• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

22
Jan

Kjarasamningar kolfelldir á Akranesi

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um tvo kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að í gegnum tvö landssambönd, annars vegar í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og hins vegar Samiðn og undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Formaður Verkalýðsfélags Akraness skrifaði ekki undir þessa samninga, en eftir sem áður eru það félagsmenn sjálfir sem taka lokaákvörðunina. Á kjörskrá hjá SGS voru 794 félagsmenn í Almennri deild og Matvæladeild og á kjörskrá hjá Samiðn voru 56 félagsmenn Iðnsveinadeildar VLFA.

Niðurstaðan er sú að samningarnir voru báðir felldir, með 93% atkvæða félagsmanna SGS og með 63,6% atkvæða félagsmanna Samiðnar, en það eru félagsmenn í Iðnsveinadeild VLFA sem tilheyra Samiðn. Það er því ljóst að félagsmenn hafna þessum kjarasamningum með afgerandi hætti.

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness/SGS við Samtök atvinnulífsins:

Fjöldi á kjörskrá: 794  
Fjöldi atkvæða/Kjörsókn 271 34,1%
Já sögðu: 19 7%
Nei sögðu: 252 93%

 

Kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness/Samiðnar við Samtök atvinnulífsins:

Fjöldi á kjörskrá: 56  
Fjöldi atkvæða/Kjörsókn 22 39,3%
Já sögðu: 8 36,4%
Nei sögðu: 14 63,6%

17
Jan

Kosning um nýgerða kjarasamninga fer vel af stað

Kosning um nýgerða kjarasamninga er nú í fullum gangi og er þátttakan einstaklega góð það sem af er. Kynningarfundurinn sem haldinn var í vikunni á var afar gagnlegur, þátttakan hefði mátt vera betri en það var þó hiti í fundarmönnum og heilmiklar umræður spunnust um innihald samninganna. Þeir sem þess óska geta haft samband við skrifstofu félagsins og fengið kynningu á vinnutíma, eða eftir samkomulagi.

Frestur til að skila kjörseðli er til kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar og er félagsmönnum bent á að póststimpill gildir ekki því talningu verður lokið fyrir kl. 16:00 þann saman dag. Eru félagsmenn hvattir til að láta í sér heyra og skila atkvæðinu fyrir tilskildan tíma.

13
Jan

Félagsmenn munið kynningarfundinn í kvöld!

Kynningarfundur vegna nýrra kjarasamninga verður haldinn í kvöld á Gamla Kaupfélaginu, Akranesi kl. 20:00.

Á fundinn eru boðaðir þeir félagsmenn sem tilheyra Almennri deild, Matvæladeild og Iðnsveinadeild. Formaður félagsins mun kynni efni kjarasamninga og opið verður fyrir umræður. Kaffiveitingar verða í boði.

Athugið er að þeir sem komast ekki á fundinn í kvöld geta haft samband við skrifstofu VLFA og fengið kynningu eftir samkomulagi.

Póstatkvæðagreiðsla um nýju kjarasamningana er hafin og kjörgögn hafa verið póstlögð til félagsmanna. Félagar eru hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæðaseðlinum til skila fyrir hádegi 22. janúar en þá lýkur kosningu.
 

09
Jan

Póstatkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninga

Nú í þessari viku eru að hefjast kosningar um kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Kosið er hjá flestöllum stéttarfélögum vítt og breitt um landið og lýkur henni þann 22. janúar 2014. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness fer fram póstatkvæðagreiðsla um samninginn og voru kjörgögn póstlögð til félagsmanna Almennrar deildar, Matvæladeildar og Iðnsveinadeildar í dag. Atkvæðaseðlar þurfa að hafa borist kjörstjórn VLFA fyrir kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar næstkomandi og eru félagsmenn hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæði sínu til skila í tæka tíð.

Það er ekkert launungarmál að stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggst alfarið gegn því að þessi samningur verði samþykktur, enda skrifaði formaður félagsins ekki undir hann og vildi hann með því lýsa yfir vanþóknun sinni á rýru innihaldi hans. Það eru þó félagsmenn sjálfir sem þurfa að kjósa um samninginn og hafa þannig endanlegt ákvörðunarvald.

