• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

27
Mar

VLFA innheimtir 2,4 milljónir fyrir félagsmenn

Mál tengd varðveislu hinna ýmsu réttinda félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness koma oft inn á borð félagsins. Til að sýna fram á hversu mikilvægt það getur verið fyrir starfsmenn að vera aðilar að stéttarfélagi nægir að nefna að Verkalýðsfélag Akraness hefur innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota uppundir 300 milljónir frá árinu 2004. Eru þetta allt mál þar sem félagsmenn hafa nauðbeygðir þurft að leita til félagsins við að ná lausn á þeim ágreiningsefnum sínum við vinnuveitendur. 

Þessi réttindabarátta er viðvarandi og sem dæmi þá náði Verkalýðsfélag Akraness sátt í máli við Akraneskaupstað sem skilaði félagsmanni 705.000 kr. í dag og í liðinni viku kláruðust þrjú önnur mál þar sem félagið náði að innheimta 1,3 milljón vegna vangreiddra launa vegna gjaldþrots tveggja fyrirtækja og einnig náðist dómssátt í öðru innheimtumáli þar sem félagsmaður mun fá 376.000 kr. vegna vangreiddra launa. Þannig að bara í síðustu viku tókst VLFA að verja réttindi sinna félagsmanna um sem nam 2,4 milljónum. Það skiptir máli að leita til stéttarfélagsins ef fólk telur að verið sé að brjóta á sér enda eiga stéttarfélögin að standa þétt að baki sínum félagsmönnum við varðveislu á réttindum þeirra.

27
Mar

Samtök atvinnulífsins þora ekki að mæta íslensku verkafólki

Það verður að segjast alveg eins og er að það er hálf lítilmannlegt af Samtökum atvinnulífsins að hafa ekki kjark og þor til að mæta íslensku verkafólki í þeirri kjarabaráttu sem nú er framundan. Þetta kjarkleysi Samtaka atvinnulífsins birtist meðal annars í því að þau hafa tilkynnt að þau muni draga kosningu Starfsgreinasambandsins fyrir félagsdóm og láta reyna á lögmæti hennar. 

Það er hinsvegar lenska hjá Samtökum atvinnulífsins að þegar kemur að kosningu um verkfall er nánast öllu er viðkemur verkfallsboðunum vísað til félagsdóms. Með öðrum orðum þeir þora ekki að mæta íslensku verkafólki í verkfallsátökum.

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands  kom saman til fundar í gær til að meta þá stöðu sem upp var komin í ljósi þess að verkfall Rafiðnaðarsambands Íslands vegna tæknimanna hjá RÚV var dæmt ólöglegt. Með trega, reiði og sorg í hjarta ákvað samninganefnd SGS að hefja frekar nýja kosningu um nýtt verkfall sem hugsanlega mun tefja málið örlítið.

Það er lítilmannlegt eins og áður hefur komið fram að Samtök atvinnulífsins séu ekki tilbúin til að taka slaginn við íslenskt verkafólk heldur leiti allra tæknilegra leiða til að komast hjá verkfallsátökum. 

Þetta hefur gert það að verkum að það bullsýður á íslensku verkafólki yfir þessu framferði Samtaka atvinnulífsins því eina leiðin hjá Samtökum atvinnulífsins til að forðast verkfallsátök er að setjast niður og semja við verkafólk um þannig launakjör að sómi sé að og launin dugi fyrir lágmarksframfærslu. 

Eins og áður sagði hefur þessi framkoma Samtaka atvinnulífsins hleypt illu blóði í íslenskt verkafólk en nú munu landsbyggðafélögin innan Starfsgreinasambandsins þjappa sér enn frekar saman og hvetja íslenskt verkafólk til að standa þétt saman og taka þátt í nýrri kosningu um verkfall en það er mat Verkalýðsfélags Akraness að nú þurfi að herða aðgerðaplanið er lýtur að verkafallinu til mikilla muna vegna þessa framferðis fulltrúa Samtaka atvinnulífsins. 

Á sama tíma og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins hafa ekki kjark og þor til að standa andspænis verkföllum verkafólks og gagnrýna sanngjarnar launakröfur þeirra um að lágmarkstaxtar verði komnir uppí 300.000 krónur innan þriggja ára þá dynja yfir okkur umfangsmiklar launahækkanir stjórnarmanna í hinum ýmsu fyrirtækjum.

