• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

14
Apr

Samþykkt 33% launahækkun hjá HB Granda!

Þau stórkostlegu tíðindi gerðust á aðalfundi HB Granda að stjórnarlaun voru hækkuð um 33,3%. Þessu fagnar Verkalýðsfélag Akraness innilega, einfaldlega vegna þess að þetta hlýtur að gilda líka fyrir allt fiskvinnslufólk sem starfar hjá fyrirtækinu, annað væri með hreinustu ólíkindum. 

Þetta er dálítið kaldhæðnislegt að horfa upp á hækkun stjórnarlauna upp á 33,3% á sama tíma og landverkafólk HB Granda á Akranesi er að kjósa um verkfall vegna þess að því stendur einungis til boða launahækkun í kringum 3,3% sem myndi gefa um 6.000-7.000 kr. hækkun á mánuði. Það merkilega í þessu er að einn stjórnarmaðurinn í HB Granda er aðalmaður í stjórn Samtaka atvinnulífsins en hún heitir Rannveig Rist. Eins og allir vita þá mótar aðalstjórn SA kjarastefnu Samtaka atvinnulífsins þannig að Rannveig tók þátt í því að semja kjarastefnu þar sem almennu launafólki er boðið fyrir hönd SA upp á 3,3% en þiggur síðan sjálf hækkun á stjórnarlaunum upp á 33%. Semsagt, komman er tekin í burtu, þristinum ýtt nær öðrum þristi og út koma 33%. 

Það er alveg morgunljóst að starfsmenn HB Granda eru æfir af reiði. Á sama tíma og það stefnir í ein hörðustu verkfallsátök á íslenskum vinnumarkaði hjá verkafólki þá dúndrar stjórn HB Granda blautri tusku framan í starfsmenn með 33% launahækkun til handa stjórnarmönnum og þetta er að gerast þegar fiskvinnslufólkinu er einungis boðið að fá 3,3% í launahækkun.

Samtök atvinnulífsins hafa sagt að þau séu ekki hrifin af krónutöluhækkunum, þau vilji prósentuhækkanir. Gott og vel, ef að fiskvinnslufólki í HB Granda stendur til boða 33% launahækkun við undirskrift, þá er Verkalýðsfélag Akraness til í það, bara koma með samningsdrögin og það verður skrifað undir einn, tveir og þrír. Enda myndi slík prósentuhækkun skila fiskvinnslufólki HB Granda um 80.000 kr. launahækkun á mánuði. Ef að þetta er nálgun sem Samtök atvinnulífsins vilja klára samningana á, ekki krónutöluhækkun heldur sama prósentuhækkun og stjórnarmenn HB Granda fengu síðastliðinn föstudaginn, þá ítrekar VLFA að það yrði samþykkt. 

Það er alveg hvellskýrt og meira að segja morgunljóst að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness munu ekki undir nokkrum kringumstæðum láta svona miskunnarlaust óréttlæti yfir sig ganga. Formaður spyr hluthafa í HB Granda, er ekkert siðferði, er engin réttlætiskennd? Samþykktu menn möglunarlaust 33% launahækkun til handa stjórnarmönnum á sama tíma og fiskvinnslufólk lepur dauðann úr skel? Hví í ósköpunum steig enginn fram á hluthafafundinum íslensku fiskvinnslufólki til varnar? HB Grandi er glæsilegt fyrirtæki sem við Akurnesingar erum stoltir af, hefur vaxið og dafnað og gert frábæra hluti, skilar meðal annars methagnaði ár eftir ár, rúmum 5 milljörðum. Arðgreiðslur upp á 2,7 milljarða. En þegar kemur að fólkinu sem skapar arðinn, þá stendur lítið eftir annað en einn lítill pinnaís. 

Það er full ástæða til að Samtök atvinnulífsins svari því núna: Ógnar 33% launahækkun stjórnarmanna HB Granda ekki stöðugleikanum? Gildir það bara ef íslenskt lágtekjufólk fer fram á leiðréttingu á sínum launum? Samtök atvinnulífsins segja ætíð að það sé ekki hægt að hækka lægstu launin sérstaklega þar sem það hríslist upp allan stigann. Gott og vel, því nú er komið að því að ofurlaun íslenskra forstjóra og stjórnarmanna hríslist niður stigann þannig að þau lendi í vasa íslensks lágtekjufólks. 

