• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Mar

Samtök atvinnulífsins þora ekki að mæta íslensku verkafólki

Það verður að segjast alveg eins og er að það er hálf lítilmannlegt af Samtökum atvinnulífsins að hafa ekki kjark og þor til að mæta íslensku verkafólki í þeirri kjarabaráttu sem nú er framundan. Þetta kjarkleysi Samtaka atvinnulífsins birtist meðal annars í því að þau hafa tilkynnt að þau muni draga kosningu Starfsgreinasambandsins fyrir félagsdóm og láta reyna á lögmæti hennar. 

Það er hinsvegar lenska hjá Samtökum atvinnulífsins að þegar kemur að kosningu um verkfall er nánast öllu er viðkemur verkfallsboðunum vísað til félagsdóms. Með öðrum orðum þeir þora ekki að mæta íslensku verkafólki í verkfallsátökum.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands  kom saman til fundar í gær til að meta þá stöðu sem upp var komin í ljósi þess að verkfall Rafiðnaðarsambands Íslands vegna tæknimanna hjá RÚV var dæmt ólöglegt. Með trega, reiði og sorg í hjarta ákvað samninganefnd SGS að hefja frekar nýja kosningu um nýtt verkfall sem hugsanlega mun tefja málið örlítið.

Það er lítilmannlegt eins og áður hefur komið fram að Samtök atvinnulífsins séu ekki tilbúin til að taka slaginn við íslenskt verkafólk heldur leiti allra tæknilegra leiða til að komast hjá verkfallsátökum. 

Þetta hefur gert það að verkum að það bullsýður á íslensku verkafólki yfir þessu framferði Samtaka atvinnulífsins því eina leiðin hjá Samtökum atvinnulífsins til að forðast verkfallsátök er að setjast niður og semja við verkafólk um þannig launakjör að sómi sé að og launin dugi fyrir lágmarksframfærslu. 

Eins og áður sagði hefur þessi framkoma Samtaka atvinnulífsins hleypt illu blóði í íslenskt verkafólk en nú munu landsbyggðafélögin innan Starfsgreinasambandsins þjappa sér enn frekar saman og hvetja íslenskt verkafólk til að standa þétt saman og taka þátt í nýrri kosningu um verkfall en það er mat Verkalýðsfélags Akraness að nú þurfi að herða aðgerðaplanið er lýtur að verkafallinu til mikilla muna vegna þessa framferðis fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. 

Á sama tíma og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa ekki kjark og þor til að standa andspænis verkföllum verkafólks og gagnrýna sanngjarnar launakröfur þeirra um að lágmarkstaxtar verði komnir uppí 300.000 krónur innan þriggja ára þá dynja yfir okkur umfangsmiklar launahækkanir stjórnarmanna í hinum ýmsu fyrirtækjum.

Þetta eru stjórnarlaun í fyrirtækjum sem tilheyra Samtökum atvinnulífsins, það er greinilegt að þar gilda önnur lögmál þar sem græðgisvæðingin er allsráðandi. Nýjasta hækkun stjórnarlauna er í bankakerfinu upp á tugi þúsunda króna á mánuði svo ekki sé talað um hækkanirnar hjá stjórnarmönnum VÍS upp á 75%. En svo þegar kemur að íslensku verkafólki er talað um að grunnlaun sem eiga að vera orðin 300.000 kr. innan þriggja ára muni ógna íslenskum stöðugleika. Við þessum málflutningi Samtaka atvinnulífsins er ekki nema eitt að segja eða það sama og fiskvinnslukonurnar í HB Granda segja í baráttulagi sem þær gáfu út: Sveiattan!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image