• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

31
Mar

Fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna Klafa

Í dag var fundað hjá Ríkissáttasemjara vegna kjarasamnings Klafa á Grundartanga, en þeir sjá um út- og uppskipanir á Grundartangasvæðinu fyrir Elkem Ísland og Norðurál. En eins og fram hefur komið hér í fréttum var gengið frá samningi við starfsmenn Elkem Ísland og er launakrafa starfsmanna Klafa byggð að langstærstum hluta á því sem um samdist í þeim samningi.

Þetta var góður og árangursríkur fundur og unnið er nú að því að útfæra þær launabreytingar sem munu taka gildi í kjarasamningi starfsmanna Klafa, og gefa samningsaðilar sér viku til að útfæra það. En skilningur beggja aðila er á að launabreytingar starfsmanna Klafa verði algerlega í takti við það sem um samdist fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga. Reiknar formaður með því að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi í byrjun næstu viku ef ekkert óvænt kemur upp á.

28
Mar

Nýr kjarasamningur fyrir Elkem Ísland samþykktur með 70% greiddra atkvæða

Rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning Elkem Ísland á Grundartanga við Samtök Atvinnulífsins sem Verkalýðsfélag Akraness gekk frá síðastliðinn föstudag. Á kjörskrá voru 134. Alls greiddu 111 manns atkvæði sem gerir 82,8% kjörsókn. Já sögðu 77, eða 70% starfsmanna. Nei sögðu 33 eða 29% starfsmanna. Einn seðill var auður, eða 1%. Samningurinn telst því samþykktur með 70% atkvæða.

Formaður félagsins er afar ánægður með þessa niðurstöðu, enda er að hans mati hér um mjög góðan samning að ræða, samning sem er að gefa starfsmönnum launahækkun frá rúmum 30.000 krónum upp í tæpar 36.000 krónur í heildarhækkun á mánuði. Það er morgunljóst að þetta er umtalsvert betri samningur en samræmda launastefnan á hinum almenna vinnumarkaði kvað á um.

Formaður vill þakka trúnaðarmönnum kærlega fyrir frábærlega vel unnin störf í þessari gríðarlega erfiðu kjaradeilu, og ekki síður starfsmönnum fyrir frábæra samstöðu og einhug, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefði verkfall skollið á síðastliðinn þriðjudag, ef ekki hefði tekist að ganga frá nýjum kjarasamningi.

21
Mar

Nýr samningur undirritaður fyrir starfsmenn Elkem - verkfalli afstýrt

Rétt í þessu undirritaði Verkalýðsfélag Akraness nýjan kjarasamning við forsvarsmenn Elkem Ísland og Samtök atvinnulífsins, en eins og fram hefur komið átti verkfall að skella á í verksmiðjunni næsta þriðjudag tækist ekki að semja fyrir þann tíma.

Formaður félagsins skal fúslega viðurkenna að það var afar ánægjulegt og mikilvægt að ná að klára undirritun á nýjum kjarasamningi áður en til verkfalls kæmi, enda er það morgunljóst að í verkfallsátökum stendur sjaldan einhver upp sem sigurvegari.

Þessi nýi kjarasamningur fyrir starfsmenn Elkem Ísland á Grundartanga gildir frá 1. janúar 2014 og gildir í þrjú ár. Við lausn á þessari deilu var reynt að finna leið sem gæti skilað báðum aðilum ávinningi, þ.e.a.s. bæði fyrirtækinu og starfsmönnum.  Eftir mikla yfirlegu og vinnu komust menn að niðurstöðu um lausn sem byggist á því að taka upp nýja bónusa til handa starfsmönnum, sem mun klárlega einnig nýtast fyrirtækinu ef vel tekst til.