Skýr skilaboð til Samtaka atvinnulífsins: Íslenskt verkafólk er tilbúið að fylgja eftir réttlætinu af fullum þunga og mun berjast fyrir því með kjafti og klóm að lágmarkslaun á Íslandi verði 300.000 kr. innan þriggja ára. Þetta ofbeldi sem íslenskt lágtekjufólk hefur þurft að þola í gegnum tíðina, því skal linna í eitt skipti fyrir öll því fyrirtæki sem greiða arðgreiðslur upp á 2,7 milljarða og hækka stjórnarlaun um 33% en dissa sitt eigið fólk með þessum hætti á ekki skilið annað en hörð átök. Átök sem munu að lokum leiða  til þess að íslenskt verkafólk geti haldið mannlegri reisn.    

13
Apr

Verkfallið mun ná til 116 fyrirtækja á Akranesi

Klukkan 8 í morgun hófst kosningin um verkfall verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði. Formaður ítrekar mikilvægi þess að félagsmenn taki þátt í kosningunni og segi já við verkfalli til að knýja fram þá sanngjörnu kröfu um að lágmarkslaun á Íslandi verði orðin 300.000 kr. eigi síðar en innan 3 ára. 

Kjörgögnin munu berast til félagsmanna í dag og á morgun og nú verða félagsmenn að standa saman allir sem einn því með samstöðu mun okkur takast að ná fram þeirri kröfu að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út.  

Verkfallið mun hafa mjög víðtæk áhrif hér á Akranesi enda mun það ná til 116 fyrirtækja. Fjölmennustu hóparnir eru eðli málsins samkvæmt tengdir sjávarútvegsfyrirtækjum eins og HB Granda en því til viðbótar mun þetta hafa víðtæk áhrif á starfsemi GMR á Grundartanga, á flutningafyrirtæki, rútufyrirtæki, verktakafyrirtæki, lifrarbræðsluna, hrognavinnslu, ræstingar, bensínstöðvarnar og meira að segja mun þetta verkfall ná til starfsmanna Spalar sem vinna í gjaldskýlinu í Hvalfjarðargöngum. Með öðrum orðum, verkfallið mun hafa mjög víðtæk áhrif jafnt á sjávarútvegsfyrirtæki og ferðaþjónustu sem og önnur fyrirtæki.

10
Apr

Kosning um verkfall hefst eftir helgi

Nú hafa starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness lokið við að senda út kjörgögn vegna komandi kosningar um verkfall. Ættu kjörgögnin að vera búin að berast félagsmönnum strax eftir helgi en opnað verður fyrir kosninguna 13. apríl. Eins og áður hefur komið fram er íslenskt verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði nú nauðbeygt til að beita verkfallsvopninu í fyrsta sinn í áratugi. 

Ástæðan er einföld, Samtök atvinnulífsins bjóða íslensku verkafólki launahækkun sem nemur 3 - 3,5% sem myndi þýða í kringum 7.000-8.000 kr. launahækkun á mánuði sem er algjörlega fjarri því að duga til að lagfæra kjör verkafólks með þeim hætti að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu. Þetta tilboð er svo sorglegt, sérstaklega í ljósi þess að fjölmargar atvinnugreinar sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness starfa hjá græða og skila hagnaði eins og enginn sé morgundagurinn. Í dag er til að mynda HB Grandi með aðalfund þar sem á að leggja til að greidd verði arðgreiðsla til eigenda sem nemur 2,7 milljörðum en fyrirtækið skilaði sem betur fer glæsilegri afkomu á síðasta ári sem nam 5,7 milljörðum í hagnað. 

