• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Sep

6 stjórnendur Haga með laun og bónusa upp á 240 milljónir á árinu 2013

Nú liggur fyrir að einungis nokkrir mánuðir eru þar til kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út en það verður í lok febrúar á næsta ári. Öll munum við hvernig síðustu kjarasamningar fóru þar sem verkafólki var gert skylt að taka laun eftir svokallaðri samræmdri launastefnu. Launastefnu sem kvað á um 2,8% hækkun þó að lágmarki 9.750 kr. Atvinnurekendur stóðu á öskrum og sögðu að það yrði að semja um hófstilltar launahækkanir sem myndu gilda fyrir allan íslenskan vinnumarkað. Þeir réðust í mikla auglýsingaherferð þar sem þessum skilaboðum var komið skýrt á framfæri og ef ekki yrði farið eftir þeim myndi stefna hér í óðaverðbólgu að þeirra sögn. Því miður tók forysta Alþýðusambandsins undir þessa hræðslutaktík Samtaka atvinnulífsins og því fór sem fór.

Hinsvegar kemur núna í ljós eins og nánast alltaf þegar kemur að því að semja um kjör handa íslensku verkafólki. Þá standa greiningadeildir bankanna, Seðlabankinn, stjórnmálamenn, Samtök atvinnulífsins og segja hófstilltar launahækkanir eru það sem til þarf til að viðhalda stöðugleika. En málið er að það eru alltaf þeir sömu sem þurfa að axla þessa ábyrgð, með öðrum orðum íslenskt verkafólk. Það liggur nefnilega fyrir að nánast allir sem sömdu á eftir almennu verkafólki fengu langtum hærri launahækkanir. Nýjasta dæmið er að 6 æðstu stjórnendur Haga fengu samanlagt í laun og bónusgreiðslur á árinu 2013 240 milljónir króna sem gerir að meðaltali í kringum 40 milljónir á hvern stjórnanda. Semsagt 3 milljónir á mánuði. Þetta var samræmda launastefnan hjá forsvarsmönnum Haga en rétt er að geta þess að íslenskir launþegar eiga Haga að stærstum hluta eða um 50% í gegnum sína lífeyrissjóði. 

Það kom líka fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar að millistjórnendur íslenskra fyrirtækja hækkuðu um 600.000 kr. á mánuði á síðasta ári. Á þessu sést hversu grimmileg misskiptingin og óréttlætið í íslensku samfélagi er. Og að er morgunljóst í huga formanns Verkalýðsfélags Akraness að nú verður látið sverfa til stáls í komandi kjarasamningum. Nú verða sóttar alvöru leiðréttingar til handa verkafólki því á sama tíma og stjórnendur fyrirtækja taka sér hundruð þúsunda hækkanir á mánuði var verkafólki gert skylt að þiggja einungis rúmar 9.000 kr. í hækkun á mánuði.

Formaður biðlar til íslensks verkafólks vítt og breitt um landið að standa nú þétt saman og mæta á fundi í sínu stéttarfélagi og krefjast þess að laun verkafólks verði leiðrétt svo um munar í komandi kjarasamningum enda liggur fyrir að fjöldi atvinnugreina hefur fulla burði til að skila ávinningnum til verkafólks. Nægir að nefna í því samhengi alla þá sem starfa hjá fyrirtækjum tengdum útflutningi enda er vöxtur til dæmis ferðaþjónustunnar gríðarlegur um þessar mundir að ógleymdri mjög góðri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja en nýlega skilaði Samherji 22 milljarða hagnaði eftir skatta. Nú skal látið sverfa til stáls, stöndum saman og leiðréttum launakjör íslensks verkafólks.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image