Þetta eru stjórnarlaun í fyrirtækjum sem tilheyra Samtökum atvinnulífsins, það er greinilegt að þar gilda önnur lögmál þar sem græðgisvæðingin er allsráðandi. Nýjasta hækkun stjórnarlauna er í bankakerfinu upp á tugi þúsunda króna á mánuði svo ekki sé talað um hækkanirnar hjá stjórnarmönnum VÍS upp á 75%. En svo þegar kemur að íslensku verkafólki er talað um að grunnlaun sem eiga að vera orðin 300.000 kr. innan þriggja ára muni ógna íslenskum stöðugleika. Við þessum málflutningi Samtaka atvinnulífsins er ekki nema eitt að segja eða það sama og fiskvinnslukonurnar í HB Granda segja í baráttulagi sem þær gáfu út: Sveiattan!

26
Mar

Nýr kjarasamningur við Norðurál samþykktur með 70% greiddum atkvæðum

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu starfsmanna Norðuráls um nýjan kjarasamning. Á kjörskrá voru 570 starfsmenn, og greiddu 444 þeirra atkvæði eða 77,9%.

- Já sögðu 311 eða 70%
- Nei sögðu 130 eða 29,3%
- Auð og ógild atkvæði voru 3

Það er því ljóst að sá kjarasamningur sem undirritaður var þann 17. mars síðastliðinn er samþykktur með miklum meirihluta atkvæða. 

Þessi afgerandi kosning kemur formanni félagsins ekki á óvart, í ljósi þess að hér er um tímamótasamning að ræða enda aldrei verið gert áður að tengja launahækkanir verkafólks og iðnaðarmanna við hækkun launavísitölunnar.

23
Mar

Atkvæðagreiðsla um verkfall hafin!

Á slaginu 08:00 í morgun hófst rafræn atkvæðagreiðsla 16 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins um heimild til verkfallsboðunar vegna félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins. Rúmlega 10.000 manns eru á kjörskrá og fá þeir í dag eða á næstu dögum send kjörgögn vegna atkvæðagreiðslunnar. Fólk er hvatt til að skoða gögnin vel og vandlega og hafa samband við skrifstofu SGS eða sitt stéttarfélag ef einhverjar spurningar vakna. Þá er rétt að benda á vefsvæði SGS sem inniheldur mikið magn gagnlegra upplýsinga um verkfallsaðgerðirnar.

Eins og áður sagði þá er um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða. Lykilorðið sem fylgir með kjörgögnum veitir aðgang að kosningunni, sem fer fram hér. Hver og einn ber ábyrgð á sínu atkvæði. Atkvæðin eru ekki persónurekjanleg þannig að það er ekki hægt að óska eftir nýju lykilorði, ef það kynni að glatast. Þar af leiðandi er mikilvægt að passa vel upp á lykilorðið.

Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki send kjörgögn þá getur viðkomandi kært sig inn á kjörskrá. Sá hinn sami þarf þá að hafa samband við stéttarfélagið sitt. Í framhaldinu er málið sent til kjörstjórnar sem mun taka afstöðu til þess.

Að síðustu vill Starfsgreinasamband Ísland eindregið hvetja kosningabæra félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og greiða atkvæði um verkfallsboðunina. 

Nú er reynir á að íslenskt verkafólk standi saman sem eitt, berjist fyrir réttlátum kröfum og sendi Samtökum atvinnulífsins skýr skilaboð!

20
Mar

Kynning á kjarasamningi Norðuráls hefur gengið vel

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var undirritaður tímamótasamningur fyrir starfsmenn Norðuráls þriðjudaginn 17. mars síðastliðinn. Tímamótasamningur sem byggist á því að laun starfsmanna Norðuráls munu taka þeim hækkunum sem launavísitala Hagstofunnar kveður á um. 

Formaður hefur verið að kynna þennan nýja kjarasamning fyrir starfsmönnum af miklum móð í gær og í dag. Sem dæmi var formaður mættur á Grundartangasvæðið kl. 7 í gærmorgun og lauk síðustu kynningunni kl. 22 um kvöldið og var síðan mættur aftur kl. 7 í morgun til að kynna samninginn fyrir starfsmönnum. Það er upplifun formanns miðað við þá fundi sem búnir eru að almennt séu starfsmenn nokkuð sáttir þrátt fyrir að ekki hafi náðst að breyta vaktakerfinu yfir í 8 tíma kerfi eins og að var stefnt. Formaður mun ljúka við að kynna samninginn á mánudaginn en eftir helgi og fram til fimmtudagsins 26. mars verður hægt að kjósa um samninginn. Þann dag mun niðurstaða liggja fyrir um hvort samningurinn hefur verið samþykktur eða ekki. 

