• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Oct

Þing ASÍ

Í gær hófst 41. þing Alþýðusambands Íslands og lýkur því á morgun. Þing ASÍ er haldið á tveggja ára fresti og á hvert aðildarfélag rétt á því að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins og fer fjöldi fulltrúa eftir stærð hvers félagsins. Alls eru þingfulltrúarnir 300. Verkalýðsfélag Akraness á 8 þingfulltrúa í ár, en það eru þau Vilhjálmur Birgisson, Hafsteinn Þórisson, Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir, Guðrún Linda Helgadóttir, Jóna Adolfsdóttir, Hafþór Pálsson, Kristófer Jónsson og Sigurður Guðjónsson.Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, flutti ræðu á þinginu í gær þar sem hann gagnrýndi harðlega þá vegferð sem ASÍ hefur verið á hvað kjaramál varðar og þá samræmdu láglaunastefnu sem farið hefur verið eftir í tveimur síðustu samningum verkafólks og iðnaðarmanna. Í ræðu sinni fór hann meðal annars yfir það hvernig Samtök atvinnulífsins og forysta ASÍ reyna að telja almenningi í trú um að ætið sé samið um langmestu launahækkanir til handa þeim tekjulægstu og sagði "rétt að ítreka það að prósentur segja ekki nema hálfan sannleikann þegar fjallað er um launahækkanir hópa og prósentur eru algerlega til þess fallnar að blekkja íslenskt verkafólk. Það sem skiptir launafólk mestu máli er hversu margar krónur það fær í sitt launaumslag, ekki prósentur. Það liggur fyrir að ef 1 króna er sett ofan á aðra krónu þá er það hækkun upp á 100%. Já kæru félagar, prósentur blekkja og það er grátbroslegt þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og reyndar fleiri standa og öskra hátt og skýrt: lágmarkslaun hafa hækkað mest og reka svo út kassann og segja: okkur hefur tekist að verja kaupmátt lægstu launa."Vilhjálmur fór einnig yfir þróun lágmarkslauna frá árinu 1998 og bar saman við launaþróun forstjóra nokkurra stórfyrirtækja: "Í fyrsta lagi voru lágmarkslaun á Íslandi árið 1998 70.000 kr. Núna 16 árum seinna eru þau komin upp í 214 þúsund á mánuði sem gerir hækkun uppá 206%. Á bakvið þessi 206% er krónutöluhækkun sem nemur einungis 144.000 krónum á 16 árum sem þýðir að lágmarkslaun hafi hækkað að meðaltali um 9.000 kr. á ári þessi 16 ár. En takið eftir, næstráðendur íslenskra fyrirtækja hækkuðu um 600.000 kr. á mánuði bara á árinu 2013. Málið er líka að við förum ekki í Bónus eða aðrar verslanir og greiðum með prósentum, við borgum með krónum. En hvað skyldu laun forstjóra nokkurra stórfyrirtækja hafa hækkað frá 1998? Skoðum það aðeins. Árið 1998 var forstjóri ESSO sem núna er N1 með árstekjur uppá 18,7 milljónir. Í dag er forstjóri N1 með 52 milljónir. Hefur hækkað um rúmar 33 milljónir á ári eða sem nemur tæpum 3 milljónum á mánuði. Hækkun upp á 176,5%. Forstjóri Flugleiða var með 13,9 milljónir í árslaun árið 1998. Núverandi forstjóri Icelandair Group er hinsvegar með laun sem nema rúmum 44 milljónum á ári sem er hækkun um rétt rúmar 30 milljónir á ári eða sem nemur rúmri 2 og hálfri milljón á mánuði. En takið eftir þetta er prósentuhækkun upp á 218%. Forstjóri Eimskips var með 27,6 milljónir í árslaun árið 1998 en núverandi forstjóri Eimskips er sagður vera með 90,5 milljónir sem gerir hækkun um 63 milljónir á ári eða 5,2 milljónir á mánuði. Þetta er hækkun upp á 228%. Já þessir snillingar eru svo sannarlega búnir að hugsa um sig. Hafa hækkað um milljónir á mánuði og meira að segja með hærri prósentuhækkun en hækkun lágmarkslauna á sama tímabili."Ræða Vilhjálms hlaut afar góðar undirtektir hjá þingfulltrúum og er hægt að lesa hana í heild sinni með því að smella hér.

22
Oct

Afmælisblað VLFA

Hér fyrir neðan er hægt að lesa vefútgáfu afmælisblaðs VLFA, smellið á blaðið til að stækka það.