Maður hefði haldið að í ljósi svona góðrar afkomu þá væri til dæmis HB Grandi tilbúinn til að skila góðri afkomu til landverkafólksins með afgerandi hætti en slíku er alls ekki til að dreifa. Þeir eru innan Samtaka atvinnulífsins og bjóða 7.000 - 8.000 kr. hækkun á mánuði. Og hvað myndi það þýða til dæmis fyrir fyrirtæki eins og HB Granda í kostnað? Jú, þetta tilboð sem fiskvinnslufólki í HB Granda og öðrum stendur til boða myndi kosta fyrirtækið í kringum 3,7 milljónir á mánuði en um 500 landverkamenn vinna hjá HB Granda. Já, hugsið ykkur, tilboðið sem SA leggur fram fyrir hönd HB Granda myndi vera með kostnaðarauka upp á 3,7 milljónir handa 500 manns sem er eilítið meira heldur en heildarlaun forstjórans á mánuði. 

Er það boðlegt að fyrirtæki sem er að greiða sér arðgreiðslur upp á 2,7 milljarða skuli leggja til að launakostnaður fiskvinnslufólksins hækki einungis um 3,7 milljónir á mánuði? Hvernig hafa eigendur slíks fyrirtækis samvisku til að taka þátt í slíkri smámunasemi og hví í ósköpunum eru fyrirtæki sem eru að skila svona ofurafkomu ekki tilbúin til að deila ávinningnum með þeim sem skapa hagnaðinn sem er jú starfsfólkið. Það er morgunljóst að það verður hvergi gefið eftir í þessari kjarabaráttu en ef til dæmis HB Grandi myndi ganga að kröfum VLFA að fullu þá myndi það kosta fyrirtækið 400 milljónir. Það eru smáaurar miðað við afkomutölur fyrirtækisins og eigendum fyrirtækisins ber siðferðisleg skylda til að skila góðri afkomu með betri og afgerandi hætti til starfsmanna heldur en hingað til hefur verið gert. 

Formaður skorar á félagsmenn sem munu fá kjörgögn eftir helgi að kjósa og segja JÁ við verkfalli. Félagið á góðan verkfallssjóð og munu starfsmenn fá 10.000 krónur fyrir hvern dag í verkfallsstyrk sem verkfallið stendur yfir. Félagið mun geta haldið sínum félagsmönnum í verkfalli í rúman mánuð miðað við þann sjóð sem félagið á og það mun félagið gera ef þurfa þykir. Félagsmenn munu öðlast rétt úr verkfallssjóði strax eftir fyrsta verkfallsdag, verkfallssjóðir eru til þess að styðja við félagsmenn í verkfallsátökum og því engin ástæða til að láta einhvern tíma líða þar til starfsmenn byrja að öðlast rétt úr verkfallssjóðnum. Formaður ítrekar enn og aftur: Kjósum, sýnum samstöðu, því oft er þörf en nú er nauðsyn. Skiptum þjóðarkökunni með sanngjörnum hætti! 

09
Apr

Verkfallssjóðurinn dugir í rúman mánuð

Núna er Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum aðildarfélögum innan Starfsgreinasambands Íslands að undirbúa nýja kosningu til verkfalls. Kjörgögn verða send út fyrir helgi og ættu að vera búin að berast félagsmönnum í byrjun næstu viku en kosningin mun standa yfir frá 13. apríl til 20. apríl. 

Það er gríðarlega mikilvægt að þeir sem hafa kosningarétt, sem er verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði, nýti sér kosningaréttinn og segi já við verkfalli því afstaða Samtaka atvinnulífsins til sanngjarnrar og réttlátrar kröfu verkafólks hefur verið algjört tómlæti og því ekkert annað í stöðunni en að mæta atvinnurekendum af fullri hörku með hörðum verkfallsaðgerðum. Krafa upp á 300.000 kr. lágmarkslaun innan þriggja ára er ekki bara réttlát, hún er sanngjörn og bráðnauðsynleg enda liggur það fyrir að þau kjör sem eru í boði núna fyrir verkafólk duga ekki fyrir lágmarksframfærslu sem hið opinbera hefur gefið út. Því er verkafólk eins og áður sagði nauðbeygt til að beita verkfallsvopninu í fyrsta sinn í langan tíma. 

