• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Apr

Tími verkfallsátaka er runninn upp

Undirbúningur vegna komandi verkfalla stendur nú yfir af fullum þunga innan landsbyggðarfélaga Starfsgreinasambands Íslands. Eins og fram hefur komið í fréttum þurfti SGS að draga kosningu sem hafin var um verkfall til baka en það var vegna þess að Samtök atvinnulífsins höfðu lýst því yfir að þau ætluðu að fara með kosninguna fyrir félagsdóm og fella hana á tæknilegum atriðum. Með öðrum orðum, Samtök atvinnulífsins eru ekki tilbúin til að mæta íslensku verkafólki í verkfallsátökum heldur munu þau reyna að koma í veg fyrir verkföll með því að draga kosningar í efa og færa þær inn á borð félagsdóms. 

Á eftir mun samninganefnd aðildarfélaga SGS á landsbyggðinni koma saman til að stilla saman strengi sína vegna komandi átaka en það er í fyrsta sinn sem samninganefndin kemur saman eftir að kosningu var frestað. Eins og áður sagði er undirbúningurinn kominn á fulla ferð og verður núna tryggt að Samtök atvinnulífsins hafi ekki ástæðu til að draga lögmæti komandi kosninganna í efa. 

Þetta framferði Samtaka atvinnulífsins hefur gert það að verkum að það bullsýður á íslensku verkafólki. Það bullsýður á því vegna þess að SA er ekki tilbúið til að mæta sanngjörnum kröfum verkafólks, sanngjörnum kröfum sem byggjast á því að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu en krafan byggist meðal annars á því að lægstu launataxtar verði komnir upp í 300.000 kr. innan þriggja ára. Ef eitthvað er þá er þetta krafa sem er of hófstillt enda hafa slíkar raddir heyrst á opinberum vettvangi að undanförnu þar sem mönnum finnst krafa upp á 300.000 kr. innan þriggja ára vera of væg. Á þeirri forsendu er morgunljóst að svigrúm til afsláttar á þeirri launakröfu sem nú er uppi á borðinu er ekki til staðar. Enda er krafa upp á 300.000 kr. afar hógvær, sanngjörn og réttlát og er ekki á nokkurn hátt hægt að segja að slík launakrafa eigi að valda atvinnurekendum vandræðum. Það liggur fyrir að fjölmargar greinar mala gull um þessar mundir og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um sjávarútvegsfyrirtækin sem eru að skila milljarða tuga hagnaði ár eftir ár en launakostnaður í landvinnslu hefur um alllanga hríð verið sjávarútvegsfyrirtækjum til ævarandi skammar. 

Það er morgunljóst að í komandi kjarasamningum verður látið sverfa til stáls af fullum þunga, hvergi verður neitt gefið eftir og verkfallssjóðir stéttarfélaganna verða nýttir að fullu til þess að knýja fram réttláta og sanngjarna kröfu verkafólks, kröfu sem byggist á því að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu og að verkafólk geti haldið mannlegri reisn eins og aðrir sem í þessu samfélagi búa. Tími verkfallsátaka er runninn upp.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image