• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Jan

Hefja undirbúning að verkfallsaðgerðum

Eins og flestir vita þá lagði Starfsgreinasamband Íslands fram kröfugerð sína síðastliðinn mánudag. Kröfugerð sem byggist á því að innan þriggja ára verði lágmarkstaxti verkafólks orðinn 300.000 kr. Þetta er sanngjörn krafa sem byggist á því að stíga jöfn og þétt skref í átt að þvi að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og að verkafólk geti haldið mannlegri reisn.

Viðbrögð Samtaka atvinnulífsins létu ekki á sér standa þar sem hræðsluáróðurinn reið ekki við einteyming, íslenskt efnahagslíf myndi nánast hrynja til grunna ef stigið yrði leiðréttingarskref til handa íslensku verkafólki. Meira að segja í nýjum leiðara framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins er talað um að fella þurfi gengi íslensku krónunnar til að forða stóriðjunni, ferðaþjónustunni og útgerðinni frá gjaldþroti. Málflutningur af þessu tagi er forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins til ævarandi skammar en hér er um hræðsluáróður að ræða af verstu sort. Samtökin hafa látið hafa eftir sér að þessi sanngjarna krafa aðildarfélaga SGS sé ekki grundvöllur til frekari viðræðna og er henni hafnað með öllu. 

Á þeirri forsendu hafa aðildarfélög SGS ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. Einnig hafa þau ákveðið að kalla til og byrja að skipuleggja aðgerðahópa sem munu hefja undirbúning að verkfalli. Það er algjörlega morgunljóst að þetta misrétti og óréttlæti sem íslenskt verkafólk hefur þurft að þola á liðnum árum og áratugum verður ekki látið átölulaust í komandi kjarasamningum. Enda hafa allir launahópar, já launahópar sem eru langtum tekjuhærri en íslenskt verkafólk, fengið gríðarlegar hækkanir í undanförnum kjarasamningum og svo núna þegar komið er að íslensku verkafólki þá glymur hræðsluáróður um að nú sé stöðugleikinn í hættu ef íslenskt verkafólk fær leiðréttingu sinna launa þannig að þau dugi fyrir mánaðarlegum útgjöldum.

Verkalýðshreyfingin er klár í verkfallsátök og mun eins og áður sagði hefja undirbúning að slíkum aðgerðum á næstu vikum.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image