Það skiptir máli að það verði góð þátttaka í kosningunni með afgerandi niðurstöðu því með samstöðunni verður íslensku verkafólki allir vegir færir enda hefur verkafólk þjóðina með sér í heild sinni. Almenningi í þessu landi ofbýður þau launakjör sem íslensku verkafólki er boðið upp á, sérstaklega í ljósi þess að fjöldi atvinnugreina græðir eins og enginn sé morgundagurinn án þess að vera tilbúnar til þess að rétta launafólki svo mikið sem lítinn hlut af þeim mikla hagnaði sem fyrirtækin eru að skila þessa dagana. Nægir að nefna þar sjávarútveginn fremstan í flokki, grein sem skilar 40-60 milljörðum ár hvert og arðgreiðslur flæða til eigenda upp á 6-12 milljarða, en að hækka laun fiskvinnslufólks um nokkra tugi þúsunda á ári kemur ekki til greina hjá þessum aðilum. 

Ferðaþjónustan er eins og hún er, þar eru kjarasamningsbrot og svört atvinnustarfsemi allsráðandi og það þrátt fyrir að í greininni ríki gullgrafaraævintýri um þessar mundir. Kjörin í þeirri grein eru hvað lökust á íslenskum vinnumarkaði í dag en þar er klárlega nægt svigrúm til að gera betur, vilji er allt sem þarf hvað það varðar.

Verkalýðsfélag Akraness býr sig undir grjóthart verkfall en sem betur fer stendur félagið gríðarlega vel fjárhagslega og er með góðan verkfallssjóð og það liggur fyrir að félagið mun geta haldið sínum félagsmönnum í verkfalli í rúman mánuð án þess að sjóðurinn myndi tæmast. Það er morgunljóst að félagið mun nýta verkfallssjóðinn í þessum átökum enda er sjóðurinn til þess og það mun hjálpa félagsmönnum að fara í þessi hörðu átök sem framundan eru.

08
Apr

Sumarið 2015

Nú streyma inn umsóknir um orlofshús fyrir sumarið 2015, en hægt er að sækja um á heimsendum eyðublöðum eða á Félagavefnum til mánudagsins 13. apríl.

Auk orlofshúsa sem félagið á í Húsafelli, Svínadal, Kjós, Ölfusborgum, Hraunborgum og á Akureyri verður boðið upp á dvöl í húsi í Vestmannaeyjum eins og í fyrra. Því til viðbótar mun VLFA í sumar hafa húsaskipti við Framsýn stéttarfélag og geta félagsmenn VLFA dvalið í orlofshúsi á Illugastöðum í Fnjóskadal, og í staðinn geta félagsmenn Framsýnar dvalið í Bláskógum í Svínadal.

Nánari upplýsingar er að finna hér.

01
Apr

Tími verkfallsátaka er runninn upp

Undirbúningur vegna komandi verkfalla stendur nú yfir af fullum þunga innan landsbyggðarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Eins og fram hefur komið í fréttum þurfti SGS að draga kosningu sem hafin var um verkfall til baka en það var vegna þess að Samtök atvinnulífsins höfðu lýst því yfir að þau ætluðu að fara með kosninguna fyrir félagsdóm og fella hana á tæknilegum atriðum. Með öðrum orðum, Samtök atvinnulífsins eru ekki tilbúin til að mæta íslensku verkafólki í verkfallsátökum heldur munu þau reyna að koma í veg fyrir verkföll með því að draga kosningar í efa og færa þær inn á borð félagsdóms. 

Á eftir mun samninganefnd aðildarfélaga SGS á landsbyggðinni koma saman til að stilla saman strengi sína vegna komandi átaka en það er í fyrsta sinn sem samninganefndin kemur saman eftir að kosningu var frestað. Eins og áður sagði er undirbúningurinn kominn á fulla ferð og verður núna tryggt að Samtök atvinnulífsins hafi ekki ástæðu til að draga lögmæti komandi kosninganna í efa. 

