• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Apr

Verkfallssjóðurinn dugir í rúman mánuð

Núna er Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum aðildarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands að undirbúa nýja kosningu til verkfalls. Kjörgögn verða send út fyrir helgi og ættu að vera búin að berast félagsmönnum í byrjun næstu viku en kosningin mun standa yfir frá 13. apríl til 20. apríl. 

Það er gríðarlega mikilvægt að þeir sem hafa kosningarétt, sem er verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði, nýti sér kosningaréttinn og segi já við verkfalli því afstaða Samtaka atvinnulífsins til sanngjarnrar og réttlátrar kröfu verkafólks hefur verið algjört tómlæti og því ekkert annað í stöðunni en að mæta atvinnurekendum af fullri hörku með hörðum verkfallsaðgerðum. Krafa upp á 300.000 kr. lágmarkslaun innan þriggja ára er ekki bara réttlát, hún er sanngjörn og bráðnauðsynleg enda liggur það fyrir að þau kjör sem eru í boði núna fyrir verkafólk duga ekki fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út. Því er verkafólk eins og áður sagði nauðbeygt til að beita verkfallsvopninu í fyrsta sinn í langan tíma. 

Það skiptir máli að það verði góð þátttaka í kosningunni með afgerandi niðurstöðu því með samstöðunni verður íslensku verkafólki allir vegir færir enda hefur verkafólk þjóðina með sér í heild sinni. Almenningi í þessu landi ofbýður þau launakjör sem íslensku verkafólki er boðið upp á, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi atvinnugreina græðir eins og enginn sé morgundagurinn án þess að vera tilbúnar til þess að rétta launafólki svo mikið sem lítinn hlut af þeim mikla hagnaði sem fyrirtækin eru að skila þessa dagana. Nægir að nefna þar sjávarútveginn fremstan í flokki, grein sem skilar 40-60 milljörðum ár hvert og arðgreiðslur flæða til eigenda upp á 6-12 milljarða, en að hækka laun fiskvinnslufólks um nokkra tugi þúsunda á ári kemur ekki til greina hjá þessum aðilum. 

Ferðaþjónustan er eins og hún er, þar eru kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi allsráðandi og það þrátt fyrir að í greininni ríki gullgrafaraævintýri um þessar mundir. Kjörin í þeirri grein eru hvað lökust á íslenskum vinnumarkaði í dag en þar er klárlega nægt svigrúm til að gera betur, vilji er allt sem þarf hvað það varðar.

Verkalýðsfélag Akraness býr sig undir grjóthart verkfall en sem betur fer stendur félagið gríðarlega vel fjárhagslega og er með góðan verkfallssjóð og það liggur fyrir að félagið mun geta haldið sínum félagsmönnum í verkfalli í rúman mánuð án þess að sjóðurinn myndi tæmast. Það er morgunljóst að félagið mun nýta verkfallssjóðinn í þessum átökum enda er sjóðurinn til þess og það mun hjálpa félagsmönnum að fara í þessi hörðu átök sem framundan eru.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image