Kjarasamningurinn er eins og áður sagði tengdur við launavísitölu sem ekki hefur áður verið gert á íslenskum vinnumarkaði fyrir íslenskt verkafólk og iðnaðarmenn og því um algjör tímamót að ræða. Laun starfsmanna hækka frá 1. janúar auk þess sem þeir fá 300.000 kr. eingreiðslu og síðan kemur önnur launahækkun 1. júlí næstkomandi. Sú hækkun verður tengd hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Það er skemmst frá því að segja að nú þegar eru komnar tvær mælingar frá Hagstofunni fyrir þetta tímabil. Önnur þeirra er 0,7% hækkun launavísitölunnar og í dag birtist hækkun launavísitölunnar fyrir febrúarmánuð og reyndist hún 0,5%. Það þarf ekki að fara í grafgötur með það að hér er um algjöran tímamótasamning að ræða enda hefur starfsmönnum Norðuráls verið tryggt með afgerandi hætti að þeir njóti alls þess launaskriðs sem mun verða á íslenskum vinnumarkaði.  

18
Mar

Kjarasamningur undirritaður við Norðurál

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum þeim félögum sem aðild eiga að kjarasamningi við Norðurál, undir 5 ára kjarasamning við Norðurál. Það er ástæða til að tala um tímamótasamning, enda hefur það formanni vitanlega ekki verið gert áður að tengja launahækkanir verkafólks og iðnaðarmanna við launavísitölu.

Samningurinn gildir frá 1. janúar 2015 og frá þeim tíma tekur gildi umsamin upphafshækkun, auk 300.000 króna eingreiðslu til starfsmanna. Næsta launahækkun mun koma til framkvæmda 1. júlí á þessu ári, en sú hækkun mun taka mið af hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Síðan mun koma önnur launahækkun 1. janúar 2016, sem tekur mið af hækkun launavísitölunnar frá júní 2015 til desember 2015. Eftir það munu koma 1. janúar ár hvert launahækkun sem tekur mið af 12 mánaða hækkun vísitölunnar, en samningurinn rennur út í lok árs 2019.

Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr rúmlega 311.000 kr. á ári upp í kr. 340.000, sem er tæplega 30.000 kr. hækkun, en orlofs- og desemberuppbætur munu síðan taka sömu hækkunum og önnur laun, eða í samræmi við hækkun launavísitölunnar.

Eftir kjarasamning mun til dæmis verkamaður á byrjunarlaunum á vöktum í Norðuráli vera kominn upp í 492.000 kr. með öllu og eftir fimm ára starf er viðkomandi starfsmaður kominn upp tæplega 580.000 krónur. Starfsmaður með 10 ára starfsreynsla er þá kominn upp í rúmlega 591.000 krónur.

Kynningarfundir um kjarasamninginn verða auglýstir von bráðar, en þar mun formaður fara ítarlega yfir innihald samningsins og hvað hann þýðir í krónum og aurum og önnur atriði er lúta að hagsmunum starfsmanna. Kosning um samninginn mun fara fram að afloknum kynningarfundum, og hjá aðaltrúnaðarmanni allt til 26. mars, en kosningu á að vera lokið kl. 16 þann sama dag.

18
Mar

Hörkugóð ádeila frá fiskvinnslufólki HB Granda á Akranesi - Nýtt myndband

Það er óhætt að segja að starfsfólk í frystihúsi HB Granda á Akranesi hafi lagt hönd á plóg við að efla baráttuandann fyrir komandi átök, en þau gáfu út myndband við þekkt lag og ber lagið titilinn "Sveiattan". Textasmíði og söngur er í höndum fiskvinnslukonunnar Jónínu B. Magnúsdóttur, sem er félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness. Þetta er hörkugóð ádeila á þá bláköldu staðreynd að kjör fiskvinnslufólks eru eigendum sjávarútvegsfyrirtækja til ævarandi skammar í ljósi þeirra bláköldu staðreynda að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum nemur 40-60 milljörðum ár hvert og arðgreiðslur streyma til eigenda eins og enginn sé morgundagurinn. 

