• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Oct

Þing ASÍ

Í gær hófst 41. þing Alþýðusambands Íslands og lýkur því á morgun. Þing ASÍ er haldið á tveggja ára fresti og á hvert aðildarfélag rétt á því að senda a.m.k. einn fulltrúa á þing sambandsins og fer fjöldi fulltrúa eftir stærð hvers félagsins. Alls eru þingfulltrúarnir 300. Verkalýðsfélag Akraness á 8 þingfulltrúa í ár, en það eru þau Vilhjálmur Birgisson, Hafsteinn Þórisson, Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir, Guðrún Linda Helgadóttir, Jóna Adolfsdóttir, Hafþór Pálsson, Kristófer Jónsson og Sigurður Guðjónsson.Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, flutti ræðu á þinginu í gær þar sem hann gagnrýndi harðlega þá vegferð sem ASÍ hefur verið á hvað kjaramál varðar og þá samræmdu láglaunastefnu sem farið hefur verið eftir í tveimur síðustu samningum verkafólks og iðnaðarmanna. Í ræðu sinni fór hann meðal annars yfir það hvernig Samtök atvinnulífsins og forysta ASÍ reyna að telja almenningi í trú um að ætið sé samið um langmestu launahækkanir til handa þeim tekjulægstu og sagði "rétt að ítreka það að prósentur segja ekki nema hálfan sannleikann þegar fjallað er um launahækkanir hópa og prósentur eru algerlega til þess fallnar að blekkja íslenskt verkafólk. Það sem skiptir launafólk mestu máli er hversu margar krónur það fær í sitt launaumslag, ekki prósentur. Það liggur fyrir að ef 1 króna er sett ofan á aðra krónu þá er það hækkun upp á 100%. Já kæru félagar, prósentur blekkja og það er grátbroslegt þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og reyndar fleiri standa og öskra hátt og skýrt: lágmarkslaun hafa hækkað mest og reka svo út kassann og segja: okkur hefur tekist að verja kaupmátt lægstu launa."Vilhjálmur fór einnig yfir þróun lágmarkslauna frá árinu 1998 og bar saman við launaþróun forstjóra nokkurra stórfyrirtækja: "Í fyrsta lagi voru lágmarkslaun á Íslandi árið 1998 70.000 kr. Núna 16 árum seinna eru þau komin upp í 214 þúsund á mánuði sem gerir hækkun uppá 206%. Á bakvið þessi 206% er krónutöluhækkun sem nemur einungis 144.000 krónum á 16 árum sem þýðir að lágmarkslaun hafi hækkað að meðaltali um 9.000 kr. á ári þessi 16 ár. En takið eftir, næstráðendur íslenskra fyrirtækja hækkuðu um 600.000 kr. á mánuði bara á árinu 2013. Málið er líka að við förum ekki í Bónus eða aðrar verslanir og greiðum með prósentum, við borgum með krónum. En hvað skyldu laun forstjóra nokkurra stórfyrirtækja hafa hækkað frá 1998? Skoðum það aðeins. Árið 1998 var forstjóri ESSO sem núna er N1 með árstekjur uppá 18,7 milljónir. Í dag er forstjóri N1 með 52 milljónir. Hefur hækkað um rúmar 33 milljónir á ári eða sem nemur tæpum 3 milljónum á mánuði. Hækkun upp á 176,5%. Forstjóri Flugleiða var með 13,9 milljónir í árslaun árið 1998. Núverandi forstjóri Icelandair Group er hinsvegar með laun sem nema rúmum 44 milljónum á ári sem er hækkun um rétt rúmar 30 milljónir á ári eða sem nemur rúmri 2 og hálfri milljón á mánuði. En takið eftir þetta er prósentuhækkun upp á 218%. Forstjóri Eimskips var með 27,6 milljónir í árslaun árið 1998 en núverandi forstjóri Eimskips er sagður vera með 90,5 milljónir sem gerir hækkun um 63 milljónir á ári eða 5,2 milljónir á mánuði. Þetta er hækkun upp á 228%. Já þessir snillingar eru svo sannarlega búnir að hugsa um sig. Hafa hækkað um milljónir á mánuði og meira að segja með hærri prósentuhækkun en hækkun lágmarkslauna á sama tímabili."Ræða Vilhjálms hlaut afar góðar undirtektir hjá þingfulltrúum og er hægt að lesa hana í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image