• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Dec

Nýr bústaður í Húsafelli

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú fest kaup á bústað sem staðsettur er að Birkihlíð 6 í Húsafelli. Bústaðurinn er einstaklega vel skipulagður en hann var byggður árið 2008 og hefur verið í einkaeigu síðan þá. Hann er 82 fermetrar að stærð og í honum eru þrjú svefnherbergi, þar af tvö með góðum tvíbreiðum rúmum og það þriðja með rúmi sem er ein og hálf breidd. Auk þess fylgir bílskúr bústaðnum og til stendur að setja þar upp gestahús og fjölga með því gistirýmum. Með því móti gætu 2-3 fjölskyldur auðveldlega farið saman í þennan rúmgóða bústað. Umhverfi bústaðarins er mjög gróið og er því hægt að slaka á í ró og næði en um leið hafa aðgang að öllu því sem sumarhúsabyggðin í Húsafelli hefur upp á að bjóða. Á þessu svæði standa nú yfir miklar framkvæmdir og er byggðin að taka breytingum meðfram þeim og með tilkomu hótelsins sem nú er í byggingu má segja að Húsafell sé að verða sumarleyfisparadís.
Eftirspurn félagsmanna eftir orlofshúsum er alltaf mikil og eru yfirleitt allir bústaðir félagsins bókaðir um helgar yfir vetrartímann en yfir sumartímann er eftirspurnin enn meiri og komast alltaf færri að en vilja. Var því orðið tímabært að fjölga þeim orlofshúsum sem standa félagsmönnum til boða. 
Nú þegar er búið að opna fyrir bókanir og geta félagsmenn athugað hvaða tímabil eru laus með því að fara inn á félagavefinn eða hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900. 

Hér má sjá myndir af nýja bústaðnum

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image