• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Jan

Mögnuð stemmning á fundi með starfsmönnum Norðuráls í gær

Verkalýðsfélag Akraness hélt hörkufund með starfsmönnum Norðuráls í sal Tónlistarskóla Akraness í gær þar sem farið var yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu stéttarfélaganna við Norðurál. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur nánast öllum kröfum stéttarfélaganna fyrir hönd starfsmanna verið hafnað.

Tilboð fyrirtækisins er vægast sagt rýrt en það hljóðar upp á 2,5% launahækkun, 75.000 kr. eingreiðslu og að tengja aðrar launahækkanir svo við það sem mun gerast á almennum vinnumarkaði. Skilaboðin til samninganefndar stéttarfélaganna voru hvellskýr frá starfsmönnum: Þið hafið ekki heimild til að hvika frá meginkröfum þeirrar kröfugerðar sem stéttarfélagin hafa lagt fram til Norðuráls.

Það er mat formanns VLFA að krafa starfsmanna sé í raun og veru afar hófstillt. Hún byggist meðal annars á að grunnlaun byrjanda hækki úr rúmum 206.000 kr. í rúmar 249.000 kr. Á þessu sést að grunnlaun byrjanda í stóriðju Norðuráls eru algjörlega til skammar og það er morgunljóst að það verður ekki hvikað frá því að grunnlaun starfsmanna hækki verulega í þeim samningum sem framundan eru.

Það var afar jákvætt að finna þá samstöðu og þann einhug sem ríkti á fundinum. Skilaboðin voru skýr eins og áður sagði, ekki gefa þumlung eftir, við höfum nægan tíma og því er mikilvægt fyrir forsvarsmenn Norðuráls að átta sig á því að það verður að verða algjör hugarfarsbreyting af hálfu fyrirtækisins ef samningar eiga að nást. Formaður fór yfir það að Norðurál er glæsilegt fyrirtæki, hefur blessunarlega gengið gríðarlega vel allt frá því það hóf starfsemi sína og skilað tugmilljarða hagnaði frá því það hóf starfsemi. Því er það skýlaus krafa að þessum ávinningi sé skilað með afgerandi hætti til þeirra sem skapa þennan hagnað sem eru jú starfsmennirnir sem vinna í verksmiðjunni.

Það er gott að vita að þessi samstaða er svo sannarlega til staðar og meðal annars kom fram á fundinum að það komi ekki til greina að hvika frá því að tekið verði upp fjölskylduvænt vaktakerfi sem byggist á þrískiptum 8 tíma vöktum og krafan er skýr um að starfsmenn haldi sambærilegum útborguðum launum og þeir eru með fyrir 12 tíma vaktirnar. Þetta er síður en svo óraunhæf krafa. Framhaldið er óljóst en næsti fundur verður haldinn hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Eins og áður sagði þarf að verða mikil stefnubreyting af hálfu forsvarsmanna fyrirtækisins ef þessi kjaradeila á að leysast á næstu vikum eða mánuðum. En ljóst er að starfsmenn eru svo sannarlega tilbúnir til að fylgja sínum kröfum eftir af fullri einurð og hörku ef þurfa þykir eins og sést á myndinni sem birtist með þessari frétt þar sem starfsmenn risu úr sætum á fundinum í gær og sögðust vera tilbúnir til að fylgja sínum kröfum eftir af fullri hörku.

22
Jan

Fiskvinnslunámskeið haldið hjá HB Granda

Í gær hélt HB Grandi fiskvinnslunámskeið sem veitir þátttakendum tveggja launaflokka hækkun. Þegar launin eru lág skiptir hver króna miklu máli. Þessi námskeið hækka ekki bara launin heldur öðlast fiskvinnslumaðurinn meiri þekkingu á hinum ýmsu sviðum enda fjölbreytt efni sem kennt er á slíkum námskeiðum.

Eins og svo oft áður kom formaður félagsins á þetta námskeið og hélt erindi er lýtur að réttindum og skyldum á íslenskum vinnumarkaði. Í kjölfarið sköpuðust miklar umræður og fram komu spurningar um hin ýmsu atriði sem tengjast þessum málefnum. Þetta námskeið var flott og HB Grandi á skilið hrós fyrir að halda reglulega slík námskeið en því miður er slíku ekki til að dreifa hjá öllum fiskvinnslufyrirtækjum á landinu.  

22
Jan

Góður fundur með félagsmálaráðherra

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá óskaði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og fór sá fundur fram í velferðarráðuneytinu í morgun. Er óhætt að segja að á þessum fundi hafi verið farið yfir mörg mál er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks, meðal annars sem tengjast húsnæðismálum, kjaramálum og öðrum hagsmunamálum.

