• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Mar

Kynning á kjarasamningi Norðuráls hefur gengið vel

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður tímamótasamningur fyrir starfsmenn Norðuráls þriðjudaginn 17. mars síðastliðinn. Tímamótasamningur sem byggist á því að laun starfsmanna Norðuráls munu taka þeim hækkunum sem launavísitala Hagstofunnar kveður á um. 

Formaður hefur verið að kynna þennan nýja kjarasamning fyrir starfsmönnum af miklum móð í gær og í dag. Sem dæmi var formaður mættur á Grundartangasvæðið kl. 7 í gærmorgun og lauk síðustu kynningunni kl. 22 um kvöldið og var síðan mættur aftur kl. 7 í morgun til að kynna samninginn fyrir starfsmönnum. Það er upplifun formanns miðað við þá fundi sem búnir eru að almennt séu starfsmenn nokkuð sáttir þrátt fyrir að ekki hafi náðst að breyta vaktakerfinu yfir í 8 tíma kerfi eins og að var stefnt. Formaður mun ljúka við að kynna samninginn á mánudaginn en eftir helgi og fram til fimmtudagsins 26. mars verður hægt að kjósa um samninginn. Þann dag mun niðurstaða liggja fyrir um hvort samningurinn hefur verið samþykktur eða ekki. 

Kjarasamningurinn er eins og áður sagði tengdur við launavísitölu sem ekki hefur áður verið gert á íslenskum vinnumarkaði fyrir íslenskt verkafólk og iðnaðarmenn og því um algjör tímamót að ræða. Laun starfsmanna hækka frá 1. janúar auk þess sem þeir fá 300.000 kr. eingreiðslu og síðan kemur önnur launahækkun 1. júlí næstkomandi. Sú hækkun verður tengd hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Það er skemmst frá því að segja að nú þegar eru komnar tvær mælingar frá Hagstofunni fyrir þetta tímabil. Önnur þeirra er 0,7% hækkun launavísitölunnar og í dag birtist hækkun launavísitölunnar fyrir febrúarmánuð og reyndist hún 0,5%. Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að hér er um algjöran tímamótasamning að ræða enda hefur starfsmönnum Norðuráls verið tryggt með afgerandi hætti að þeir njóti alls þess launaskriðs sem mun verða á íslenskum vinnumarkaði.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image