• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Oct

EFTA-dómstóllinn kveður upp dóm 24. nóvember næstkomandi

Eins og flestir vita þá er Verkalýðsfélag Akraness með mál fyrir  EFTA- dómstólnum þar sem óskað hefur verið eftir ráðgefandi áliti um hvort heimilt sé að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum og greiðsluáætlunum lántakenda.

Spurningin sem VLFA er með fyrir EFTA- dómstólnum er eftirfarandi:

 1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi?

Nú liggur fyrir samkvæmt dagskrá að EFTA-dómstóllinn mun gefa sitt ráðgefandi álit í þessu risavaxna hagsmunamáli íslenskra neytenda  þann 24. nóvember nk. klukkan 09:00.

Það er morgunljóst að hér er um risavaxið mál að ræða enda liggur fyrir að bara verðtryggð lán íslenskra heimila nema um 1700 milljörðum og um 90% allra lánasamninga eru með greiðsluáætlun þar sem miðað er við 0% verðbólgu. Það er einnig morgunljóst að það mun hafa mikil áhrif ef verðbótaþáttur lánasamningana verður dæmdur ólöglegur enda getur verið um tugi ef ekki hundruð milljarða að ræða í leiðréttingu fyrir íslensk heimili.

Á þessari stundu er mjög erfitt að segja til um hvernig þetta ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins mun hljóða en það er æði margt sem bendir til þess að dómstóllinn muni komast að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé með öllu að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum. Enda liggur fyrir að framkvæmdastjórn ESB og eftirlitsstofnun  ESA hafa látið hafa eftir sér að slíkt sé ólöglegt.  Þessu til viðbótar hefur Neytendastofa kveðið upp útskurð hér á landi um að slíkt sé ólöglegt.

Á þessum forsendum verður gríðarlega forvitnilegt að sjá hvernig þetta ráðgefandi álit mun hljóða en rétt er að vekja sérstaka athygli á því að íslenskir dómstólar hafa aldrei dæmt gegn áliti EFTA-dómstólsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image