• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Sep

Enn ráðist á íslenskt verkafólk

Þegar betur er rýnt í fjárlagafrumvarpið kemur í ljós að enn og aftur er ráðist á þá sem síst skyldi, semsagt íslenskt verkafólk. Í frumvarpinu kemur fram að hætta eigi greiðslum af hálfu hins opinbera til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða en skerða á þessar greiðslur um 20% á næsta ári og svo 20% næstu 5 árin þannig að árið 2019 muni greiðslur vegna jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða heyra sögunni til.

Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir hvað þetta þýðir. Jú, þetta þýðir á mannamáli að lífeyrisréttindi, sérstaklega verkafólks, munu 100% verða skert enn frekar en orðið er. Jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóðanna var sett á einfaldlega vegna þess að örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á lífeyrissjóði og getur numið allt frá 6% upp í 43% af lífeyrisgreiðslum sjóðanna. Á þessu sést hversu misjafnlega örorkubyrðin leggst á lífeyrissjóðina.

Þær bláköldu staðreyndir liggja fyrir, að örorkubyrðin er lang lang mest hjá lífeyrissjóðum sem íslenskt verkafólk á aðild að. Í dag eru yfir 18.000 öryrkjar sem fá greiðslur frá lífeyrissjóðunum og sem dæmi þá eru greiðslur vegna örorku í lífeyrissjóði sem félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness tilheyra um 32% af heildargreiðslum út úr sjóðnum. Já takið eftir, 32%.

Því miður er það bláköld staðreynd að öryrkjum hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum árum og nægir að nefna í því samhengi að árið 2006 voru öryrkjar 13.000 en eru í dag komnir yfir 18.000 og hefur því fjölgað um 38% á þessum árum. Þetta er grafalvarleg þróun því aukning á örorkubyrði sjóðanna þýðir ekkert annað heldur en skerðingu fyrir þá sem eru greiðendur inn í lífeyrissjóðina. Jöfnun örorkubyrði var sett á vegna þess hversu misþungt örorkulífeyrisgreiðslur falla á lífeyrissjóðina og þótti rétt á sínum tíma að jafna þennan aðstöðumun sem sjóðirnir búa við. En nú á semsagt að hverfa frá því og það mun klárlega bitna langharðast á ófaglærðu íslensku verkafólki þar sem örorkubyrðin er langmest.

Hvaða sanngirni er fólgin í því að íslenskt verkafólk þurfi sjálft að samtryggja sig í gegnum sína lífeyrissjóði eins og nú er gert? Í huga formanns VLFA er krafan skýr, örorkuþátturinn skal fara yfir til ríkisins enda hlýtur það að vera hlutverk samfélagsins alls að sjá um að tryggja sína þegna fyrir meðal annars örorku. Ekki er hægt að hafa þetta eins og er í dag þar sem örorkubyrðin er afar mismunandi eftir atvinnugreinum, menntun og öðru slíku sem leiðir klárlega til þess að skerða þarf réttindi hjá ófaglærðu fólki meira heldur en hjá öðrum vegna mikillar örorkubyrði. 

Það er óhætt að segja að árásum stjórnvalda á kjör verkafólks ætli seint að linna. Í fyrra var verkafólk með tekjur undir 250.000 kr. á mánuði skilið eftir þegar kom að skattalækkunum og nú stendur til að hækka matarskattinn sem klárlega mun bitna harðast á tekjulitlu verkafólki enda notar það hlutfallslega mest af sínum ráðstöfunartekjum til matarinnkaupa. Og svo bætast þessar árásir núna við þar sem jöfnun greiðsla vegna örorkubyrði lífeyrissjóðanna á að leggjast af í áföngum sem klárlega mun bitna hvað harðast á íslensku verkafólki. Nú er mál að linni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image