Að halda því fram að ekki sé hægt að lagfæra laun fiskvinnslufólks svo einhverju nemi er rakalaus þvæla eins og fram kemur í þessu myndbandi frá frystihússkonunum á Akranesi. Hægt er að sjá myndbandið hér fyrir neðan, sjón er sögu ríkari.

 

13
Mar

Bjarnfríður Leósdóttir látin

Bjarnfríður Leósdóttir, baráttukona og heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness, lést þann 10. mars síðastliðinn, níræð að aldri. 

Bjarnfríður var fædd árið 1924, sama ár og Verkalýðsfélag Akraness var stofnað og má segja að hún hafi á margan hátt tengst sögu félagsins í gegnum áratugina og verið stór hluti af starfsemi þess enda var hún sjálf mikill verkalýðsfrömuður. Hún tók fyrst þátt í verkalýðsbaráttu tengdri félaginu árið 1959 en þá vann hún ásamt öðrum konum við síldarsöltun. Í afmælisblaði félagsins árið 2004 rifjaði hún þessa atburði upp og sagði meðal annars: „Við konurnar fórum að spjalla saman um kaup okkar og kjör sem við vorum engan veginn sáttar við – og okkur hitnaði svo í hamsi að ákveðið var að hefja ekki vinnu nema með því skilyrði að við okkur yrði gerður samningur.“ Þarna sést vel sá baráttuandi sem Bjarnfríður bjó yfir og átti eftir að nýtast vel á komandi áratugum í starfi hennar fyrir félagið. Í kjölfar óánægju kvennanna með laun sín fóru þær Bjarnfríður og Herdís Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar Verkalýðsfélags Akraness, til fundar við atvinnurekendur til að semja. Þetta var einnig upphafið að farsælu samstarfi Bjarnfríðar og Herdísar sem unnu lengi saman að ýmsum málefnum á vegum félagsins.

Í gegnum tíðina gegndi Bjarnfríður ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Akraness og leysti hún þau vel af hendi. Hún var fyrst kjörin í aðalstjórn félagsins árið 1960 og sinnti þá starfi varagjaldkera. Hún lagði einnig mikið af mörkum til baráttu kvennadeildarinnar en þar var hún fyrst kjörin í stjórn árið 1966 og vann þá eins og áður sagði náið með Herdísi. Það leikur enginn vafi á því að það starf sem unnið var á þessum árum og áratugum skipti gríðarlega miklu máli og með því hafa náðst ýmis réttindi sem verkafólk býr að í dag. 

Eftir að formlegu starfi Bjarnfríðar lauk fyrir félagið var hún þó hvergi nærri hætt að taka þátt í starfsemi þess og mæta á viðburði. Hún lét sig aldrei vanta í kröfugönguna 1. maí og jafnframt mætti hún alltaf í árlega ferð sem félagið býður eldri félagsmönnum sínum í og naut þess vel að ferðast um landið í góðra vina hópi. 

Bjarnfríður missti aldrei sjónar á því hvað það er sem skiptir máli þegar kemur að baráttu verkafólks og hvað forystumenn verkalýðshreyfingarinnar þurfa að hafa í huga. Það er því við hæfi að vitna í orð hennar frá árinu 2004 í áðurnefndu afmælisblaði félagsins þar sem hún lýsti þeirri von sem hún bar í brjósti varðandi baráttu verkalýðshreyfingarinnar:

„Það er von mín að verkalýðshreyfingin gæti réttar síns eins og hún er kölluð til. Ég hef enn trú á að henni takist að leggja sitt af mörkum til að byggja upp réttlátt þjóðfélag þar sem ríkir frelsi, jafnrétti og bræðralag.“

Verkalýðshreyfingin má sannarlega hafa þessa trú Bjarnfríðar að leiðarljósi, ekki síst núna þegar stefnir í hörð átök verkafólks í baráttu þess við að ná fram mannsæmandi launum.  

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness minnist Bjarnfríðar Leósdóttur með mikilli hlýju og þakklæti fyrir vel unnin störf hennar í þágu félagsins. Það er morgunljóst að hin ýmsu kjör verkamanna og –kvenna væru lakari en þau eru í dag ef hennar baráttuanda hefði ekki notið við.