17
Oct

Meirihluti starfsmanna Norðuráls vill taka upp nýtt vaktakerfi

Á fjölmennum fundi sem haldinn var í Bíóhöllinni á Akranesi ekki alls fyrir löngu með starfsmönnum Norðuráls var samþykkt að fara í allsherjar atkvæðagreiðslu meðal fastráðinna starfsmanna á vöktum. Atkvæðagreiðslan snerist um það hvort að í komandi kjarasamningum ætti að leggja áherslu á að taka upp nýtt 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og er hjá Elkem Ísland og hverfa frá 12 tíma vöktum. Í þessari kosningu var líka kveðið á um að lögð yrði áhersla á að ná fram sambærilegum útborguðum launum og 12 tíma vaktakerfið gefur.

Á kjörskrá voru 245 fastráðnir starfsmenn.

203 nýttu kosningarétt sinn sem gerir 82,8% kjörsókn.

Já sögðu 132 sem gera 65%.

Nei sögðu 70 sem gera 34,5%

Eitt atkvæði var ógilt eða 0,5%

Það liggur fyrir að kosningin er nokkuð afdráttarlaus. Í kjölfarið munu trúnaðarmenn og samninganefndin móta komandi kröfugerð og það er ljóst að framundan eru gríðarlega erfiðir kjarasamningar. En með samstöðu starfsmanna ætti að vera hægt að ná góðri niðurstöðu starfsmönnum til heilla.

15
Oct

90 ára afmæli VLFA

Hátt í 100 manns lögðu leið sína á skrifstofu félagsins í gær í tilefni af 90 ára afmæli félagsins, en með opnu húsi á skrifstofunni lauk formlegum hátíðarhöldum vegna afmælisins. Boðið var upp á kaffi og léttar veitingar, hægt var að ganga um húsið og skoða aðstöðuna og var setið hringinn í kringum öll skrifborð hússins.

Á þessum tímamótum bárust félaginu margar góðar kveðjur og vill stjórn og starfsfólk félagsins þakka innilega fyrir auðsýndan stuðning og hlýhug.

Myndir eru komnar hingað á heimasíðuna og má finna hér.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 90 ára í dag

Í dag, 14. október, fagnar Verkalýðsfélag Akraness 90 ára afmæli sínu. Undanfarna daga hefur ýmislegt verið gert til að halda upp á þessi tímamót. Afmælisblað félagsins hefur verið borið út í öll hús á Akranesi en þar má finna gamla og dýrmæta sögumola jafnt sem nýjar fréttir af starfi félagsins.

Síðastliðinn laugardag stóð félagið fyrir tvennum tónleikum í Bíóhöllinni á Akranesi. Þeir fyrri voru ætlaðir yngri kynslóðinni en þar sá hljómsveitin Pollapönk um að halda uppi fjörinu. Tónleikarnir voru opnir öllum og var mikil aðsókn að þeim. Þegar tónleikunum var lokið fengu börnin ís með sér heim.

Seinni tónleikarnir hófust kl. 20:30 en þar fóru Helgi Björns og Reiðmenn vindanna á kostum. Þessir tónleikar voru aðeins fyrir félagsmenn og var vel mætt og stemningin gríðarlega góð.

Í dag lýkur svo formlegum hátíðarhöldum með opnu húsi á skrifstofu félagsins á milli kl. 14 og 16 í tilefni dagsins. Boðið verður upp á léttar veitingar og eru allir hjartanlega velkomnir í heimsókn til að fagna því hversu vel félagið ber aldurinn.

Verkalýðsfélag Akraness óskar öllum félagsmönnum sínum nær og fjær til hamingju með daginn.

09
Oct

Kosning um nýtt vaktakerfi hjá Norðuráli hafin

Nú er hafin kosning á meðal vaktavinnumanna Norðuráls á Grundartanga. Kosið er um hvort starfsmenn vilji berjast fyrir nýju vaktakerfi sem byggist á 8 tíma vöktum í stað 12 tíma vakta sem nú eru. Það vaktakerfi sem kosið er um er með sambærilegum hætti og er hjá Elkem Ísland á Grundartanga.

Verkalýðsfélag Akraness sendi út upplýsingagögn til starfsmanna en fyrir mannleg mistök eru útreikningar á mismun á vinnutíma milli vaktakerfanna ekki réttir. Í útreikningunum kemur fram að starfsmenn Elkem Ísland séu að vinna tæplega 3 mánuðum skemur á ári heldur en starfsmenn Norðuráls. Hið rétta er að mismunurinn er tæplega 2 og hálfur mánuður á ári.

Starfsmenn Elkem vinna á fyrstu 3 árum í starfi 1.747 tíma á ári sem gerir að meðaltali 145,6 tíma á mánuði. Síðan eiga þeir samtals 24 vaktir í sumar- og vetrarorlof sem gerir 192 tíma þannig að staðinn vinnutími hjá Elkem er 1.555 tímar á ári. Eftir 3 ár hækkar orlofið hjá starfsmönnum Elkem upp í 27 vaktir og þá vinna þeir í heildina 1.531 tíma á ári.