Þetta framferði Samtaka atvinnulífsins hefur gert það að verkum að það bullsýður á íslensku verkafólki. Það bullsýður á því vegna þess að SA er ekki tilbúið til að mæta sanngjörnum kröfum verkafólks, sanngjörnum kröfum sem byggjast á því að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu en krafan byggist meðal annars á því að lægstu launataxtar verði komnir upp í 300.000 kr. innan þriggja ára. Ef eitthvað er þá er þetta krafa sem er of hófstillt enda hafa slíkar raddir heyrst á opinberum vettvangi að undanförnu þar sem mönnum finnst krafa upp á 300.000 kr. innan þriggja ára vera of væg. Á þeirri forsendu er morgunljóst að svigrúm til afsláttar á þeirri launakröfu sem nú er uppi á borðinu er ekki til staðar. Enda er krafa upp á 300.000 kr. afar hógvær, sanngjörn og réttlát og er ekki á nokkurn hátt hægt að segja að slík launakrafa eigi að valda atvinnurekendum vandræðum. Það liggur fyrir að fjölmargar greinar mala gull um þessar mundir og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um sjávarútvegsfyrirtækin sem eru að skila milljarða tuga hagnaði ár eftir ár en launakostnaður í landvinnslu hefur um alllanga hríð verið sjávarútvegsfyrirtækjum til ævarandi skammar. 

Það er morgunljóst að í komandi kjarasamningum verður látið sverfa til stáls af fullum þunga, hvergi verður neitt gefið eftir og verkfallssjóðir stéttarfélaganna verða nýttir að fullu til þess að knýja fram réttláta og sanngjarna kröfu verkafólks, kröfu sem byggist á því að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu og að verkafólk geti haldið mannlegri reisn eins og aðrir sem í þessu samfélagi búa. Tími verkfallsátaka er runninn upp.

27
Mar

VLFA innheimtir 2,4 milljónir fyrir félagsmenn

Mál tengd varðveislu hinna ýmsu réttinda félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness koma oft inn á borð félagsins. Til að sýna fram á hversu mikilvægt það getur verið fyrir starfsmenn að vera aðilar að stéttarfélagi nægir að nefna að Verkalýðsfélag Akraness hefur innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota uppundir 300 milljónir frá árinu 2004. Eru þetta allt mál þar sem félagsmenn hafa nauðbeygðir þurft að leita til félagsins við að ná lausn á þeim ágreiningsefnum sínum við vinnuveitendur. 

Þessi réttindabarátta er viðvarandi og sem dæmi þá náði Verkalýðsfélag Akraness sátt í máli við Akraneskaupstað sem skilaði félagsmanni 705.000 kr. í dag og í liðinni viku kláruðust þrjú önnur mál þar sem félagið náði að innheimta 1,3 milljón vegna vangreiddra launa vegna gjaldþrots tveggja fyrirtækja og einnig náðist dómssátt í öðru innheimtumáli þar sem félagsmaður mun fá 376.000 kr. vegna vangreiddra launa. Þannig að bara í síðustu viku tókst VLFA að verja réttindi sinna félagsmanna um sem nam 2,4 milljónum. Það skiptir máli að leita til stéttarfélagsins ef fólk telur að verið sé að brjóta á sér enda eiga stéttarfélögin að standa þétt að baki sínum félagsmönnum við varðveislu á réttindum þeirra.

27
Mar

Samtök atvinnulífsins þora ekki að mæta íslensku verkafólki

Það verður að segjast alveg eins og er að það er hálf lítilmannlegt af Samtökum atvinnulífsins að hafa ekki kjark og þor til að mæta íslensku verkafólki í þeirri kjarabaráttu sem nú er framundan. Þetta kjarkleysi Samtaka atvinnulífsins birtist meðal annars í því að þau hafa tilkynnt að þau muni draga kosningu Starfsgreinasambandsins fyrir félagsdóm og láta reyna á lögmæti hennar. 

Það er hinsvegar lenska hjá Samtökum atvinnulífsins að þegar kemur að kosningu um verkfall er nánast öllu er viðkemur verkfallsboðunum vísað til félagsdóms. Með öðrum orðum þeir þora ekki að mæta íslensku verkafólki í verkfallsátökum.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands  kom saman til fundar í gær til að meta þá stöðu sem upp var komin í ljósi þess að verkfall Rafiðnaðarsambands Íslands vegna tæknimanna hjá RÚV var dæmt ólöglegt. Með trega, reiði og sorg í hjarta ákvað samninganefnd SGS að hefja frekar nýja kosningu um nýtt verkfall sem hugsanlega mun tefja málið örlítið.

