• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Mar

Kjarasamningur undirritaður við Norðurál

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum þeim félögum sem aðild eiga að kjarasamningi við Norðurál, undir 5 ára kjarasamning við Norðurál. Það er ástæða til að tala um tímamótasamning, enda hefur það formanni vitanlega ekki verið gert áður að tengja launahækkanir verkafólks og iðnaðarmanna við launavísitölu.

Samningurinn gildir frá 1. janúar 2015 og frá þeim tíma tekur gildi umsamin upphafshækkun, auk 300.000 króna eingreiðslu til starfsmanna. Næsta launahækkun mun koma til framkvæmda 1. júlí á þessu ári, en sú hækkun mun taka mið af hækkun launavísitölunnar frá desember 2014 til júní 2015. Síðan mun koma önnur launahækkun 1. janúar 2016, sem tekur mið af hækkun launavísitölunnar frá júní 2015 til desember 2015. Eftir það munu koma 1. janúar ár hvert launahækkun sem tekur mið af 12 mánaða hækkun vísitölunnar, en samningurinn rennur út í lok árs 2019.

Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr rúmlega 311.000 kr. á ári upp í kr. 340.000, sem er tæplega 30.000 kr. hækkun, en orlofs- og desemberuppbætur munu síðan taka sömu hækkunum og önnur laun, eða í samræmi við hækkun launavísitölunnar.

Eftir kjarasamning mun til dæmis verkamaður á byrjunarlaunum á vöktum í Norðuráli vera kominn upp í 492.000 kr. með öllu og eftir fimm ára starf er viðkomandi starfsmaður kominn upp tæplega 580.000 krónur. Starfsmaður með 10 ára starfsreynsla er þá kominn upp í rúmlega 591.000 krónur.

Kynningarfundir um kjarasamninginn verða auglýstir von bráðar, en þar mun formaður fara ítarlega yfir innihald samningsins og hvað hann þýðir í krónum og aurum og önnur atriði er lúta að hagsmunum starfsmanna. Kosning um samninginn mun fara fram að afloknum kynningarfundum, og hjá aðaltrúnaðarmanni allt til 26. mars, en kosningu á að vera lokið kl. 16 þann sama dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image