• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Skemmdarverk unnin á fyrsta samningafundi hjá Ríkissáttasemjara Allar hendur á lofti - svona var samstaðan á kynningarfundi starfsmanna í gær. Nú á að brjóta hana á bak aftur.
28
Jan

Skemmdarverk unnin á fyrsta samningafundi hjá Ríkissáttasemjara

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá var fyrsti samningafundur samninganefndar Elkem Ísland og Klafa haldinn hjá Ríkissáttasemjara í dag. Sá ótrúlegi atburður átti sér stað við upphaf fundanna að þrjú stéttarfélög af þeim fimm sem aðild eiga að kjarasamningi Elkem höfðu haft samband við atvinnurekendur og Samtök atvinnulífsins og greint frá að þeir fulltrúar sem sætu í samninganefndinn væru ekki þar í þeirra umboði. Í samninganefndinni situr formaður Verkalýðsfélags Akraness, trúnaðarmaður rafiðnaðarmanna, trúnaðarmaður VR, trúnaðarmaður FIT, formaður FIT og aðaltrúnaðarmaður starfsmanna sem jafnframt er fulltrúi allra stéttarfélaga.

Þegar fundurinn hófst upplýsti fulltrúi Samtaka atvinnulífsins að eftirtalin félög: Rafiðnaðarsamband Íslands, VR og Stéttarfélag Vesturlands viðurkenndu ekki sína fulltrúa í samninganefndinni. Það er með hreinustu ólíkindum að trúnaðarmenn viðkomandi félaga sem sátu í samninganefnd Elkem Ísland og hafa sumir hverjir setið árum saman í samninganefnd og undirritað kjarasamninga skuli nú ekki vera viðurkenndir af sínum stéttarfélögum. Sérstaklega í ljósi þess að engar athugasemdir hafa t.a.m. borist formanni Verkalýðsfélags Akraness vegna kröfugerðarinnar, viðræðuáætlunarinnar, eða varðandi það að fulltrúar samninganefndarinnar nytu ekki trausts sinna félaga. Að fá síðan upplýsingar á fyrsta fundi hjá ríkissáttasemjara er að mati formanns ekkert annað en algjört skemmdarverk og eru hagsmunir starfsmanna klárlega ekki hafðir að leiðarljósi við slík vinnubrögð.

Hins vegar er það algjörlega morgunljóst, að mati formanns félagsins, að þessi ótrúlega uppákoma í morgun beinist fyrst og fremst að formanni Verkalýðsfélags Akraness og er liður í skipulagðri skemmdarstarfsemi úr herbúðum Alþýðusambands Íslands. Það liggur fyrir að formaður Stéttarfélags Vesturlands er varaforseti Alþýðusambands Íslands og þessir aðilar hafa markvisst reynt að koma höggi á formann Verkalýðsfélags Akraness. En að nota sína eigin trúnaðarmenn í þessu skyni og skaða kjaraviðræður viðkomandi starfsmanna er til ævarandi skammar fyrir þá sem slíkt ástunda.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness veit vel að þessi herferð stendur yfir núna og hefur í raun staðið yfir um alllanga hríð. Ástæða hennar er einföld: formaður hefur gagnrýnt forystu Alþýðusambands Íslands harðlega fyrir hin ýmsu slælegu vinnubrögð og linkind svo ekki sé nú talað um handónýta samræmda launastefnu þar sem ekkert tillit á að taka til starfsmanna fjársterkra útflutningsfyrirtækja.

Það er gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þann mikla stuðning sem kemur frá starfsmönnum Elkem Ísland og Klafa þar sem starfsmenn gagnrýna þessi vinnubrögð harðlega. Þessar athugasemdir stéttarfélaganna hafa ekkert að gera með kjaraviðræður, enda höfðu trúnaðarmennirnir unnið sína kröfugerð að langmestu leyti sjálfir. Vissulega er það erfitt fyrir varaforseta ASÍ, sem talað hefur fyrir langtímasamningi þar sem allir launþegar eiga að fá sömu kjarabætur algjörlega óháð getu einstakra atvinnugreina, að leggja fram kröfugerð upp á 27,5%. Enda er slíkt algjörlega í andstöðu við samræmda launastefnu ASÍ.

Formaður félagsins mun nú yfirfara þetta grafalvarlega mál með sínum félagsmönnum og það skemmdarverk sem hér er verið að vinna því það er í höndum starfsmanna að taka ákvörðun um hvernig á þessum málum er haldið enda er þetta jú þeirra lifibrauð. Það er líka hollt fyrir áðurnefnd stéttarfélög að átta sig á því að það eru félagsmennirnir sem borga jú laun starfsmanna stéttarfélaganna og við eigum að gæta að þeirra hagsmunum og ávalt að fara eftir því sem þeir óska eftir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image