• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Mar

Flugstjórar fengu rúm 15% á fyrsta ári!

Formanni Verkalýðsfélags Akraness hefur borist vitneskja með óyggjandi hætti um að Samtök atvinnulífsins með Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group og formann Samtaka atvinnulífsins í broddi fylkingar, hafi samið við flugstjóra Icelandair í lok síðasta árs upp á rúm 25% og þar af koma rétt rúm 15% á fyrsta ári. Þetta er til viðbótar þeim tæpu 9% sem samið var um við flugstjóra í maí í fyrra í 3 mánaða samningi. Formaður vill byrja á því að óska flugstjórum til hamingju með þennan frábæra samning sem þeir hafa náð við Samtök atvinnulífsins. 

Það er með ólíkindum að hlusta á Samtök atvinnulífsins sem sömdu við verkafólk upp á 2,8% í fyrra á sama tíma og samið var við flugstjóra upp á tæp 9% og það er líka ótrúlegt að hlusta á Samtök atvinnulífsins segja að það séu 3,5% til skiptanna til handa verkafólki á sama tíma og það er samið við flugstjóra upp á rúm 15% sem komu í tvennu lagi á fyrsta ári og síðan fá þeir 7,36% 1. október 2016. 

Þetta er með ólíkindum vegna þess að sá sem er formaður Samtaka atvinnulífsins er eins og áður sagði einnig forstjóri Icelandair Group. Þessir aðilar eru búnir að teikna upp sviðsmyndir sem eru fólgnar í því að ef gengið verði að kröfum verkafólks þá muni útflutningsfyrirtæki nánast verða gjaldþrota, verðbólga fara upp í 27% og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 500 milljarða. En þeim virðist algjörlega hafa láðst að teikna upp sviðsmynd hvað varðar hækkun flugstjóra. Var hún ekki reiknuð út af hendi Samtaka atvinnulífsins? Nei, hræðsluáróðurinn og óréttlætið sem dynur á íslensku verkafólki í hvert sinn sem það gerir þá lágmarkskröfu að fara fram á að laun þeirra dugi fyrir lágmarksframfærslu ríður ekki við einteyming. 

Það er reyndar líka nöturlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins þar sem stjórnvöldum er kennt um að hafa rofið samningsfriðinn með kjarasamningum við lækna í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins við flugstjórana er síst lakari heldur en kjarasamningur lækna. Sem dæmi þá liggur fyrir að flugstjóri í efsta þrepi er kominn með föst laun upp á 1.622 þúsund samkvæmt launatöflu. 

Þessar nýjustu upplýsingar um samning sem að formaður Samtaka atvinnulífsins hefur gert við flugstjóra Icelandair mun ekki gera neitt annað en að blása gríðarlegum baráttuanda í íslenskt verkafólk því óréttlætinu á íslenskum vinnumarkaði skal lokið í eitt skipti fyrir öll.

Það er í raun og veru með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins og formaður Icelandair Group hafi komist upp með það að svara ekki fjölmiðlum um hvað var samið við flugstjórana og því spyr formaður VLFA núna: Eru Samtök atvinnulífsins ekkert hrædd um að þessi samningur muni nú hríslast niður launastigann? Eða voru þau að vonast til þess að þau kæmust upp með þennan gjörning án þess að það yrði upplýst á opinberum vettvangi?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image