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga með ráðherranum og þótti afar ánægjulegt að heyra og finna að hún telur vera svigrúm til að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá sérstaklega hjá útfluningsfyrirtækjum af ýmsum toga. Eygló var einnig sammála formanni um mikilvægi þess að samið verði í formi krónutöluhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að krónutöluhækkanir koma verkafólki og millitekjufólki hvað best.

Það var ánægjulegt að heyra að Eygló telur að fyrirtæki sem eru sköpuð góð rekstrarskilyrði á íslenskum vinnumarkaði eins og til dæmis í stóriðju og ekki síður í sjávarútvegi sem hafa fengið lækkun á auðlindagjöldum sem nemur milljörðum, skili því í formi hærri launa til þeirra sem starfa í greininni. Enda er morgunljóst að slíkt skilar sér með jákvæðum hætti út í samfélagið, jafnt til sveitarfélaga og til ríkis í formi hærri skatttekna.

Ráðherrann var líka sammála formanni í því að of lág laun íslensks verkafólks geti leitt til mikils samfélagslegs kostnaðar því ef að laun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu þá veldur það verri lýðheilsu sem endurspeglast síðan í hærri kostnaði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Hún tók undir með formanni um mikilvægi þess að lagfæra kjör íslensks verkafólks, þó með þeirri undantekningu að það hríslist ekki upp allan launastigann til þeirra allra tekjuhæstu.

Þetta var flottur fundur og gott að finna jákvætt viðhorf félagsmálaráðherra til mikilvægis þess að lagfæra hér þann ójöfnuð og þá misskiptingu sem ríkir í íslensku samfélagi.

22
Jan

Kröfugerð SGS mótuð

Rétt í þessu lauk hörkufundi hjá samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands en það er landssamband verkafólks á landsbyggðinni. Á þessum fundi var kröfugerð sambandsins endanlega mótuð og samþykkt og það var gjörsamlega frábært að finna þá gríðarlegu samstöðu og einhug sem ríkir innan aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands við mótun þessarar kröfugerðar. Það er morgunljóst að aðildarfélög SGS ætla sér að lagfæra og leiðrétta kjör íslensks verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum.

Kröfugerðin verður afhent forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins á mánudaginn og verður hún ekki gerð opinber fyrr en eftir að Samtök atvinnulífsins hafa fengið hana í hendur. Það kom skýrt fram á þessum fundi að aðildarfélög SGS á landsbyggðinni eru tilbúin til að standa þétt saman í því að bæta kjör okkar félagsmanna og verður það gert með góðu eða illu. Var samninganefndin sammála því að aðildarfélögin þyrftu að búa sig undir verkfallsátök ef þurfa þykir og ríkti algjör einhugur um það að standa saman í því ef til verkfallsátaka kæmi í komandi kjaraviðræðum.  

21
Jan

Formaður fundar með félags- og velferðarráðherra

Formaður félagsins mun funda með Eygló Harðardóttur, félags- og velferðarráðherra, á morgun og hefst fundurinn kl. 10. Það verða næg umræðuefni við ráðherrann enda er málaflokkur félagsmálaráðherra afar víðtækur og tengist ýmsum hagsmunum íslensks verkafólks og þeirra sem minna mega sín í íslensku samfélagi.

Það var afar ánægjulegt að heyra haft eftir Eygló um daginn að hún teldi vera nægt svigrúm til frekari launahækkana til handa íslensku verkafólki. Nefndi hún, eins og formaður hefur margoft bent á, það mikla svigrúm sem er til staðar hjá fyrirtækjum í útflutningsgreinunum. Formaður mun fara yfir hin ýmsu mál með ráðherranum er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks og reyna að koma áherslunum vel á framfæri.

21
Jan

Ekkert þokast áfram í kjaradeilu við Norðurál

Í gær var fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Norðuráls og er skemmst frá því að segja að lítið þokast áfram í þeirri deilu. Enda ber gjörsamlega himinn og haf á milli deiluaðila í þessari deilu. Formaður hefur sagt í gegnum árin að fyrirtæki eins og Norðurál sem býr við góð rekstrarskilyrði, hefur ætíð skilað góðri afkomu og er með hvað lægstu launagreiðslur af heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði á og ber skylda til að skila slíkum ávinningi til starfsmanna fyrirtækisins.

