• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

02
May

1. maí á Akranesi - Frábær þátttaka og stemning

Vel yfir 200 manns tóku þátt í hátíðarhöldum vegna 1. maí á Akranesi í gær og var mikil stemning meðal þátttakenda. Hátíðardagskráin hófst kl. 14:00 með kröfugöngu sem var óvenjulega mannmörg í ár, en veður var milt og gott og göngufólki afar hagstætt. Margir voru með skilti og kröfuspjöld í göngunni og Skólahljómsveit Akraness annaðist undirleik af miklum myndarskap.

Að göngu lokinni safnaðist fólk saman á Kirkjubraut 40, þar sem hátíðar- og baráttufundur var settur. Vilhjálmur Birgisson, fundarstjóri, ávarpaði fundinn og sá um að kynna dagskrárliði. Hátíðarræðuna flutti verkamaðurinn Stefán Skafti Steinólfsson og kom hann víða við í máli sínu og var góður rómur gerður að ræðu hans sem má finna með því að smella hér. Grundartangakórinn söng nokkur lög sem féllu í góðan jarðveg, auk þess sem kórinn sá um glæsilegt kaffihlaðborð sem fundargestum var boðið upp á að dagskrá lokinni. Einnig má minnast á það að stéttarfélögin á Akranesi buðu upp á bíósýningu fyrir börnin í Bíóhöllinni kl. 15.

Myndir frá hátíðarhöldunum eru komnar inn á Facebook-síðu félagsins og einnig má sjá myndirnar með því að smella hér.

02
May

Starfsmenn Klafa samþykkja nýgerðan kjarasamning

Nú klukkan 12 lauk kosningu meðal starfsmanna Klafa um nýgerðan kjarasamning. Kjörsókn var 100%, en allir starfsmenn fyrirtækisins greiddu atkvæði um samninginn. Kosningin fór þannig að allir sögðu já, enginn sagði nei og enginn var auður eða ógildur.

Nýr kjarasamningur vegna starfsmanna Klafa er því samþykktur og munu laun hækka afturvirkt frá 1. janúar og aðrar breytingar samningsins, t.d. á bónusákvæðum, taka gildi frá 1. maí. Samninganefnd VLFA fagnar niðurstöðu kosningarinnar sem sýnir ótvírætt að ánægja ríkir meðal þeirra með nýja samninginn.

30
Apr

Nýr kjarasamningur undirritaður fyrir starfsmenn Klafa

 Í gær var gengið frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmenn Klafa á Grundartanga. En starfsmenn Klafa sjá um út- og uppskipanir fyrir stóriðjufyrirtækin á svæðinu. Kjarasamningurinn er nánast algerlega í anda þess samnings sem gengið var frá fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga og eru starfsmenn að hækka í heildarlaunum með öllu um yfir 30.000 krónur á mánuði.

Formaður er afar ánægður með þennan samning, enda er hann töluvert betri en kjarasamningurinn sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði. En það er ljóst að samningurinn er að nýtast báðum aðilum vel, sem er fólgið í því að gamla bónuskerfið er lagfært til muna og grunnlaun hækkuð umtalsvert sem og orlofs- desemberuppbætur. En í heildina hækka orlofs- og desemberuppbætur um rúmar 40.000 kr. á ári og nema samtals rúmum 320.000 kr.

Félagið er nú að kynna samninginn fyrir starfsmönnum og atkvæðagreiðslu um samninginn mun ljúka á föstudaginn.

30
Apr

1. maí hátíðarhöld á Akranesi!

Hátíðarhöld vegna 1. maí verða með hefðbundnu sniði á Akranesi í ár, safnast verður saman við Kirkjubraut 40 klukkan 14:00 og genginn hringur á Neðri-Skaga með hina taktvissu Skólahljómsveit Akraness í broddi fylkingar. Eru íbúar hvattir til að fjölmenna með skilti og kröfuspjöld og taka þátt í kröfugöngunni og dagskránni allri.


Að göngu lokinni bjóða stéttarfélögin á Akranesi upp á hátíðardagskrá í sal VLFA á Kirkjubraut 40. Skafti Steinólfsson, verkamaður, er ræðumaður dagsins og Grundartangakórinn syngur fyrir gesti. Að dagskrá lokinni er boðið upp á glæsilegt kaffihlaðborð.

Athugið að stéttarfélögin bjóða börnunum frítt í bíó klukkan 15:00.

25
Apr

Raunfærnimat í skipstjórn

Hefur þú starfað á sjó í 5 ár eða lengur og hefur áhuga á að ná þér í stýrimanns- og skipstjórnarréttindi? Þá gæti raunfærnimat hentað þér.

