• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Heiðursfélaginn Garðar Halldórsson níræður í dag Garðar Halldórsson les upp ljóð í ferð eldri félagsmanna árið 2010
08
Sep

Heiðursfélaginn Garðar Halldórsson níræður í dag

Í dag á heiðursfélaginn og verkalýðsfrömuðurinn Garðar Halldórsson 90 ára afmæli, en hann er fæddur þann 8. september 1924 og er því jafnaldri félagsins, en Verkalýðsfélag Akraness var stofnað þann 14. september 1924 og verður því einnig nírætt á árinu.

Garðar fluttist til Akraness árið 1968 og hóf stöf í sútunarverksmiðju þar sem hann komst fljótt í kynni við Skúla þórðarson, þáverandi formann Verkalýðsfélags Akraness. Garðar skráði sig strax í Verkalýðsfélagið, sótti fundi og fylgdist vel með starfinu og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn formaður Verkamannadeildarinnar og síðar tók hann sæti ritara í aðalstjórn félagsins. Garðar tók virkan þátt í starfi félagsins fram til 1990 og starfaði einnig hjá Lífeyrissjóði Vesturlands um langa hríð.

Garðar hefur ætíð verið iðinn við að semja ljóð og tækifærisvísur og þau verið birt í félagsblöðum og víðar. Í 50 ára afmælisriti Verkalýðsfélags Akraness birtist þetta fallega ljóð eftir Garðar:

Vorþrá

 

Ó, fagra vor, ég þrái komu þina,

ég þrái ilm frá blómum jarðar minnar,

sem endurvakin vegna komu þinnar,

varpa fegurð yfir götu mína.

 

Nú bíð ég þín og bráðum fer að hlýna,

bráðum munt þú koma yfir hafið

og lífið allt í arma þína vafið

á andartaki skynjar köllun sína.

 

Eitt andartak, - svo verður þú að víkja

og varmi þinn og birta er á förum.

hver dagur verður aðeins skuggaskil -

 

og vetrarmögn í veröld okkar ríkja.

Þó veitist létt að mæta bágum kjörum

ef hjartað geymir von um vorsins yl.


Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar Garðari innilega til hamingju með daginn, með þökk fyrir hans framlag í baráttunni fyrir bættum kjörum íslenskrar alþýðu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image