• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hörkufundur með starfsmönnum Norðuráls í gærkvöldi Hluti af þeim 170 starfsmönnum sem mættu á fundinn í gær
03
Oct

Hörkufundur með starfsmönnum Norðuráls í gærkvöldi

Í gærkvöldi stóð Verkalýðsfélag Akraness fyrir kynningar- og samstöðufundi á meðal starfsmanna Norðuráls í Bíóhöllinni á Akranesi. Tilefni fundarins var að um áramótin rennur kjarasamningur starfsmanna út og var farið yfir komandi kjaraviðræður og rætt hvað skyldi leggja áherslu á í þeim.

Þetta var hörkuflottur fundur en um 170 manns mættu. Samstaðan var mikil  og morgunljóst að starfsmenn Norðuráls eru sammála Verkalýðsfélagi Akraness í því að hækka verður laun í fyrirtækinu allverulega enda eru allar forsendur til að fara fram með slíka kröfu. Sem betur fer liggur fyrir að rekstur Norðuráls hefur gengið gríðarlega vel allt frá árinu 1998 en fyrirtækið hefur skilað hagnaði hvert einasta ár frá því það hóf starfsemi. Það liggur fyrir að það er grunnforsenda að horft sé til afkomu fyrirtækja þegar kröfugerð er mótuð.

Mönnum var tíðrætt á fundinum í gær um það mikla álag sem hefur aukist á undanförnum misserum enda liggur fyrir að samhliða mikilli framleiðsluaukningu þá hefur starfsmönnum verið að fækka. Starfsmenn voru algjörlega einhuga í því að grunnlaun þeirra þyrftu að taka stökkbreytingu. Það var samþykkt einróma á fundinum að gera skoðanakönnun um hvort berjast ætti fyrir 8 tíma vaktakerfi með sambærilegum hætti og tíðkast hjá Elkem Ísland á Grundartanga og hverfa frá þessum löngu 12 tíma vöktum. Trúnaðarmönnum var falið að ráðast í þessa kosningu og þegar hún liggur fyrir verður farið í að setja upp kröfugerð.

Eins og áður sagði var einhugur og samstaða algjörlega ríkjandi á fundinum enda er samstaða grundvöllur fyrir því að hægt sé að ná fram alvöru kjarabótum í kjaraviðræðum. Það er morgunljóst að slíka samstöðu er svo sannarlega að finna á meðal starfsmanna Norðuráls.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image