Á þingi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldið var í október sl. var samþykkt ályktun sem kvað skýrt á um að SGS ætlaði sér að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum. Í þessari sömu ályktun kom einnig skýrt fram að hvergi yrði hvikað frá í þeirri baráttu. SGS er landssamband íslensks verkafólks og þing SGS er æðsta vald sambandsins. Það skýtur því skökku við að núna liggur fyrir þessi kjarasamningur, sem er að mati samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness afar rýr fyrir íslenskt verkafólk. Krafan var sú að lægstu taxtar innan SGS myndu hækka um 20.000 kr. og með samstöðu er vel hægt að ná slíkri launahækkun fram. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustan og fiskvinnslan, er að skila mjög góðri afkomu. Nægir að nefna í því samhengi að heildarhagnaður íslensks sjávarútvegs á síðasta ári nam 80 milljörðum. Að auki hefði verið hægt að ná betri árangri í viðræðum við ríkisvaldið, en þar eru engar skattalækkanir fyrirhugaðar á laun undir 250.000 á meðan skattalækkun á laun yfir 700.000 nemur 42.000 krónum á ársgrundvelli. Við slíkt er ekki hægt að una.

Í nýja samningnum eru launataxtar undir 235.000 kr. hækkaðir um 9.750 krónur. Þetta þýðir að þegar búið er að draga skatta og aðrar skyldur frá þá standa einungis eftir um 5.700 krónur í vasa launafólks á mánuði, sem gerir launahækkun upp á einungis 190 kr. pr. dag. Að auki þvingaði samninganefnd ASÍ samninganefnd Starfsgreinasambandsins til að taka þátt í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit er tekið til góðrar afkomu útflutningsgreinanna.

Það er hins vegar alveg ljóst að eitt, tvö eða þrjú stéttarfélög munu ekki ná fram meiri launahækkunum ef meirihluti stéttarfélaga mun samþykkja samninginn. Því er það von stjórnar VLFA að þessi samningur verði felldur í öllum aðildarfélögum ASÍ. Ef það gerist mun hugsanlega skapast á nýjan leik betri samningsstaða til handa íslensku verkafólki og hugsanlega verður hægt að ná fram frekari kjarabótum.

Stjórn VLFA skorar á þá félagsmenn sem taka laun eftir þessum samningi að segja nei við honum, með von um að verkafólk vítt og breitt geri slíkt hið sama. Ef ekki mun ríkja samstaða á meðal verkafólks um að fella þennan samning þá er ljóst að félagið mun þurfa að ganga frá sambærilegum samningi við SA, enda verður samningsstaðan engin fyrir fámenn félög að gera betri samning við Samtök atvinnulífsins, ef mikill meirihluti stéttarfélaga samþykkir samninginn.

Grundvallaratriði er hins vegar að með samstöðu alls íslensks verkafólk er æði margt hægt að gera og á þeirri forsendu er það óskandi að verkafólk taki höndum saman vítt og breitt um landið og sýni vanþóknun sína í verki og felli þennan samning. Þó ekki sé nema til þess eins að sýna Samtökum atvinnulífsins að það eru fleiri í íslensku samfélagi sem þurfa að axla ábyrgð en íslenskt lágtekjufólk.

30
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar VLFA ályktar um viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs

Rétt í þessu var að ljúka aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness, en á fundinum var samþykkt ályktun þar sem skorað er á sjávarútvegsráðherra að taka verðlagsmál sjávarafurða til gagngerrar endurskoðunar í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að þjóðarbúið í heild sinni verður af milljörðum króna ár hvert vegna þess nú er í gildi tvöföld verðlagning á sjávarafurðum.

Einnig krafðist aðalfundur sjómannadeildar VLFA þess að allur fiskur færi á markað eða að fiskmarkaðsverð verði ætíð látið gilda þegar veiðar og vinnsla eru á einni og sömu hendi og afla landað beint inní vinnsluna.

Einnig samþykkti aðalfundurinn ályktun þar sem því var harðlega mótmælt að búið sé að afnema sjómannaafslátt, í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að sjómannaafslátturinn hefur verið hluti af kjörum sjómanna um áratugaskeið. Fundurinn krafðist þess að sjómönnum verði bætt upp það fjárhagstjón sem þeir verða fyrir vegna afnámsins með einum eða öðrum hætti og taldi fundurinn rétt að minna almenning hér á landi á að skattaívilnanir sjómanna á Norðurlöndum eru umtalsverðar og því grátlegt að vita til þess að búið sé að afnema þessi réttindi sjómanna eins og raunin er orðin. 