Það er lítilmannlegt eins og áður hefur komið fram að Samtök atvinnulífsins séu ekki tilbúin til að taka slaginn við íslenskt verkafólk heldur leiti allra tæknilegra leiða til að komast hjá verkfallsátökum. 

Þetta hefur gert það að verkum að það bullsýður á íslensku verkafólki yfir þessu framferði Samtaka atvinnulífsins því eina leiðin hjá Samtökum atvinnulífsins til að forðast verkfallsátök er að setjast niður og semja við verkafólk um þannig launakjör að sómi sé að og launin dugi fyrir lágmarksframfærslu. 

Eins og áður sagði hefur þessi framkoma Samtaka atvinnulífsins hleypt illu blóði í íslenskt verkafólk en nú munu landsbyggðafélögin innan Starfsgreinasambandsins þjappa sér enn frekar saman og hvetja íslenskt verkafólk til að standa þétt saman og taka þátt í nýrri kosningu um verkfall en það er mat Verkalýðsfélags Akraness að nú þurfi að herða aðgerðaplanið er lýtur að verkafallinu til mikilla muna vegna þessa framferðis fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. 

Á sama tíma og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa ekki kjark og þor til að standa andspænis verkföllum verkafólks og gagnrýna sanngjarnar launakröfur þeirra um að lágmarkstaxtar verði komnir uppí 300.000 krónur innan þriggja ára þá dynja yfir okkur umfangsmiklar launahækkanir stjórnarmanna í hinum ýmsu fyrirtækjum.

Þetta eru stjórnarlaun í fyrirtækjum sem tilheyra Samtökum atvinnulífsins, það er greinilegt að þar gilda önnur lögmál þar sem græðgisvæðingin er allsráðandi. Nýjasta hækkun stjórnarlauna er í bankakerfinu upp á tugi þúsunda króna á mánuði svo ekki sé talað um hækkanirnar hjá stjórnarmönnum VÍS upp á 75%. En svo þegar kemur að íslensku verkafólki er talað um að grunnlaun sem eiga að vera orðin 300.000 kr. innan þriggja ára muni ógna íslenskum stöðugleika. Við þessum málflutningi Samtaka atvinnulífsins er ekki nema eitt að segja eða það sama og fiskvinnslukonurnar í HB Granda segja í baráttulagi sem þær gáfu út: Sveiattan!

26
Mar

Nýr kjarasamningur við Norðurál samþykktur með 70% greiddum atkvæðum

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu starfsmanna Norðuráls um nýjan kjarasamning. Á kjörskrá voru 570 starfsmenn, og greiddu 444 þeirra atkvæði eða 77,9%.

- Já sögðu 311 eða 70%
- Nei sögðu 130 eða 29,3%
- Auð og ógild atkvæði voru 3

Það er því ljóst að sá kjarasamningur sem undirritaður var þann 17. mars síðastliðinn er samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. 

Þessi afgerandi kosning kemur formanni félagsins ekki á óvart, í ljósi þess að hér er um tímamótasamning að ræða enda aldrei verið gert áður að tengja launahækkanir verkafólks og iðnaðarmanna við hækkun launavísitölunnar.

23
Mar

Atkvæðagreiðsla um verkfall hafin!

Á slaginu 08:00 í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Rúmlega 10.000 manns eru á kjörskrá og fá þeir í dag eða á næstu dögum send kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og hafa samband við skrifstofu SGS eða sitt stéttarfélag ef einhverjar spurningar vakna. Þá er rétt að benda á vefsvæði SGS sem inniheldur mikið magn gagnlegra upplýsinga um verkfallsaðgerðirnar.

Eins og áður sagði þá er um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni, sem fer fram hér. Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið.

Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send kjörgögn þá getur viðkomandi kært sig inn á kjörskrá. Sá hinn sami þarf þá að hafa samband við stéttarfélagið sitt. Í framhaldinu er málið sent til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.

Að síðustu vill Starfsgreinasamband Ísland eindregið hvetja kosningabæra félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og greiða atkvæði um verkfallsboðunina. 

Nú er reynir á að íslenskt verkafólk standi saman sem eitt, berjist fyrir réttlátum kröfum og sendi Samtökum atvinnulífsins skýr skilaboð!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image