefja undirbúning að verkfalli. Það er algjörlega morgunljóst að þetta misrétti og óréttlæti sem íslenskt verkafólk hefur þurft að þola á liðnum árum og áratugum verður ekki látið átölulaust í komandi kjarasamningum. Enda hafa allir launahópar, já launahópar sem eru langtum tekjuhærri en íslenskt verkafólk, fengið gríðarlegar hækkanir í undanförnum kjarasamningum og svo núna þegar komið er að íslensku verkafólki þá glymur hræðsluáróður um að nú sé stöðugleikinn í hættu ef íslenskt verkafólk fær leiðréttingu sinna launa þannig að þau dugi fyrir mánaðarlegum útgjöldum.

Verkalýðshreyfingin er klár í verkfallsátök og mun eins og áður sagði hefja undirbúning að slíkum aðgerðum á næstu vikum.  

27
Jan

Hroki Samtaka atvinnulífsins algjör

Í gær lagði Starfsgreinasamband Íslands fram kröfugerð sína en þeir sem eiga aðild að þessari kröfugerð eru öll verkalýðsfélög á landsbyggðinni. Kröfugerðin er metnaðarfull en samt sem áður hógvær og réttlát enda byggist hún á að stígin verði jöfn og ákveðin skref í átt að því að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu samkvæmt þeim viðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Krafan hljóðar upp á að innan þriggja ára verði lágmarkslaun á Íslandi orðin 300.000 kr.

Það var eins og við manninn mælt að hrokinn og yfirgangurinn í forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins var algjör þegar þeir svöruðu opinberlega þessari sanngjörnu kröfugerð SGS. Þeir voru náttúrulega búnir að umvarpa þessari krónutöluhækkun yfir í prósentur til að reyna að láta þetta líta út fyrir að vera afar óraunhæfar kröfur en grundvallaratriðið er að prósentur eru til þess fallnar að blekkja. Það vita allir að ef 1 króna er lögð ofan á aðra krónu þá er það 100% hækkun. Með öðrum orðum, þegar krónutala er lögð ofan á afar lág laun þá verður prósentutalan há. Semsagt, prósentur blekkja.

Það er nöturlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins þar sem talað er nánast um stórfellt efnahagshrun ef að lágmarkstaxtar á Íslandi hækka um 33.000 kr. á ári næstu 3 árin og verði komin upp í 300.000 kr. í lok samningstímans. Forsvarsmenn SA öskra hátt og skýrt: hafið þið reiknað út áhrifin, til dæmis af verðbólgu og öðrum slíkum þáttum? En skyldu þessir sömu aðilar hafa reiknað út áhrifin af því þegar forstjórar og framkvæmdastjórar hækkuðu um 200.000-300.000 kr. á mánuði á árinu 2013 samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar svo ekki sé talað um hækkun millistjórnenda um 600.000 kr. á mánuði? Nei, svo koma þessir ágætu menn og tala hér um ragnarök ef þess er krafist að íslenskt verkafólk geti lifað af sínum dagvinnulaunum samkvæmt þeim viðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það liggur fyrir að allir hópar sem hafa samið að undanförnu hafa verið að semja um þetta frá 50.000 og upp í allt að 200.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum og nægir þar að nefna læknastéttina, kennarana, flugstjórana, flugvirkjana og svo framvegis. Og hvað með formann Samtaka atvinnulífsins sem að jafnframt er formaður Icelandair Group, sem samdi við flugstjóra um allt að 9% um mitt ár í fyrra í nokkurra mánaða samningi og heimildir herma að samið hafi svo verið við þá um 22% hækkun í desember 2014. Skyldi hann hafa látið reikna út áhrifin af verðbólgu og öðrum efnahagsforsendum þegar hann samdi við sína starfsmenn?

Nei, nú þarf íslenskt verkafólk stuðning þjóðarinnar við að lagfæra og leiðrétta kjör íslenskrar alþýðu. Launakjör sem eru á bilinu 201.000 kr. til 238.000 kr. Kjör sem eins og áður sagði duga ekki fyrir lágmarksframfærslu og í raun og veru kosta íslenskt samfélag gríðarlega fjármuni vegna þeirra afleiðinga sem bág kjör geta valdið. Nægir að nefna þar verri heilsu, aukið álag á heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og félagslega kerfið og jafnvel stóraukna örorkubyrði vegna verri lýðheilsu. Það er alveg ljóst að það verður að lagfæra kjör íslensks verkafólks til að fólk geti haldið mannlegri reisn og það liggur hvellskýrt fyrir að það er nægt svigrúm til slíkra leiðréttinga. Nægir að nefna í því samhengi ofsagróða íslenskra útflutningsfyrirtækja eins og til dæmis í ferðaþjónustunni, stóriðjunni og svo ekki sé talað um í fiskvinnslunni þar sem hagnaður og arðgreiðslur eru gríðarlegar um þessar mundir.

Samtök atvinnulífsins skulu átta sig á því að íslenskt verkafólk mun ekki og ætlar sér ekki að láta þetta ofbeldi yfir sig ganga. Að það skuli ætíð standa bunan út úr þessum mönnum þegar kemur að því að semja um laun verkafólks, um skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf ef þessi tiltekni hópur fær einhverjar leiðréttingar á sínum launum. Það stenst ekki skoðun núna og hefur í raun aldrei staðist neina skoðun. Þessum hroka Samtaka atvinnulífsins, honum verður mætt af fullri hörku og nú er mikilvægt að íslenskt verkafólk standi þétt saman í eitt skipti fyrir öll og búi sig undir grjóthörð verkfallsátök ef þurfa þykir.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image