11
Mar

Laun flugstjóra hækka um 214.000 kr. á mánuði

Nú er komið að íslensku verkafólki.Það er óhætt að segja að nú dragi til stórra tíðinda hjá íslensku verkafólki. Á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær höfnuðu Samtök atvinnulífsins algjörlega þeirri hugmyndafræði Starfsgreinasambands Íslands um að stigin verði jöfn og ákveðin skref í átt til þess að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að launataxtar verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði eru frá 201.000 kr. upp í 238.000 kr. Það sér hvert einasta mannsbarn að á slíkum launum er ekki fræðilegur möguleiki að framfleyta sér eða sínum og halda þeim sjálfsögðu mannréttindum sem eru fólgin í að geta það. 

Starfsgreinasambandið leggur áherslu á að launataxtarnir hækki í kringum 35.000 til 40.000 kr. á ári sem er afar hófstillt og sanngjörn krafa, sérstaklega í ljósi þess að stór hluti félagsmanna SGS starfar meðal annars hjá fyrirtækjum tengdum útflutningi, til dæmis í ferðaþjónustu og sjávarútvegi þar sem hagnaður er gríðarlegur um þessar mundir. Með öðrum orðum, það er nægt svigrúm til þess að leiðrétta kjör félagsmanna SGS. 

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sem margir hverjir eru með um eða yfir 3 milljónir á mánuði hafa engan skilning á kjörum lágtekjufólks enda birtist afstaða þeirra og hroki bersýnilega þegar fjallað er um kjör þessa fólks. Samtök atvinnulífsins segja að ef gengið verði að kröfum SGS muni hér verða allt að 27% verðbólga, gengið muni falla, verðtryggðar skuldir heimilanna muni stökkbreytast og heimurinn muni nánast hrynja. Já, svo slæmt verður það ef íslenskt verkafólk fær 35-40.000 kr. hækkun á sínum mánaðarlaunum á ári. 

Það skrautlega í þessu öllu saman er eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær að Samtök atvinnulífsins sömdu við flugstjóra hjá Icelandair Group, ekki upp á 35.000 kr. hækkun, nei, heldur munu laun flugstjóra í heildina hækka á þessu ári um sem nemur 214.000 kr. Laun þeirra munu aftur hækka 1. október 2016 og þá um 119.000 kr. Þannig að samtals munu laun þeirra hækka um ca 333.000 kr. á mánuði í þriggja ára samningi og flugstjóri í efsta þrepi verður þá kominn upp í 1,8 milljón á mánuði. Rétt er að vekja líka athygli á því að Samtök atvinnulífsins sömdu einnig við flugstjóra um mitt síðasta ár sem gaf þeim um eða yfir 100.000 kr. hækkun á mánuði. Á sama tíma og það var að gerast fékk almennt verkafólk 9.750 kr. 

Rétt er að ítreka það að formaður Samtaka atvinnulífsins er jafnframt forstjóri Icelandair Group sem semur við sitt starfsfólk um miklar launahækkanir til að forða sínu fyrirtæki frá verkfallsaðgerðum en kemur svo og segir við íslenskt verkafólk: Ætlið þið að rústa íslensku samfélagi með því að fara fram á 35.000 til 40.000 kr. launahækkun á mánuði. Hræsnin og tilllitsleysið hjá þessum ágætu mönnum er með ólíkindum. 

Nú mun reyna á íslenskt verkafólk í eitt skipti fyrir öll því við verðum að standa saman og brjóta á bak aftur þetta óréttlæti sem hefur fengið að viðgangast á íslenskum vinnumarkaði um alllanga hríð þar sem níðst hefur verið á íslensku verkafólki á meðan tilteknir hópar í íslensku samfélagi hafa rakað til sín stórum hluta af þjóðarkökunni. Það er svo grátbroslegt þegar forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins umbreyta krónutöluhækkun Starfsgreinasambandsins yfir í prósentur og fá út að 90.000 kr. hækkun og takið eftir á 3 árum, sé um 44% launahækkun. Það er jú alveg rétt vegna þess að þegar krónutala er lögð ofan á lág grunnlaun verður prósentan há. En skoðum hvað þetta myndi þýða ef þessi prósentutala yrði lögð ofan á meðallaun forstjóra í íslenskum fyrirtækjum. Meðallaun þeirra eru 2,6 milljónir í dag og þetta myndi þýða að þeir myndu ekki fá 90.000 kr. launahækkun á 3 árum ef þeir fengju sömu prósentuhækkun heldur tæpar 1,2 milljónir í hækkun á mánuði. Og laun þeirra yrðu því komin upp í 3,7 milljónir á mánuði. 

