• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Þingi ASÍ lokið Formaður VLFA á þingi ASÍ
27
Oct

Þingi ASÍ lokið

Þriggja daga þingi Alþýðusambands Íslands lauk á föstudaginn og er óhætt að segja að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness hafi eins og svo oft áður tekið virkan þátt í þeirri vinnu sem fram fór þar.

Meðal annars flutti formaður félagsins ræðu á miðvikudeginum og féll hún í góðan jarðveg á meðal fulltrúa þingsins. Einnig lagði félagið fram nokkrar breytingartillögur á þeim ályktunum sem lagðar voru fyrir þingið. Sumar breytingarnartillögurnar náðust í gegn og aðrar ekki en það er eins og gengur og gerist. Félagið náði til dæmis í gegn breytingu sem tengist lágmarkslaunum. Í ályktuninni sem VLFA lagði fram kemur fram að hækka þurfi lágmarkslaun þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu. Hinsvegar var tillaga um afnám verðtryggingar á neytenda- og húsnæðislánum og að sett yrði þak á slík lán felld. Það verður að segjast alveg eins og er að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness voru afar undrandi á því að þessi tillaga hafi verið felld. Hvernig er hægt að vera á móti því að afnema verðtryggingu og setja þak á vexti?

Formaður félagsins sagðist hræðast það að forysta Alþýðusambands Íslands hafi í hyggju að fara aftur leið samræmdrar launastefnu, launastefnu sem svo sannarlega hefur sýnt að hefur komið sér illa fyrir verkafólk og iðnaðarmenn. Það liggur fyrir að þessir hópar hafa setið eftir, ekki bara í síðustu samningum heldur um alllanga hríð.

Formaður gagnrýndi einnig að honum fyndist vanta meiri kraft í ályktanir er tengjast kjaramálum en kraftinn vantar hinsvegar ekki í ályktanir er tengjast gagnrýni á stjórnvöld og er það vel. Enda er það hlutverk hreyfingarinnar að veita stjórnvöldum á hverjum tíma fyrir sig aðhald. Hinsvegar er það orðið hálf hjákátlegt að sami kraftur skuli ekki beinast að okkar aðal viðsemjanda sem er að sjálfsögðu Samtök atvinnulífsins.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image