• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Apr

Kosning um verkfall hefst eftir helgi

Nú hafa starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness lokið við að senda út kjörgögn vegna komandi kosningar um verkfall. Ættu kjörgögnin að vera búin að berast félagsmönnum strax eftir helgi en opnað verður fyrir kosninguna 13. apríl. Eins og áður hefur komið fram er íslenskt verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði nú nauðbeygt til að beita verkfallsvopninu í fyrsta sinn í áratugi. 

Ástæðan er einföld, Samtök atvinnulífsins bjóða íslensku verkafólki launahækkun sem nemur 3 - 3,5% sem myndi þýða í kringum 7.000-8.000 kr. launahækkun á mánuði sem er algjörlega fjarri því að duga til að lagfæra kjör verkafólks með þeim hætti að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu. Þetta tilboð er svo sorglegt, sérstaklega í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness starfa hjá græða og skila hagnaði eins og enginn sé morgundagurinn. Í dag er til að mynda HB Grandi með aðalfund þar sem á að leggja til að greidd verði arðgreiðsla til eigenda sem nemur 2,7 milljörðum en fyrirtækið skilaði sem betur fer glæsilegri afkomu á síðasta ári sem nam 5,7 milljörðum í hagnað. 

Maður hefði haldið að í ljósi svona góðrar afkomu þá væri til dæmis HB Grandi tilbúinn til að skila góðri afkomu til landverkafólksins með afgerandi hætti en slíku er alls ekki til að dreifa. Þeir eru innan Samtaka atvinnulífsins og bjóða 7.000 - 8.000 kr. hækkun á mánuði. Og hvað myndi það þýða til dæmis fyrir fyrirtæki eins og HB Granda í kostnað? Jú, þetta tilboð sem fiskvinnslufólki í HB Granda og öðrum stendur til boða myndi kosta fyrirtækið í kringum 3,7 milljónir á mánuði en um 500 landverkamenn vinna hjá HB Granda. Já, hugsið ykkur, tilboðið sem SA leggur fram fyrir hönd HB Granda myndi vera með kostnaðarauka upp á 3,7 milljónir handa 500 manns sem er eilítið meira heldur en heildarlaun forstjórans á mánuði. 

Er það boðlegt að fyrirtæki sem er að greiða sér arðgreiðslur upp á 2,7 milljarða skuli leggja til að launakostnaður fiskvinnslufólksins hækki einungis um 3,7 milljónir á mánuði? Hvernig hafa eigendur slíks fyrirtækis samvisku til að taka þátt í slíkri smámunasemi og hví í ósköpunum eru fyrirtæki sem eru að skila svona ofurafkomu ekki tilbúin til að deila ávinningnum með þeim sem skapa hagnaðinn sem er jú starfsfólkið. Það er morgunljóst að það verður hvergi gefið eftir í þessari kjarabaráttu en ef til dæmis HB Grandi myndi ganga að kröfum VLFA að fullu þá myndi það kosta fyrirtækið 400 milljónir. Það eru smáaurar miðað við afkomutölur fyrirtækisins og eigendum fyrirtækisins ber siðferðisleg skylda til að skila góðri afkomu með betri og afgerandi hætti til starfsmanna heldur en hingað til hefur verið gert. 

Formaður skorar á félagsmenn sem munu fá kjörgögn eftir helgi að kjósa og segja JÁ við verkfalli. Félagið á góðan verkfallssjóð og munu starfsmenn fá 10.000 krónur fyrir hvern dag í verkfallsstyrk sem verkfallið stendur yfir. Félagið mun geta haldið sínum félagsmönnum í verkfalli í rúman mánuð miðað við þann sjóð sem félagið á og það mun félagið gera ef þurfa þykir. Félagsmenn munu öðlast rétt úr verkfallssjóði strax eftir fyrsta verkfallsdag, verkfallssjóðir eru til þess að styðja við félagsmenn í verkfallsátökum og því engin ástæða til að láta einhvern tíma líða þar til starfsmenn byrja að öðlast rétt úr verkfallssjóðnum. Formaður ítrekar enn og aftur: Kjósum, sýnum samstöðu, því oft er þörf en nú er nauðsyn. Skiptum þjóðarkökunni með sanngjörnum hætti! 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image