Hægt er að lesa ályktun aðalfundar í heild sinni hér.

30
Dec

Fundur í sjómannadeild VLFA í dag kl. 14

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn sína á aðalfund deildarinnar sem haldinn verður í dag í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Fundurinn hefst kl. 14. Auk venjubundinna aðalfundarstarfa verður farið yfir komandi kjaraviðræður vegna smábátasamningsins sem rennur út í byrjun nýs árs og einnig mun liggja fyrir á fundinum ályktun vegna verðlagsmyndunar á sjávarafurðum hér á landi.

Sjómenn í Verkalýðsfélagi Akraness eru eindregið hvattir til að mæta.  

23
Dec

Áskorun til verkafólks um að fella nýgerðan kjarasamning

Á laugardagskvöld var undirritaður kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Þessi kjarasamningur var svo slæmur að mati 5 aðildafélaga Starfsgreinasambands Íslands að fulltrúar þeirra sáu sér á engan hátt fært að setja nafn sitt undir slíkan samning. Málið var að Starfsgreinasamband Íslands var búið að móta og leggja mikla vinnu í kröfugerð sem byggðist á því að reyna að lagfæra skammarlega lága launataxta sambandsins. Því til viðbótar var samþykkt á þingi Starfsgreinasambandsins, sem haldið var í október á Akureyri, ályktun sem hljóðaði með þeim hætti að SGS ætlaði að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt og lagfæra launataxta verkafólks. Þessi kjarasamningur sem undirritaður var um helgina, er langt frá þeim markmiðum.

Kröfugerðin sem SGS hafði mótað var hógvær og hljóðaði upp á 20.000 kr. hækkun á lægstu töxtum. Þessi samningur hljóðar hins vegar einungis upp á 9.565 króna launahækkun, eða með öðrum orðum: lægsti taxtinn fór úr 191.752 kr. í 201.317 kr. Því til viðbótar kemur engin skattalækkun til þeirra tekjulægstu sem eru með laun undir 250.000 kr. Þetta þýðir að einstaklingur sem er að vinna á þessum töxtum er að fá 114.000 króna launahækkun á ársgrundvelli en í vasann er þetta einungis að skila í hverjum mánuði í kringum 5.600 krónum. Það gerir heilar 185 krónur sem íslenskt verkafólk mun fá í launahækkun í vasann á dag. Þetta er upphæð sem vart dugar fyrir tveimur lítrum af mjólk. Það er rétt að geta þess að rausn Samtaka atvinnulífsins er nú ekki meiri en svo að þeir ætla ekki einu sinni að láta samninginn gilda frá þeim tíma sem hann rann út, eða frá 1. desember, heldur taka þessar smánarlegu launahækkanir ekki gildi fyrr en frá og með 1. janúar 2014. Svo segja þessir menn sem bera ábyrgð á þessum samningi að áhersla hafi verið lögð á lægstu launin!

Hins vegar er það þannig að einstaklingur sem er með eina milljón í laun er að hækka um 28.000 á mánuði og því til viðbótar fær hann skattalækkun sem nemur tæpum 42.000 kr. á ári. Þetta er litlu minna en verkafólk fær í launahækkun á ári þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá, en það sem verkafólk hefur í vasann er rétt rúmar 67.000 krónur á ársgrundvelli. Því spyr formaður, hvar er réttlætið og sanngirnin í slíkri mismunun?

Það er sorglegt að verkalýðshreyfingin í heild sinni hafi ekki staðið þétt saman í að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi því það er morgunljóst að staða verkafólks er nokkuð sterk og þá sérstaklega hjá þeim sem starfa í útflutningsfyrirtækjunum og nægir að nefna í því samhengi að sjávarútvegurinn hefur aldrei nokkurn tímann hagnast eins gríðarlega og á undanförnum árum og nemur hagnaðurinn sem dæmi rétt tæpum 80 milljörðum á þessu ári. Að verkalýðshreyfingin hafi ekki verið tilbúin að standa í lappirnar og leiðrétta kjör þessa fólks er formanni gjörsamlega hulin ráðgáta. En rétt er að geta þess að grunnlaun fiskvinnslufólks sem starfað hefur 30 ár í greininni og er sérhæft eru rétt rúm 218.000 kr. á mánuði.