Nei, forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins vilja ekki sjá neitt sem heitir krónutöluhækkanir, þeir vilja bara prósentur því það kemur þeim sjálfum og þeim sem eru í efri lögum samfélagsins gríðarlega vel eins og sést á þessu, verkamaðurinn fengi 90.000 kr. og nota bene að mati SA myndi slík hækkun leggja íslenskt samfélag í rúst! En forstjórar með meðallaun upp á 2,6 milljónir myndu fá 1,2 milljónir í hækkun. Og ruglið ríður ekki við einteyming, báðir áttu að hafa fengið sömu launahækkun og það þrátt fyrir að annar hafi fengið 90.000 kr. hækkun á mánuði í 3 ára samningi en hinn 1,2 milljónir. Jú, báðir fengu sömu prósentuhækkun. 

Prósentur blekkja, prósentur eru rugl og nú er komið að því að íslenskt verkafólk láti sverfa til stáls.  

10
Mar

Flugstjórar fengu rúm 15% á fyrsta ári!

Formanni Verkalýðsfélags Akraness hefur borist vitneskja með óyggjandi hætti um að Samtök atvinnulífsins með Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair Group og formann Samtaka atvinnulífsins í broddi fylkingar, hafi samið við flugstjóra Icelandair í lok síðasta árs upp á rúm 25% og þar af koma rétt rúm 15% á fyrsta ári. Þetta er til viðbótar þeim tæpu 9% sem samið var um við flugstjóra í maí í fyrra í 3 mánaða samningi. Formaður vill byrja á því að óska flugstjórum til hamingju með þennan frábæra samning sem þeir hafa náð við Samtök atvinnulífsins. 

Það er með ólíkindum að hlusta á Samtök atvinnulífsins sem sömdu við verkafólk upp á 2,8% í fyrra á sama tíma og samið var við flugstjóra upp á tæp 9% og það er líka ótrúlegt að hlusta á Samtök atvinnulífsins segja að það séu 3,5% til skiptanna til handa verkafólki á sama tíma og það er samið við flugstjóra upp á rúm 15% sem komu í tvennu lagi á fyrsta ári og síðan fá þeir 7,36% 1. október 2016. 

Þetta er með ólíkindum vegna þess að sá sem er formaður Samtaka atvinnulífsins er eins og áður sagði einnig forstjóri Icelandair Group. Þessir aðilar eru búnir að teikna upp sviðsmyndir sem eru fólgnar í því að ef gengið verði að kröfum verkafólks þá muni útflutningsfyrirtæki nánast verða gjaldþrota, verðbólga fara upp í 27% og verðtryggðar skuldir heimilanna hækka um 500 milljarða. En þeim virðist algjörlega hafa láðst að teikna upp sviðsmynd hvað varðar hækkun flugstjóra. Var hún ekki reiknuð út af hendi Samtaka atvinnulífsins? Nei, hræðsluáróðurinn og óréttlætið sem dynur á íslensku verkafólki í hvert sinn sem það gerir þá lágmarkskröfu að fara fram á að laun þeirra dugi fyrir lágmarksframfærslu ríður ekki við einteyming. 

Það er reyndar líka nöturlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins þar sem stjórnvöldum er kennt um að hafa rofið samningsfriðinn með kjarasamningum við lækna í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kjarasamningur Samtaka atvinnulífsins við flugstjórana er síst lakari heldur en kjarasamningur lækna. Sem dæmi þá liggur fyrir að flugstjóri í efsta þrepi er kominn með föst laun upp á 1.622 þúsund samkvæmt launatöflu. 

Þessar nýjustu upplýsingar um samning sem að formaður Samtaka atvinnulífsins hefur gert við flugstjóra Icelandair mun ekki gera neitt annað en að blása gríðarlegum baráttuanda í íslenskt verkafólk því óréttlætinu á íslenskum vinnumarkaði skal lokið í eitt skipti fyrir öll.

Það er í raun og veru með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins og formaður Icelandair Group hafi komist upp með það að svara ekki fjölmiðlum um hvað var samið við flugstjórana og því spyr formaður VLFA núna: Eru Samtök atvinnulífsins ekkert hrædd um að þessi samningur muni nú hríslast niður launastigann? Eða voru þau að vonast til þess að þau kæmust upp með þennan gjörning án þess að það yrði upplýst á opinberum vettvangi?

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image