Formaður félagsins er mjög sáttur með þennan samning, enda er hann að skila starfsmönnum góðum ávinningi og mun formaður fara ítarlega yfir innihald samningsins með starfsmönnum á tveimur kynningarfundum sem haldnir verða þriðjudaginn 25. mars á Gamla Kaupfélaginu kl. 13:00 og 19:00. Hægt verður að kjósa um samninginn að kynningum afloknum. Starfsmenn geta haft samband við formann félagsins til að fá nánari upplýsingar um innihald samningsins og er síminn hjá formanni 8651294. Formaður ítrekar það að hann er afar ánægður með að farsæl lausn hafi náðst þar sem hagsmunir starfsmanna og fyrirtækisins voru hafðir að leiðarljósi við að leysa þessa mjög svo erfiða kjaradeilu.

19
Mar

Enn ber töluvert í milli í kjaradeilu við Elkem Ísland

Glitti í smá vonarglætu á síðasta fundiGlitti í smá vonarglætu á síðasta fundiÍ gær var haldinn fundur vegna þeirrar alvarlegu kjaradeilu sem nú stendur yfir vegna Elkem Ísland á Grundartanga. Eins og fram hefur komið mun skella á verkfall í verksmiðjunni þriðjudaginn 25. mars sem þýðir að það eru einungis 6 dagar til stefnu og því morgunljóst að menn þurfa að hafa hraðar hendur ef koma á í veg fyrir verkfall. 

Það er ljóst að enn ber töluvert í milli samningsaðila þó formaður vilji samt viðurkenna að hann sjái örlitla vonarglætu um að hægt verði að ganga frá kjarasamningi áður en verkfall skellur á. Forsvarsmenn Elkem Ísland viðruðu nokkrar hugmyndir á fundinum í gær sem félagið telur vert að skoða og lúta þær að bónuskerfi fyrirtækisins og það má segja að það sé eðlilegt að fyrirtækið vilji horfa á slíka hluti því það getur jafnframt skilað fyrirtækinu ávinningi ef vel tekst til í slíku bónuskerfi. Enda eru bónuskerfi ætíð þannig að bæði starfsmenn og fyrirtæki geta hagnast ágætlega.

En eins og áður sagði ber töluvert í milli hjá samningsaðilum ennþá en næsti fundur er á morgun hjá ríkissáttasemjara. Þá munu þessi mál skýrast enn frekar en það liggur fyrir að samstaða og einhugur starfsmanna er gríðarlegur í þessari kjarabaráttu og það eru viss þolmörk sem Verkalýðsfélag Akraness og starfsmenn hafa sett sér í þessari kjaradeilu og morgunljóst er að frá þeim þolmörkum verður ekki hvikað.

Hinsvegar liggur það algjörlega fyrir að Verkalýðsfélag Akraness telur það afar brýnt að finna leið til að ganga frá kjarasamningi við fyrirtækið því það skiptir miklu máli að hægt verði að forðast verkfall því það er morgunljóst að í verkfalli tapa allir. En ef með þarf er það alveg hvellskýrt að félagið mun fara í verkfallsátök til að knýja fram sínar sanngjörnu, eðlilegu og réttlátu launakröfur. Það er ljóst að kröfugerð félagsins er hvorki ósanngjörn né yfirhlaðin.  

19
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er föstudagurinn 21. mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 1. apríl.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

14
Mar

Verkfallsboðun samþykkt hjá starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga

