• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Fundur í samstarfsnefnd Akraneskaupstaðar og VLFA - fatapeningar hækka

Í gær var fundur með samráðsnefnd Akraneskaupstaðar og Verkalýðsfélags Akraness vegna kjarasamnings þessara aðila, en þessi samráðsnefnd hefur það verkefni að koma saman til að taka á þeim ágreiningsefnum sem koma upp milli samningsaðila og leysa úr þeim ef kostur er.

Þrjú mál voru tekin fyrir á þessum fundi, tvö þeirra eru til frekari skoðunar og vonast formaður til þess að þau fái farsæla niðurstöðu. Annað þeirra lýtur að innröðun starfsmanns í launatöflu samkvæmt starfsmati, en það er mat félagsins að viðkomandi starfsmaður sé kolrangt metinn inn miðað við ábyrgð og umfang þess starfs sem viðkomandi aðili innir af hendi. Hitt málið sem enn er ólokið varðar jöfnun réttinda á milli kjarasamninga Starfsmannafélags Reykjavíkur og Verkalýðsfélags Akraness og var sameininlegur skilningur fulltrúa Akraneskaupstaðar að fundin verði farsæl lausn á því máli.

Málið sem var afgreitt í gær laut að framkvæmd kjarasamninga varðandi fatnað starfsmanna, en umtalsverð óánægja hefur verið hjá starfsmönnum með þá framkvæmd sem hefur verið á þessum þætti og þá fjárhæð sem greidd er vegna fatakaupa. Starfsmenn hafa einungis verið að fá kr. 12.000 á ári til fatakaupa, sem dugar á engan hátt að mati starfsmanna. Samþykkt var að hækka þessa upphæð upp í kr. 16.500 á þessu ári og 20.000 á árinu 2016, til að koma örlítið til móts við starfsmenn. Formaður lagði áherslu á að til viðmiðunar verði hafður raunkostnaður við úthlutun fatnaðar samkvæmt ákvæðum kjarasamnings, og taldi formaður félagsins að núverandi fjárhæð endurspegli ekki þann raunkostnað.

Þetta var svo sem ágætis fundur, en mikilvægt er að tekið sé á þeim ágreiningsefnum sem upp koma af einurð og festu og þau séu afgreidd á skömmum tíma, því það er óþolandi og ólíðandi að uppi sé ágreinigur í málum um langa hríð og ekki sé leitast við að finna lausn á þeim. Því ber að fagna því að brugðist var skjótt við þessum atriðum og vonast formaður eftir því að búið verði að afgreiða öll þessi mál í byrjun ágúst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image