Eins og áður sagði hefur Norðurál ætíð gengið vel. Álverð er í þokkalegu ástandi en það eru yfir 1800 dollarar í dag fyrir tonnið. Hinsvegar er dollarinn afar hagstæður fyrirtækinu um þessar mundir en hann stendur í 132 krónum í dag en var í upphafi síðasta árs í kringum 111 krónur. Þetta skiptir Norðurál miklu máli enda selur það allar afurðir út í dollurum en greiðir allan launakostnað í íslenskum krónum.

Á morgun verður fundur með starfsmönnum Norðuráls en hann verður haldinn í Tónbergi, sal tónlistarskólans á Akranesi, og hefst kl. 20. Á þeim fundi mun formaður fara ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu. Það er morgunljóst að ef ekki verður alvarleg hugarfarsbreyting hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins hvað þessa deilu varðar þá mun stefna hér í grjótharða kjarabaráttu þegar starfsmenn munu hafa tækifæri til að sýna vald sitt. Tíminn mun vinna með starfsmönnum og þessari deilu má líkja við knattspyrnuleik þar sem þolinmæði getur verið dyggð. Það er búið að ganga frá kjarasamningum vítt og breitt í samfélaginu, samningum sem hafa verið að gefa um og yfir 30% í 3 ára samningum og það er algjörlega hvellskýrt að ekki verður gengið frá kjarasamningi við forsvarsmenn Norðuráls með öðrum hætti heldur en þar hefur verið gert. Enda engar forsendur fyrir slíku vegna áðurnefndrar góðrar afkomu fyrirtækisins. 

Á fundinum á morgun munu starfsmenn sem mæta á fundinn taka ákvörðun um hvert framhald þessara kjaraviðræðna verður enda er það starfsmanna að ákveða hvað gera skuli þar sem þetta er þeirra lífsviðurværi. En miðað við þann gríðarlega fjölda sem hefur haft samband við formann þá skynjar hann mikla reiði og hryggð yfir því að forsvarsmenn fyrirtækisins séu ekki tilbúnir í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoman sé góð og stórir hópar hafi gert góða samninga, að gera slíkt hið sama. Og það má heyra á starfsmönnum að slíkt verður alls ekki látið átölulaust.   

16
Jan

Dagbækur 2015 komnar í hús

Dagbækur 2015 eru komnar í hús hér á Sunnubraut 13, með eilítið breyttu sniði en fyrri ár. Það er kjörið að næla sér í eina slíka og nota til að halda utan um tímaskriftir, vaktatöfluna, sumarfríið, afmælisdaga eða hvar sem skipulags er þörf.

Félagsmenn utan Akraness geta haft samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og fengið dagbók senda í pósti.
 

16
Jan

Grunnlaun sorphirðumanna til skammar

Þessir vösku sorphirðumenn gáfu sér smástund til að líta upp frá vinnu sinni og þiggja kaffibolla á kaffistofu félagsins áður en þeir drifu sig aftur út í frost og snjó að sinna sínu mikilvæga starfi.

Í morgun voru starfsmenn Íslenska Gámafélagsins önnum kafnir við að tæma ruslatunnur á Sunnubrautinni. Formaður greip tækifærið, kallaði í þá og bauð þeim kaffi og kleinur, enda er það mat formanns að starf sorphirðumanna sé eitt það erfiðasta líkamlega og á það kannski sérstaklega við þegar veðurskilyrði eru eins og við þekkjum hér á landi, mikið fannfergi og svæðið erfitt yfirferðar.

Þessi vinnuskilyrði endurspeglast svo sannarlega ekki í launakjörum þessara manna, enda eru grunnlaun sorphirðumanna hlægilega lág miðað við áðurnefnd vinnuskilyrði og erfiði. Það liggur fyrir að sorphirðumenn eru að ganga eða hlaupa 30 til 40 kílómetra á einum vinnudegi og því greinilegt þetta starf er gríðarlega annasamt og erfitt.

Grunnlaunin eru eins og áður sagði til skammar, en grunnlaun almenns sorphirðumanns eru 206.500 krónur sem svo sannarlega endurspegla ekki þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og vinnuskilyrði þeirra, eins og áður var lýst. Þetta er eitt af því sem svo sannarlega þarf að lagfæra í komandi kjarasamningum, það eru kjör sorphirðumanna sem og annarra verkamanna á íslenskum vinnumarkaði.

14
Jan

Algjörlega árangurslausir fundir með Norðuráli

Í gær var haldinn í húsakynnum Ríkissáttasemjara sjötti samningafundurinn í kjaradeilu stéttarfélaganna gagnvart Norðuráli, en deiluaðilar vísuðu deilunni til ríkissáttasemjara fyrir skemmstu. Þetta var annar fundurinn undir handleiðslu sáttasemjara og það er skemmst frá því að segja að himinn og haf er á milli deiluaðila.

