• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Oct

Kosning um nýtt vaktakerfi hjá Norðuráli hafin

Nú er hafin kosning á meðal vaktavinnumanna Norðuráls á Grundartanga. Kosið er um hvort starfsmenn vilji berjast fyrir nýju vaktakerfi sem byggist á 8 tíma vöktum í stað 12 tíma vakta sem nú eru. Það vaktakerfi sem kosið er um er með sambærilegum hætti og er hjá Elkem Ísland á Grundartanga.

Verkalýðsfélag Akraness sendi út upplýsingagögn til starfsmanna en fyrir mannleg mistök eru útreikningar á mismun á vinnutíma milli vaktakerfanna ekki réttir. Í útreikningunum kemur fram að starfsmenn Elkem Ísland séu að vinna tæplega 3 mánuðum skemur á ári heldur en starfsmenn Norðuráls. Hið rétta er að mismunurinn er tæplega 2 og hálfur mánuður á ári.

Starfsmenn Elkem vinna á fyrstu 3 árum í starfi 1.747 tíma á ári sem gerir að meðaltali 145,6 tíma á mánuði. Síðan eiga þeir samtals 24 vaktir í sumar- og vetrarorlof sem gerir 192 tíma þannig að staðinn vinnutími hjá Elkem er 1.555 tímar á ári. Eftir 3 ár hækkar orlofið hjá starfsmönnum Elkem upp í 27 vaktir og þá vinna þeir í heildina 1.531 tíma á ári.

Hjá Norðuráli standa menn rúmar 16 tólf tíma vaktir á mánuði sem gerir 2.184 klukkustundir á ári og eiga síðan 24 vaktir í sumar- og vetrarorlof fyrstu 5 árin sem gera 288 klukkustundir þannig að samtals er staðinn tími hjá starfsmönnum Norðuráls 1.896 tímar.

Mismunurinn á milli Elkem og Norðuráls fyrstu 3 árin er 341 tími á ári eða að meðaltali 28,5 tímar sem starfsmenn Norðuráls vinna meira á mánuði. Frá 3 ára starfstíma og upp í 5 ára starfstíma er mismunurinn hinsvegar 365 tímar á ári eða að meðaltali 30,4 tímar á mánuði. Eftir 5 ára starf og upp í 10 ára starf er mismunurinn aftur 341 tími á mánuði. Eftir 10 ára starf er mismunurinn 326 tímar.

Félagið harmar þessi mistök  og biður afsökunar á þeim en slíkt getur alltaf komið fyrir. Hinsvegar er alveg morgunljóst að þetta skiptir ekki höfuðmáli því stytting á vinnutíma er gríðarleg á milli þessara tveggja vaktakerfa samt sem áður. Nemur hún eins og áður sagði frá 28,4 tímum upp í 30 tíma á mánuði eða uppundir 2,5 mánuðum á ársgrundvelli.

Það er ekki bara að styttingin sé til staðar heldur er ljóst að kerfið er mun fjölskylduvænna enda er vinnuálag starfsmanna á þessum 12 tíma vöktum orðið gríðarlegt. Því eru háværar raddir um að taka upp 8 tíma vaktakerfi. Eins og félagið hefur áður sagt þá er þetta í höndum starfsmanna að ákveða hvað menn vilja gera því þetta er jú þeirra lífsviðurværi en það er ljóst að ákvörðunin um hvort leggja eigi áherslu á að berjast fyrir breytingu á vaktakerfi samhliða kröfu um sambærileg útborguð laun mun skýrast að aflokinni kosningu.

Formaður skorar á starfsmenn að hafa endilega samband við sig í síma 865-1294 eða á skrifstofu félagsins ef einhverjar spurningar vakna varðandi kosninguna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image