Verkfallsboðun var samþykkt með yfirgnæfandi meirihlutaVerkfallsboðun var samþykkt með yfirgnæfandi meirihlutaRétt í þessu luku trúnaðarmenn Elkem Ísland talningu á atkvæðum í kosningu um verkfall hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Þeir sem tóku þátt í kosningunni eru félagsmenn allra félaga sem eiga aðild að kjarasamningnum hjá Elkem en þau eru Verkalýðsfélag Akraness, VR, FIT, RSÍ og Stéttarfélag Vesturlands. Það er skemmst frá því að segja að mjög góð kjörsókn var en 85,6% starfsmanna þessara félaga greiddu atkvæði og var verkfallsboðunin samþykkt með 84,4% þeirra sem greiddu atkvæði.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er kjarasamningur Elkem Ísland búinn að vera laus frá 1. desember 2013 og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná fram nýjum kjarasamningi þá hefur það ekki borið árangur og var það því niðurstaða starfsmanna Elkem Ísland að ekkert annað væri í stöðunni en að boða til verkfalls frá 25. mars næstkomandi. Kröfugerð starfsmanna lýtur að því að hafna algjörlega samræmdri launastefnu ASÍ og SA enda liggur fyrir að hér er um sterkt og öflugt útflutningsfyrirtæki að ræða og því er það mat starfsmanna að það komi ekki til greina að semja á grundvelli samræmdrar launastefnu sem um var samið í kjarasamningunum á hinum almenna vinnumarkaði. Hinsvegar er rétt að geta þess að launakröfur starfsmanna Elkem Ísland eru hófstilltar, eðlilegar og sanngjarnar en störf í stóriðjum eru krefjandi, hættuleg og erfið og því er krafa starfsmanna sú að tekið verði tillit til þessara þátta.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar þessari niðurstöðu innilega en hann er jafnframt formaður samninganefndar vegna kjarasamnings Elkem Ísland. Þetta sýnir að algjör samstaða og einhugur ríkir á meðal starfsmanna Elkem Ísland um að berjast fyrir bættum og sanngjörnum kröfum til handa þeim sem starfa hjá fyrirtækinu. Það er einlæg von formanns VLFA að forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og Elkem Ísland átti sig á þeirri alvarlegu stöðu sem nú er komin upp og einbeiti sér að því að finna lausn í þessari erfiðu kjaradeilu.

Næsti fundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn kemur.  

12
Mar

Uppfærðir kauptaxtar komnir á heimasíðuna

Nýir kauptaxtar sem gilda fyrir störf á almennum vinnumarkaði (Kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins) eru komnir inn á heimasíðuna. Þeir gilda frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015 og eru þessar breytingar helstar:

  • Laun hækka um 2,8% frá 1. febrúar 2014, þó að lágmarki um 8.000 kr. á mánuði m.v. fullt starf. Laun undir kr. 230.000 hækka sérstaklega um jafnvirði eins launaflokks.
  • Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.
  • Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um kr. 9.565 og launaflokkur 17, eftir sjö ár, hækkar um kr. 10.107.
  • Lágmarkslaun verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.
  • Sérstök eingreiðsla kr. 14.600 greidd í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014.
  • Desemberuppbót 2014 verður kr. 73.600
  • Orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 verður 39.500.
  • Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1% frá 1. janúar 2014, nema hvað framlag í fræðslusjóð iðnaðarmanna hækkar frá 1. júní 2014

Þessa nýju kauptaxta má finna með því að smella hér.

Einnig er Sérkjarasamningur vegna starfa í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi kominn á síðuna og má finna samninginn og nýja taxta með því að smella hér.

10
Mar

Auglýsing um kosningu verkfalls hjá Elkem Ísland

Samninganefnd Verkalýðsfélags Akraness hefur ákveðið að hefja kosningu um verkfall á meðal félagsmanna sinna sem starfa hjá Elkem Ísland á Grundartanga. Fyrirkomulag kosningar er opinn kjörfundur á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness að Sunnubraut 13, og mun kosningin standa yfir frá og með deginum í dag til föstudagsins 14. mars 2014 kl. 12.

Verði verkfallsboðunin samþykkt mun verkfall starfsmanna sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og starfa hjá Elkem hefjast á hádegi þriðjudaginn 25. mars.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna Elkem Ísland á Grundartanga út 1. desember 2013.  Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná samningi þá hefur það ekki borið árangur og ber gríðarlega mikið á milli samningsaðila.