Á sama tíma og íslensku verkafólki eru skammtaðar þessar smánarlaunahækkanir er tilkynnt t.d. frá Arion-banka að verið sé að taka upp afkastahvetjandi bónuskerfi fyrir stjórnendur og ekki má gleyma að fyrir örfáum dögum síðan birtist í fréttum að nýtt bónuskerfi til handa lykilstjórnendum N1 verði tekið upp um áramótin, en slíkt bónuskerfi á að geta skilað lykilstjórnendum allt að 19 milljónum í bónus á ári. Setjum þessar tölu í samhengi við þær 5.600 krónur sem íslenskt lágtekjufólk fær í vasann í launahækkun á mánuði. Veruleikafirring þeirra sem hafa samvisku í að auka þessa misskiptingu í íslensku samfélagi er alger, enda er morgunljóst að þeir sem stjórna íslenskum fyrirtækjum í dag myndu ekki undir nokkrum kringumstæðum geta lifað af þeim smánarlaunum sem launataxtar Starfsgreinasambands Íslands kveða á um.

Það er alveg ljóst að íslensk verkalýðshreyfing þarf svo sannarlega að fara í naflaskoðun því þessir kjarasamningsgerð hefði svo sannarlega gefið hreyfingunni tækifæri til að sýna að hún hefur kjark og þor til að standa með sínu fólki og berjast fyrir bættum hag lágtekjufólks, en því miður þá brást verkalýðshreyfingin þessu fólki illilega. Það voru fleiri skemmdarverk unnin í þessum samningi, en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu bókun sem gengur út á það að allir kjarasamningar sem stéttarfélög eiga eftir að gera við SA skulu bera sömu skammarlegu launahækkanir og sá samningur sem undirritaður var á laugardaginn. Meira að segja stendur í bókuninni að samningsaðilar skuldbinda sig til að framfylgja þeirri launastefnu sem mótuð var í nýgerðum kjarasamningi. Þetta þýðir á mannamáli að allir sérkjarasamningar stéttarfélaganna, t.d. við stóriðjurnar, síldarbræðslurnar o.s.frv. eiga að taka sömu launahækkunum og áðurnefndur samningur kveður á um. Formaður reyndar dregur það stórlega í efa að slíkt standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur að ASÍ og SA geti tekið samningumboðið þannig af stéttarfélögum og samið um launahækkanir í kjarasamningum sem á eftir að gera á komandi ári.

Það er von formanns að íslenskt verkafólk kolfelli þessa kjarasamninga, en það er hins vegar morgunljóst að ef það á að nást samstaða um að lagfæra kjör lágtekjufólks, þá verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að standa þétt saman, því það er útilokað fyrir eitt eða örfá stéttarfélög að ætla sér að ná meiri launahækkunum en meirihluti stéttarfélaga hefur samið um. Þess vegna skorar formaður á íslenskt verkafólk að sýna vanþóknun sína í verki með því að greiða atkvæði gegn þessum samningum, því að hans mati er íslenskt verkafólk nánast jafndautt fyrir 185 krónur í vasann á dag. Þetta er og verður gríðarlega erfitt, en með samstöðu alls íslensks verkafólks er margt hægt að gera. En til þess þarf, eins og áður sagði, samstöðu verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.

19
Dec

Oft er þörf en nú er nauðsyn á samstöðu

Eins og allir vita er óhætt að segja að kjarasamningsviðræður Samtaka atvinnulífsins við verkalýðshreyfinguna séu botnfrosnar þessa dagana. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ráku upp stór augu fyrir nokkrum vikum síðan þegar gerð var krafa um að lágmarkstaxtar skyldu hækka um heilar 20 þúsund krónur eða úr 191 þúsund upp í 211 þúsund. Þeir spruttu fram og veifuðu framan í alþýðuna hagfræðiskírteinum sínum og sögðu að slíkar ofurkröfur myndu setja hér íslenskt samfélag á hliðina með óðaverðbólgu.

