• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Nov

Flottur fundur í Bíóhöllinni á Akranesi með starfsmönnum Norðuráls

Fjölmennur fundur var haldinn í Bíóhöllinni á Akranesi í gær með starfsmönnum Norðuráls. Á fundinum fór formaður félagsins yfir þá ótrúlegu atburðarás sem átti sér stað á fyrsta samningafundi með forsvarsmönnum Norðuráls. Sú atburðarás hefur þegar verið rakin í frétt hér á síðunni.

Það fór ekkert á milli mála að stuðningurinn, samstaðan og einhugurinn sem ríkir á meðal starfsmanna var gríðarlegur á fundinum. Fram kom í máli fundarmanna að þessum skemmdarverkum sem ástunduð hafa verið í kjarasamningsgerð á Grundartangasvæðinu skuli ljúka í eitt skipti fyrir öll. Það voru skýr fyrirmæli um að starfsmenn Norðuráls muni ekki og ætli sér aldrei að taka þátt í einhverju sem heitir samræmd láglaunastefna eins og tíðkast hefur á undanförnum árum á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fékk mikinn stuðning og hvatningu frá fundarmönnum um að halda áfram á þeirri braut sem félagið hefur verið á í að bæta og efla réttindi starfsmanna Norðuráls. Það komu fram skýr fyrirmæli á fundinum um að starfsmenn muni ekki undir nokkrum kringumstæðum sætta sig við að ekki verði hlustað á kröfuna um 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og gerist hjá Elkem Ísland. Þetta var mjög hávær krafa á fundinum. 

Formaður fór yfir það með fundarmönnum að framundan séu erfiðar og krefjandi kjaraviðræður og því skiptir samstaða starfsmanna lykilmáli ef nást á viðunandi og góður árangur til handa starfsmönnum Norðuráls. Formaður fór einnig yfir það að rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið vel sem skiptir miklu máli og er jákvætt fyrir alla. Einnig benti formaður á að álverð fari nú hækkandi á heimsmarkaði og sé nú að nálgast 2.100 dollara og hafi ekki verið hærra um alllanga hríð. Þessu til viðbótar liggur fyrir að allt stefnir í að í byrjun næsta árs verði hafnar framkvæmdir á stóru og öflugu stóriðjufyrirtæki, Silicor sólarkísilverksmiðju, á Grundartanga sem mun þurfa uppundir 440 manns í vinnu. Samkeppni um vinnuafl hefur jákvæð áhrif því öll samkeppni er af hinu jákvæða sem gerir það að verkum að fyrirtæki þurfa að vera vel samkeppnishæf í launum, aðbúnaði og öðru slíku.

Núna klukkan 10 mun hefjast fundur með forsvarsmönnum Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara og væntanlega mun samninganefndin fá einhver viðbrögð við kröfugerðinni sem lögð var fram á fyrsta fundinum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image