Hjá Norðuráli standa menn rúmar 16 tólf tíma vaktir á mánuði sem gerir 2.184 klukkustundir á ári og eiga síðan 24 vaktir í sumar- og vetrarorlof fyrstu 5 árin sem gera 288 klukkustundir þannig að samtals er staðinn tími hjá starfsmönnum Norðuráls 1.896 tímar.

Mismunurinn á milli Elkem og Norðuráls fyrstu 3 árin er 341 tími á ári eða að meðaltali 28,5 tímar sem starfsmenn Norðuráls vinna meira á mánuði. Frá 3 ára starfstíma og upp í 5 ára starfstíma er mismunurinn hinsvegar 365 tímar á ári eða að meðaltali 30,4 tímar á mánuði. Eftir 5 ára starf og upp í 10 ára starf er mismunurinn aftur 341 tími á mánuði. Eftir 10 ára starf er mismunurinn 326 tímar.

Félagið harmar þessi mistök  og biður afsökunar á þeim en slíkt getur alltaf komið fyrir. Hinsvegar er alveg morgunljóst að þetta skiptir ekki höfuðmáli því stytting á vinnutíma er gríðarleg á milli þessara tveggja vaktakerfa samt sem áður. Nemur hún eins og áður sagði frá 28,4 tímum upp í 30 tíma á mánuði eða uppundir 2,5 mánuðum á ársgrundvelli.

Það er ekki bara að styttingin sé til staðar heldur er ljóst að kerfið er mun fjölskylduvænna enda er vinnuálag starfsmanna á þessum 12 tíma vöktum orðið gríðarlegt. Því eru háværar raddir um að taka upp 8 tíma vaktakerfi. Eins og félagið hefur áður sagt þá er þetta í höndum starfsmanna að ákveða hvað menn vilja gera því þetta er jú þeirra lífsviðurværi en það er ljóst að ákvörðunin um hvort leggja eigi áherslu á að berjast fyrir breytingu á vaktakerfi samhliða kröfu um sambærileg útborguð laun mun skýrast að aflokinni kosningu.

Formaður skorar á starfsmenn að hafa endilega samband við sig í síma 865-1294 eða á skrifstofu félagsins ef einhverjar spurningar vakna varðandi kosninguna.

08
Oct

VLFA 90 ára - Enn eru til miðar á Helga Björns

Félagsmenn geta komið á skrifstofu félagsins og fengið afhenta miða á tónleika með Helga Björns og Reiðmönnum vindanna. Enn er til nóg af miðum, tilvalið fyrir vinnufélaga að skella sér saman á tónleika í boði félagsins!

03
Oct

Hörkufundur með starfsmönnum Norðuráls í gærkvöldi

Í gærkvöldi stóð Verkalýðsfélag Akraness fyrir kynningar- og samstöðufundi á meðal starfsmanna Norðuráls í Bíóhöllinni á Akranesi. Tilefni fundarins var að um áramótin rennur kjarasamningur starfsmanna út og var farið yfir komandi kjaraviðræður og rætt hvað skyldi leggja áherslu á í þeim.

Þetta var hörkuflottur fundur en um 170 manns mættu. Samstaðan var mikil  og morgunljóst að starfsmenn Norðuráls eru sammála Verkalýðsfélagi Akraness í því að hækka verður laun í fyrirtækinu allverulega enda eru allar forsendur til að fara fram með slíka kröfu. Sem betur fer liggur fyrir að rekstur Norðuráls hefur gengið gríðarlega vel allt frá árinu 1998 en fyrirtækið hefur skilað hagnaði hvert einasta ár frá því það hóf starfsemi. Það liggur fyrir að það er grunnforsenda að horft sé til afkomu fyrirtækja þegar kröfugerð er mótuð.

Mönnum var tíðrætt á fundinum í gær um það mikla álag sem hefur aukist á undanförnum misserum enda liggur fyrir að samhliða mikilli framleiðsluaukningu þá hefur starfsmönnum verið að fækka. Starfsmenn voru algjörlega einhuga í því að grunnlaun þeirra þyrftu að taka stökkbreytingu. Það var samþykkt einróma á fundinum að gera skoðanakönnun um hvort berjast ætti fyrir 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og tíðkast hjá Elkem Ísland á Grundartanga og hverfa frá þessum löngu 12 tíma vöktum. Trúnaðarmönnum var falið að ráðast í þessa kosningu og þegar hún liggur fyrir verður farið í að setja upp kröfugerð.

