• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Bjarnfríður Leósdóttir látin Bjarnfríður Leósdóttir og Vilhjálmur Birgisson fyrir utan Höfða í ferð eldri félagsmanna árið 2011
13
Mar

Bjarnfríður Leósdóttir látin

Bjarnfríður Leósdóttir, baráttukona og heiðursfélagi Verkalýðsfélags Akraness, lést þann 10. mars síðastliðinn, níræð að aldri. 

Bjarnfríður var fædd árið 1924, sama ár og Verkalýðsfélag Akraness var stofnað og má segja að hún hafi á margan hátt tengst sögu félagsins í gegnum áratugina og verið stór hluti af starfsemi þess enda var hún sjálf mikill verkalýðsfrömuður. Hún tók fyrst þátt í verkalýðsbaráttu tengdri félaginu árið 1959 en þá vann hún ásamt öðrum konum við síldarsöltun. Í afmælisblaði félagsins árið 2004 rifjaði hún þessa atburði upp og sagði meðal annars: „Við konurnar fórum að spjalla saman um kaup okkar og kjör sem við vorum engan veginn sáttar við – og okkur hitnaði svo í hamsi að ákveðið var að hefja ekki vinnu nema með því skilyrði að við okkur yrði gerður samningur.“ Þarna sést vel sá baráttuandi sem Bjarnfríður bjó yfir og átti eftir að nýtast vel á komandi áratugum í starfi hennar fyrir félagið. Í kjölfar óánægju kvennanna með laun sín fóru þær Bjarnfríður og Herdís Ólafsdóttir, formaður kvennadeildar Verkalýðsfélags Akraness, til fundar við atvinnurekendur til að semja. Þetta var einnig upphafið að farsælu samstarfi Bjarnfríðar og Herdísar sem unnu lengi saman að ýmsum málefnum á vegum félagsins.

Í gegnum tíðina gegndi Bjarnfríður ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Akraness og leysti hún þau vel af hendi. Hún var fyrst kjörin í aðalstjórn félagsins árið 1960 og sinnti þá starfi varagjaldkera. Hún lagði einnig mikið af mörkum til baráttu kvennadeildarinnar en þar var hún fyrst kjörin í stjórn árið 1966 og vann þá eins og áður sagði náið með Herdísi. Það leikur enginn vafi á því að það starf sem unnið var á þessum árum og áratugum skipti gríðarlega miklu máli og með því hafa náðst ýmis réttindi sem verkafólk býr að í dag. 

Eftir að formlegu starfi Bjarnfríðar lauk fyrir félagið var hún þó hvergi nærri hætt að taka þátt í starfsemi þess og mæta á viðburði. Hún lét sig aldrei vanta í kröfugönguna 1. maí og jafnframt mætti hún alltaf í árlega ferð sem félagið býður eldri félagsmönnum sínum í og naut þess vel að ferðast um landið í góðra vina hópi. 

Bjarnfríður missti aldrei sjónar á því hvað það er sem skiptir máli þegar kemur að baráttu verkafólks og hvað forystumenn verkalýðshreyfingarinnar þurfa að hafa í huga. Það er því við hæfi að vitna í orð hennar frá árinu 2004 í áðurnefndu afmælisblaði félagsins þar sem hún lýsti þeirri von sem hún bar í brjósti varðandi baráttu verkalýðshreyfingarinnar:

„Það er von mín að verkalýðshreyfingin gæti réttar síns eins og hún er kölluð til. Ég hef enn trú á að henni takist að leggja sitt af mörkum til að byggja upp réttlátt þjóðfélag þar sem ríkir frelsi, jafnrétti og bræðralag.“

Verkalýðshreyfingin má sannarlega hafa þessa trú Bjarnfríðar að leiðarljósi, ekki síst núna þegar stefnir í hörð átök verkafólks í baráttu þess við að ná fram mannsæmandi launum.  

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness minnist Bjarnfríðar Leósdóttur með mikilli hlýju og þakklæti fyrir vel unnin störf hennar í þágu félagsins. Það er morgunljóst að hin ýmsu kjör verkamanna og –kvenna væru lakari en þau eru í dag ef hennar baráttuanda hefði ekki notið við.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image