Raunfærnimat í skipsstjórn miðar að því að meta þá færni sem viðkomandi býr yfir inn í skólakerfið óháð því hvernig hennar hefur verið aflað. Metið er upp í skipstjórn á B stigi (45 m. skip). Þátttakendur fara í kjölfarið í skóla og ljúka því námi sem eftir stendur.

Kynningarfundur verður mánudaginn 28. apríl kl. 16:30 hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands þar sem einnig er að finna nánari upplýsingar.

23
Apr

Skrifstofa VLFA lokuð frá kl. 12 í dag vegna útfarar

Vegna útfarar Óttars Arnar Vilhjálmssonar verður skrifstofa Verkalýðsfélags Akraness lokuð frá kl. 12 í dag. 

15
Apr

Aðalfundi félagsins lokið

Rétt í þessu lauk aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, farið var yfir skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár, Ómar Davíðsson, endurskoðandi félagsins, fór yfir ársreikninga sem sýndu góða afkomu hjá öllum sjóðum félagsins og fór fundurinn að öðru leyti fram samkvæmt dagskrá (myndir frá fundinum má sjá hér).

Að þessu sinni hímdi dapurlegur skuggi yfir fundinum, þar sem formaður félagsins sá sér ekki fært að vera viðstaddur vegna fráfalls sonar hans sem lést um síðastliðna helgi aðeins þrítugur að aldri. Í lok fundarins ákváðu fundargestir að senda eftirfarandi kveðju til formanns:

"Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness sendir Vilhjálmi Birgissyni, formanni félagsins, og fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur á þessum erfiðu tímum. Þú hefur sem klettur barist fyrir okkur í gegnum árin með óbilandi baráttuþreki og fyrir það áunnið þér virðingu okkar og stuðning. Megi þið öðlast styrk og frið í þeim erfiðleikum sem þið nú glímið við, missir ykkar er óendanlegur en það er samhugurinn og stuðningurinn í ykkar garð einnig."

14
Apr

Sumarið 2014 - Úthlutun lokið

Nú hefur farið fram úthlutun vegna sumarleigu orlofshúsa félagsins sumarið 2014. Bréf til allra þeirra sem sem sóttu um verða póstlögð í dag, og þar kemur fram hvort þeir hafi fengið úthlutað eða ekki. Þessi bréf eru einnig sýnileg inni á Félagavefnum og þar hefur einnig myndast bókun hjá þeim sem fengu úthlutað.

Þeir sem fengu úthlutað hafa frest til föstudagsins 2. maí að greiða leiguna og þann 6. maí verður þeim vikum sem eftir standa endurúthlutað. Gríðarlega mikil eftirspurn er eftir orlofshúsunum og því er mikilvægt að þeir sem fengu úthlutað gangi sem fyrst frá greiðslu ef þeir ætla sér að þiggja sína úthlutuðu viku. Eftir hádegi þann 6. maí verður svo hægt að bóka þær vikur sem eftir standa þegar endurúthlutun er lokið og þá gildir sú regla að fyrstur kemur, fyrstur fær.

11
Apr

Skilafrestur umsókna um orlofshús í sumar rennur út í dag

Í dag rennur út frestur til að sækja um orlofshús eða -íbúð fyrir sumarið svo þeir sem eiga eftir að skila umsókn eru hvattir til að bíða ekki lengur.

Á mánudaginn fer úthlutun fram á þann hátt að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir raðast sá eldri framar í röðina. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu. Varðandi ávinnslu punkta, þá vinnur félagsmaður sér inn einn punkt fyrir hvern þann mánuð sem hann greiðir félagsgjald, en fái hann úthlutað dragast 24 eða 36 punktar frá punktastöðu hans. 

Í lok dags á mánudag verða bókanir sýnilegar á Félagavef hjá þeim sem fengu úthlutað, auk þess sem öllum umsækjendum verður sent bréf heim. Greiða þarf leigu fyrir 2. maí. Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Fyrir endurúthlutun er heimilt að breyta umsóknum og leggja inn nýjar. Endurúthlutun fer fram þann 6. maí. Eftir endurúthlutun verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt að bóka þær á skrifstofu félagsins eða á Félagavefnum. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

09
Apr

Akranes - Kynningarfundur um raunfærnimat

Hafir þú náð 25 ára aldri og starfað við einhverja iðn í 5 ár, þá getur raunfærnimat verið eitthvað fyrir þig og jafnvel stytt skólagöngu þína til muna. Næstkomandi mánudag kl. 17.30 verður haldinn kynningarfundur um raunfærnimat í húsakynnum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands á Akranesi. Fundurinn er öllum opinn og vonast er eftir þátttöku sem flestra.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image