• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fundur í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls Frá fundi með starfsmönnum Norðuráls fyrir síðustu kjarasamninga
26
Sep

Fundur í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls

Fimmtudaginn 2. október næstkomandi mun Verkalýðsfélag Akraness halda fund í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls og hefst hann kl. 20:00.

Ástæðan fyrir fundinum eru komandi kjarasamningar og vill félagið heyra í sem flestum starfsmönnum hvað þeir vilji leggja áherslu á í komandi samningum. Það liggur fyrir að starfsmenn hafa m.a. kvartað sáran yfir stórauknu álagi í verksmiðjunni á liðnum árum og eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lækkuðu launagreiðslur Norðuráls um rétt tæp 7% á milli ára þrátt fyrir metframleiðslu. Þessi lækkun á launakostnaði verður ekki skýrð með öðrum hætti en að starfsmönnum hafi fækkað og það þrátt fyrir stóraukna framleiðslu.

Formaður félagsins hélt fyrir stuttu fund með starfsmönnum steypuskála en þar hefur vinnuálagið að sögn allra starfsmanna verið ómanneskjulegt og telja þeir að álagið sé farið að ógna velferð og öryggi þeirra.  Á fundinum var gerð karfa um að VLFA myndi beita sér fyrir því að tekið yrði upp sambærilegt vaktakerfi og er hjá Elkem Ísland en þar er 8 tíma vaktakerfi en ekki 12 tíma eins og í Norðuráli.  Starfsmenn Elkem vinna 146 tíma á mánuði í þriggja vakta kerfi þar sem menn standa 6 vaktir á fimm dögum og eiga fimm daga í frí.  Með öðrum orðum afar fjölskylduvænt vaktakerfi enda láta starfsmenn Elkem afar vel af þessu kerfi.

Á fundinum sem haldinn verður í Bíóhöllinni á næsta fimmtudag mun formaður athuga hvort áhugi sé víðar í verksmiðjunni t.d. í kerskálanum á því að barist verði fyrir 8 tíma kerfi í stað 12 tíma. Þessi fundur er eins og áður sagði liður í að kanna hvað starfsmenn vilja leggja áherslu á í komandi kjarasamningum og er mikilvægt að huga vel að undirbúningnum því kjarasamningurinn rennur út um næstu áramót.

Sagan segir okkur að komandi kjarasamningar verði erfiðir enda hefur ávallt gengið töluvert á þegar samið hefur verið um kaup og kjör starfsmanna Norðuráls. Sem dæmi tók uppundir 9 mánuði að ganga frá samningum síðast frá því samningarnir runnu út.

Eitt er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun ekki gefa neitt eftir í þessum kjarasamningum enda engin ástæða til því rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið mjög vel . Sem dæmi þá hefur fyrirtækið ávallt skilað milljarða hagnaði ár hvert frá því það var sett á laggirnar 1998. Starfsmenn eiga því fulla heimtingu á að fá góða hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækisins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image