Eins og áður sagði var einhugur og samstaða algjörlega ríkjandi á fundinum enda er samstaða grundvöllur fyrir því að hægt sé að ná fram alvöru kjarabótum í kjaraviðræðum. Það er morgunljóst að slíka samstöðu er svo sannarlega að finna á meðal starfsmanna Norðuráls.

01
Oct

Styttist í afmæli Verkalýðsfélags Akraness

Helgi Björns og reiðmenn vindanna munu spila á afmælistónleikum félagsinsHelgi Björns og reiðmenn vindanna munu spila á afmælistónleikum félagsinsÞann 14. október næstkomandi verður Verkalýðsfélag Akraness 90 ára en það var stofnað árið 1924. Í tilefni þess mun félagið standa fyrir afmælistónleikum laugardaginn 11. október. Á tónleikunum, sem haldnir verða í Bíóhöllinni kl. 20:30, koma fram Helgi Björns og reiðmenn vindanna og á þann viðburð er félagsmönnum boðið. Hver félagsmaður fær afhentan einn miða á skrifstofu félagsins og hefst afhending þeirra kl. 12 á hádegi á morgun, fimmtudaginn 2. október. Takmarkað magn miða er í boði.

Fyrr um daginn mun hljómsveitin Pollapönk skemmta börnum bæjarins og hefjast þeir tónleikar kl. 15 í Bíóhöllinni. Frítt er fyrir öll börn á meðan húsrúm leyfir en húsið opnar kl. 14:20.

Sjálfan afmælisdaginn ber upp á þriðjudag og þá mun verða heitt á könnunni og meðlæti í boði fyrir þá sem kíkja við á skrifstofu félagsins á milli kl. 14 og 16.

Vonandi sjá sem flestir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sér fært að taka á einhvern hátt þátt í því að fagna þessum merku tímamótum með félaginu. Auglýsingu um afmæli félagsins má sjá hér.

26
Sep

Fundur í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls

Fimmtudaginn 2. október næstkomandi mun Verkalýðsfélag Akraness halda fund í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls og hefst hann kl. 20:00.

Ástæðan fyrir fundinum eru komandi kjarasamningar og vill félagið heyra í sem flestum starfsmönnum hvað þeir vilji leggja áherslu á í komandi samningum. Það liggur fyrir að starfsmenn hafa m.a. kvartað sáran yfir stórauknu álagi í verksmiðjunni á liðnum árum og eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lækkuðu launagreiðslur Norðuráls um rétt tæp 7% á milli ára þrátt fyrir metframleiðslu. Þessi lækkun á launakostnaði verður ekki skýrð með öðrum hætti en að starfsmönnum hafi fækkað og það þrátt fyrir stóraukna framleiðslu.

Formaður félagsins hélt fyrir stuttu fund með starfsmönnum steypuskála en þar hefur vinnuálagið að sögn allra starfsmanna verið ómanneskjulegt og telja þeir að álagið sé farið að ógna velferð og öryggi þeirra.  Á fundinum var gerð karfa um að VLFA myndi beita sér fyrir því að tekið yrði upp sambærilegt vaktakerfi og er hjá Elkem Ísland en þar er 8 tíma vaktakerfi en ekki 12 tíma eins og í Norðuráli.  Starfsmenn Elkem vinna 146 tíma á mánuði í þriggja vakta kerfi þar sem menn standa 6 vaktir á fimm dögum og eiga fimm daga í frí.  Með öðrum orðum afar fjölskylduvænt vaktakerfi enda láta starfsmenn Elkem afar vel af þessu kerfi.

Á fundinum sem haldinn verður í Bíóhöllinni á næsta fimmtudag mun formaður athuga hvort áhugi sé víðar í verksmiðjunni t.d. í kerskálanum á því að barist verði fyrir 8 tíma kerfi í stað 12 tíma. Þessi fundur er eins og áður sagði liður í að kanna hvað starfsmenn vilja leggja áherslu á í komandi kjarasamningum og er mikilvægt að huga vel að undirbúningnum því kjarasamningurinn rennur út um næstu áramót.

Sagan segir okkur að komandi kjarasamningar verði erfiðir enda hefur ávallt gengið töluvert á þegar samið hefur verið um kaup og kjör starfsmanna Norðuráls. Sem dæmi tók uppundir 9 mánuði að ganga frá samningum síðast frá því samningarnir runnu út.

Eitt er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki gefa neitt eftir í þessum kjarasamningum enda engin ástæða til því rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið mjög vel . Sem dæmi þá hefur fyrirtækið ávallt skilað milljarða hagnaði ár hvert frá því það var sett á laggirnar 1998. Starfsmenn eiga því fulla heimtingu á að fá góða hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækisins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image