Á þessari stundu er fátt sem bendir til þess að lausn finnist á deilunni á næstu vikum, enda hvellskýrt að algjör hugarfarsbreyting þarf að verða hjá forsvarsmönnum Norðuráls ef þessi deila á að leysast. Það liggur fyrir að starfsmenn og stéttarfélög munu sækja fram leiðréttingar á kjörum starfsmanna af fullum þunga, en nánast öllum kröfum stéttarfélaganna hefur verið hafnað. Það er í raun og veru nöturlegt til þess að vita að fyrirtæki eins og Norðurál, sem er eitt öflugasta fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði og hefur skilað hagnaði nánast hvert einasta ár frá því það hóf starfsemi, hefur búið við góð rekstrarskilyrði og er með einn lægsta launakostnaðinn miðað við heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði, skuli ekki geta gert betur en raun ber vitni.

Það má segja að þetta gildi um allar stóriðjurnar á Íslandi sem hafa búið við góð rekstrarskilyrði og þó sérstaklega eftir hrun íslensku krónunnar, en þessum ávinningi hefur á engan hátt verið deilt með starfsmönnum. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð talað um að íslenskum fyrirtækjum séu sköpuð góð rekstrarskilyrði sem eigi að leiða það að verkum að fyrirtæki geti gert betur gagnvart sínum starfsmönnum en ella. En því miður hefur þessu ekki verið til að dreifa, ef horft er í heildina yfir öll útflutningsfyrirtæki á Íslandi sem búa um þessar mundir við gríðarlega jákvæð skilyrði.

Eins og áður sagði er það morgunljóst að hvergi verður hvikað frá í þessari baráttu. Það mun engu breyta þótt það taki tíma, því samstaða og einurð starfsmanna í baráttunni fyrir bættum kjörum er alger, og það skiptir stéttarfélögin gríðarlega miklu máli að finna þann mikla baráttuanda sem ríkir meðal starfsmanna. Næsti fundur hefur verið boðaður næsta þriðjudag, og það liggur algerlega fyrir að ef ekki verður hugarfars- og stefnubreyting af hálfu forsvarsmanna Norðuráls þá verður viðræðum við fyrirtækið slitið, enda er ekkert í tilboði Norðurálsmanna sem gefur tilefni til frekari viðræðna. Á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku mun Verkalýðsfélag Akraness boða til fundar í Bíóhöllinni Akranesi þar sem starfsmönnum verður gerð grein fyrir gangi viðræðna með ítarlegum hætti, og til hvaða ráðstafana verður hægt að grípa. En samkvæmt kjarasamningnum opnast verkfallsréttur ekki fyrr en eftir þrjá mánuði og síðan líða nokkrir mánuðir þar til hann fer að virka samkvæmt kjarasamningi. En það er ljóst, eins og áður sagði, að ekki kemur annað til greina en að kjör starfsmanna Norðuráls verði bætt svo um munar í komandi kjarasamningum, bæði vegna frábærrar afkomu fyrirtækisins í gegnum árin, og ekki síður vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu, kjarasamninga sem í sumum tilfellum eru að gefa starfsmönnum langt yfir 30%.

08
Jan

Félagsskírteini ársins 2015 á leið til félagsmanna

Félagsskírteini ársins 2015 eru nú farin í póst til félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness og ættu því að berast þeim á næstu dögum. Með skírteinunum fylgja yfirlit um greidd félagsgjöld árið 2014. Dagbók félagsins er einnig á leið úr prentun og hægt verður að nálgast eintak af henni á skrifstofu félagsins í næstu viku.

Félagsskírteinin eru staðfesting á félagsaðild en veita jafnframt sérkjör og afslætti hjá ýmsum fyrirtækjum. Þau fyrirtæki eru meðal annars Apótek Vesturlands (10% af öðru en lyfjum), Model (5-10%), Omnis (5-15%), Ozone (10%), Rafþjónusta Sigurdórs (5-10%), Dekur snyrtistofa (10%), Bifreiðaverkstæðið Brautin (7%), Trésmiðjan Akur (7%), VÍS (5%) og Ökukennsla Sigga Trukks (10%). Auk þess býðst félagsmönnum sem fyrr afsláttur hjá N1, Olís og Orkunni. Félagsskírteinið er í greiðslukortastærð eins og undanfarin ár. Er það von Verkalýðsfélags Akraness að þau sérkjör og afslættir sem skírteinið veitir haldi áfram að létta undir með félagsmönnum.

Nánari upplýsingar um sérkjörin má finna hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image