• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Kjaraviðræður vegna Norðuráls komnar á fulla ferð Samstaða starfsmanna Norðuráls er mikil
09
Dec

Kjaraviðræður vegna Norðuráls komnar á fulla ferð

Nú eru kjaraviðræður vegna kjarasamnings Norðuráls komnar á fulla ferð. Haldnir hafa verið einir þrír formlegir fundir með forsvarsmönnum Norðuráls en á fyrsta fundinum var lögð fram ítarleg kröfugerð sem hefur verið til umræðu á þeim fundum sem nú eru liðnir. Forsvarsmenn Norðuráls hafa ekki tekið efnislega afstöðu til kröfugerðarinnar þó þeir hafi gefið í skyn að þeim hugnist ekki til dæmis krafan um að tekið verði upp sambærilegt vaktakerfi og er hjá Elkem Ísland.

Það er mat formanns að framundan séu gríðarlega erfiðar kjaraviðræður, ekki bara varðandi Norðurál heldur alla þá kjarasamninga sem eru lausir og Verkalýðsfélag Akraness á aðild að. Það er til dæmis morgunljóst að væntingar til dæmis starfsmanna Norðuráls til verulegra launahækkana eru miklar og eru þær væntingar svo sannarlega eðlilegar í ljósi þeirrar staðreyndar að rekstur Norðuráls hefur ætíð gengið gríðarlega vel og er það hið besta mál. Það liggur fyrir að hagsmunir stéttarfélagsins, starfsmanna og fyrirtækisins liggja algjörlega saman þegar kemur að góðri afkomu fyrirtækja. Það er eins eðlilegt og hugsast getur að starfsmenn Norðuráls hafi miklar væntingar til veglegra launahækkana vegna þeirra afkomutalna sem nú þegar liggja fyrir varðandi rekstur fyrirtækisins.

Það jákvæða í þessu öllu saman er að samstaða starfsmanna Norðuráls er gríðarleg og með slíkri samstöðu er hægt að ná æði langt þegar kemur að bættum kjörum. En eins og áður sagði er framundan harður kjaravetur og óttast formaður að ef líkja á komandi kjaraviðræðum við veðrið þá megi segja að viðræðurnar gætu orðið suðvestan útsynningur með hvössum éljum. Vonandi hefur formaður rangt fyrir sér hvað þetta varðar en þetta er tilfinning hans á þessari stundu. 

Næsti fundur verður haldinn 17. desember næstkomandi og á þeim fundi munu forsvarsmenn fyrirtækisins leggja fram hugmyndir að hækkun launaliðar og svara kröfunni efnislega frá A til Ö. Eins og áður hefur komið fram hafa þeir ýjað að því að þeir ætli að hafna því að taka upp fjölskylduvænt vaktakerfi og ef það verður lokaniðurstaðan er ljóst að brugðið getur til beggja vona hvað varðar framhald þessara viðræðna. Enda eru háværar raddir innan verksmiðjunnar um að hverfa frá þessu 12 tíma vaktakerfi og taka upp 8 tíma kerfi eins og tíðkast hjá Elkem Ísland og Alcan í Straumsvík.

Það er mikilvægt fyrir öll góð fyrirtæki að átta sig á því að það skiptir höfuðmáli að vera með gott starfsfólk. Án góðra starfsmanna næst aldrei góður árangur í rekstri og afkomu fyrirtækja. Þess vegna er mikilvægt að hlusta á starfsfólkið og stéttarfélögin og þær ábendingar og athugasemdir sem það hefur fram að færa. Ein af ábendingunum sem starfsmenn hafa komið með er að álag á starfsmenn hafi á undanförnum misserum aukist allverulega vegna framleiðsluaukningar og hagræðingar innan fyrirtækisins. Sem betur fer hefur þessu verið mætt að hluta til og er það einlæg von formanns að það náist farsæl lausn í þessum kjaraviðræður þar sem hagsmunir starfsmanna verði hafðir að leiðarljósi því þeir eiga það svo sannarlega skilið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image