Á sama tíma og þetta er að gerast koma tilkynningar, meðal annars frá Arion banka, um að verið sé að taka upp alvöru afkastahvetjandi bónusaskerfi til handa lykilstjórnendum. N1 kom og bætti um betur í síðustu viku og tilkynnti að frá og með næstu áramótum yrði tekið upp bónuskerfi, já og takið eftir, handa lykilstjórnendum, og slíkt bónuskerfi á að geta gefið þeim allt að 19 milljónir í bónus á ári.

Og í dag barst síðan tilkynning frá kjararáði um að ráðið hafi samþykkt að hækka laun forstjóra Íbúðalánasjóðs um 79 þúsund krónur og er það til viðbótar við 110 þúsund króna launahækkunina sem hann fékk í júlí á þessu ári. Samtals hefur forstjóri Íbúðalánasjóðs fengið launahækkun sem samsvarar lægsta taxta verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og það bara á þessu ári.

Svo koma þessir snillingar fram og segja að ef að almennt verkafólk fái nokkur þúsund krónur í launahækkun þá muni slíkt hríslast upp allan launastigann með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú. Hvernig væri nú að þessar ofurlaunahækkanir æðstu stjórnenda íslenskra fyrirtækja færu nú að hríslast niður stigann. Því sem dæmi þá þyrftu lágmarkslaun að hækka um 41% til að ná 79 þúsund króna launahækkun eins og forstjóri Íbúðalánasjóðs fékk í dag.

Formaður getur ekki annað séð en að verkalýðshreyfingin í heild sinni þurfi nú að sýna mátt sinn strax í byrjun nýs árs og fara í þær kjaraviðræður sem nú eru komnar í strand af fullri hörku. Og ef Samtök atvinnulífsins sjá ekki að sér og lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi svo um munar þá er ekkert annað í stöðunni en að beita vopninu, já verkfallsvopninu sem ekki hefur verið notað hér síðustu áratugina. Með samstöðu getur íslenskt verkafólk látið vel finna fyrir sér. Oft er þörf fyrir íslenskt verkafólk að standa saman en nú er nauðsyn.

12
Dec

Ráðamenn og atvinnurekendur! Setjið ykkur í spor atvinnuleitanda og lágtekjufólks

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að stjórnvöld ætli sér ekki að sjá til þess að atvinnuleitendur fái desemberuppbót greidda eins og aðrir landsmenn. En hér erum við að tala um hóp fólks sem fær í atvinnuleysisbætur rétt rúmar 170.000 krónur á mánuði og því morgunljóst að það getur vart horft til gleðilegrar hátíðar hjá þessu fólki.

Það er formanni VLFA óskiljanlegt það skilningsleysi sem ríkir, ekki bara hjá stjórnvöldum, heldur einnig hjá Samtökum atvinnulífsins gagnvart lágtekjufólki og atvinnuleitendum hér á landi. Það er ekki bara að nú standi til að atvinnuleitendur fái ekki umrædda desemberuppbót, heldur stefnir allt í að fyrirhugaðar skattalækkanir stjórnvalda muni ekki ná til lágtekjufólks, atvinnuleitenda og annarra sem hafa tekjur undir kr. 250.000.

Formaður hefur trú á að þolinmæði íslensks lágtekjufólks hljóti að vera komin að þrotum og það skilningsleysi sem mætir þessum hópi í íslensku samfélagi er orðinn æpandi og ólíðandi. Það er æði margt sem bendir til þess að íslenskt verkafólk þurfi svo sannarlega að fara að stilla saman strengi sína og berjast af alefli fyrir því að réttlæti og sanngirni ríki í íslensku samfélagi. Það er dapurlegt til þess að vita að allar horfur eru á því að engar breytingar ætla að verða hvað varðar aðgerðir til handa þeim sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er mikilvægt fyrir ráðamenn þessarar þjóðar og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að setja sig í spor látekjufólks og atvinnuleitenda og fróðlegt væri að vita hvort þessir aðilar myndu treysta sér til að reka heimili fyrir 173.000 krónur á mánuði og halda jafnframt gleðilega hátíð á sama tíma. Formaður VLFA skorar á Alþingi Íslendinga að taka höndum saman og finna fjármagn til þess að atvinnuleitendur geti fengið desemberuppbót og eigi því örlitla möguleika að halda jól eins og aðrir landsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image