Á fundi hjá Ríkissáttasemjara 13. febrúar var bókaður árangurslaus fundur sem er grunnforsenda til að hægt sé að hefja kosningu um verkfall samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er óhætt að segja að algjör einhugur og samstaða ríki hjá starfsmönnum í þessari kjaradeilu, enda samstaða lykilatriði þegar kjaradeila er háð.

07
Mar

Sáttatillaga ríkissáttasemjara samþykkt á Akranesi

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um sáttatillögu vegna tveggja kjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að í gegnum tvö landssambönd, annars vegar í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og hins vegar Samiðn. Félagsmenn VLFA kolfelldu þessa samninga í janúar, en þann 28. febrúar síðastliðinn var skrifað undir þá sáttatillögu sem félagsmenn hafa nú kosið um.

Niðustaðan er sú að félagsmenn sem starfa á almenunm vinnumarkaði og tilheyra Starfsgreinasambandinu samþykktu sáttatillöguna með 85,1% atkvæða, 6,8% voru á móti og 8,1% skiluðu auðu. Félagsmenn í iðnsveinadeild og tilheyra Samiðn samþykktu einnig sáttatillöguna með 75% atkvæða, 25% voru á móti og enginn var auður.Það er því ljóst að kjarasamningar sem gerðir voru 21. desember síðastliðinn munu taka gildi frá 1. febrúar 2014 með breytingum sem kveður á um í sáttatillögunni. Helstu breytingar eru þær að í stað launabreytinga frá 1. janúar 2014 greiðist sérstök eingreiðsla, kr. 14.600 m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014. Einnig hækka desember- og orlofsuppbætur um kr. 32.300, en desemberuppbót m.v. fullt starf á árinu 2014 er kr. 73.600 og orlofsuppbót fyrir orlofsárið sem hefst 1. maí 2014 er m.v. fullt starf kr. 39.500.

Launabreytingar frá 1. febrúar eru þær að almennt hækka laun um 2,8%. Kauptaxtar sem eru undir kr. 230.000 hækka sérstaklega og nemur hækkunin tæplega 5%. Dæmi: Launaflokkur 1, byrjunarlaun, hækkar um 9.565 og Launaflokkur 17, eftir 7 ár hækkar um kr. 10.107. Aðrir kauptaxtar og kjaratengdir liðir (bónus, premía, akkorð o.fl. hækka um 2,8%, þó að lágmarki um kr. 8.000 kr. á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf verða kr. 214.000 á mánuði fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.

Press here for information in english.

Informacje w języku polskim

07
Mar

Árangurslaus fundur hjá Ríkissáttasemjara vegna Elkem

Í gær var haldinn fundur hjá Ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins vegna starfsmanna Elkem Íslands á Grundartanga. Það skal algerlega viðurkennast að formaður eygði þá von að forsvarsmenn fyrirtækisins myndu leggja fram einhvers konar tilboð sem hægt væri að taka til skoðunar, en það er skemmst frá því að segja að það sem lagt var fram í gær var ekki pappírsins virði. Með öðrum orðum, þetta var gamla góða samræmda launastefnan sem samið var um 21. desember síðastliðinn með örlitlum breytingum.

Nú hefur yfirvinnubann staðið yfir hjá Elkem Ísland í rétt tæpar tvær vikur og morgunljóst að ef ekki mun draga til tíðinda og stefnubreytingar af hálfu Samtaka atvinnulífsins og forsvarsmanna fyrirtækisins þá er ekkert annað en verkfall sem mun blasa við í þessari deilu. Á mánudaginn mun formaður funda með starfsmönnum Elkem Íslands á Gamla Kaupfélaginu og hefst fyrri fundurinn kl. 13 og sá síðari kl. 19. Á þeim fundum verður farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í deilunni. Það er mikilvægt að forsvarsmenn Elkem átti sig á þessari stöðu og fari nú að leggja fram einhverjar hugmyndir til lausnar á þessari deilu, ekki hugmyndir sem gera ekkert annað en að hleypa illu blóði í starfsmenn eins og gerðist eftir tilboðið frá þeim í gær.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image