• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Mar

Laun flugstjóra hækka um 214.000 kr. á mánuði

Nú er komið að íslensku verkafólki.Það er óhætt að segja að nú dragi til stórra tíðinda hjá íslensku verkafólki. Á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær höfnuðu Samtök atvinnulífsins algjörlega þeirri hugmyndafræði Starfsgreinasambands Íslands um að stigin verði jöfn og ákveðin skref í átt til þess að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að launataxtar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru frá 201.000 kr. upp í 238.000 kr. Það sér hvert einasta mannsbarn að á slíkum launum er ekki fræðilegur möguleiki að framfleyta sér eða sínum og halda þeim sjálfsögðu mannréttindum sem eru fólgin í að geta það. 

Starfsgreinasambandið leggur áherslu á að launataxtarnir hækki í kringum 35.000 til 40.000 kr. á ári sem er afar hófstillt og sanngjörn krafa, sérstaklega í ljósi þess að stór hluti félagsmanna SGS starfar meðal annars hjá fyrirtækjum tengdum útflutningi, til dæmis í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þar sem hagnaður er gríðarlegur um þessar mundir. Með öðrum orðum, það er nægt svigrúm til þess að leiðrétta kjör félagsmanna SGS. 

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sem margir hverjir eru með um eða yfir 3 milljónir á mánuði hafa engan skilning á kjörum lágtekjufólks enda birtist afstaða þeirra og hroki bersýnilega þegar fjallað er um kjör þessa fólks. Samtök atvinnulífsins segja að ef gengið verði að kröfum SGS muni hér verða allt að 27% verðbólga, gengið muni falla, verðtryggðar skuldir heimilanna muni stökkbreytast og heimurinn muni nánast hrynja. Já, svo slæmt verður það ef íslenskt verkafólk fær 35-40.000 kr. hækkun á sínum mánaðarlaunum á ári. 

Það skrautlega í þessu öllu saman er eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær að Samtök atvinnulífsins sömdu við flugstjóra hjá Icelandair Group, ekki upp á 35.000 kr. hækkun, nei, heldur munu laun flugstjóra í heildina hækka á þessu ári um sem nemur 214.000 kr. Laun þeirra munu aftur hækka 1. október 2016 og þá um 119.000 kr. Þannig að samtals munu laun þeirra hækka um ca 333.000 kr. á mánuði í þriggja ára samningi og flugstjóri í efsta þrepi verður þá kominn upp í 1,8 milljón á mánuði. Rétt er að vekja líka athygli á því að Samtök atvinnulífsins sömdu einnig við flugstjóra um mitt síðasta ár sem gaf þeim um eða yfir 100.000 kr. hækkun á mánuði. Á sama tíma og það var að gerast fékk almennt verkafólk 9.750 kr. 

Rétt er að ítreka það að formaður Samtaka atvinnulífsins er jafnframt forstjóri Icelandair Group sem semur við sitt starfsfólk um miklar launahækkanir til að forða sínu fyrirtæki frá verkfallsaðgerðum en kemur svo og segir við íslenskt verkafólk: Ætlið þið að rústa íslensku samfélagi með því að fara fram á 35.000 til 40.000 kr. launahækkun á mánuði. Hræsnin og tilllitsleysið hjá þessum ágætu mönnum er með ólíkindum. 

Nú mun reyna á íslenskt verkafólk í eitt skipti fyrir öll því við verðum að standa saman og brjóta á bak aftur þetta óréttlæti sem hefur fengið að viðgangast á íslenskum vinnumarkaði um alllanga hríð þar sem níðst hefur verið á íslensku verkafólki á meðan tilteknir hópar í íslensku samfélagi hafa rakað til sín stórum hluta af þjóðarkökunni. Það er svo grátbroslegt þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins umbreyta krónutöluhækkun Starfsgreinasambandsins yfir í prósentur og fá út að 90.000 kr. hækkun og takið eftir á 3 árum, sé um 44% launahækkun. Það er jú alveg rétt vegna þess að þegar krónutala er lögð ofan á lág grunnlaun verður prósentan há. En skoðum hvað þetta myndi þýða ef þessi prósentutala yrði lögð ofan á meðallaun forstjóra í íslenskum fyrirtækjum. Meðallaun þeirra eru 2,6 milljónir í dag og þetta myndi þýða að þeir myndu ekki fá 90.000 kr. launahækkun á 3 árum ef þeir fengju sömu prósentuhækkun heldur tæpar 1,2 milljónir í hækkun á mánuði. Og laun þeirra yrðu því komin upp í 3,7 milljónir á mánuði. 

Nei, forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins vilja ekki sjá neitt sem heitir krónutöluhækkanir, þeir vilja bara prósentur því það kemur þeim sjálfum og þeim sem eru í efri lögum samfélagsins gríðarlega vel eins og sést á þessu, verkamaðurinn fengi 90.000 kr. og nota bene að mati SA myndi slík hækkun leggja íslenskt samfélag í rúst! En forstjórar með meðallaun upp á 2,6 milljónir myndu fá 1,2 milljónir í hækkun. Og ruglið ríður ekki við einteyming, báðir áttu að hafa fengið sömu launahækkun og það þrátt fyrir að annar hafi fengið 90.000 kr. hækkun á mánuði í 3 ára samningi en hinn 1,2 milljónir. Jú, báðir fengu sömu prósentuhækkun. 

Prósentur blekkja, prósentur eru rugl og nú er komið að því að íslenskt verkafólk láti sverfa til stáls.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image