• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Feb

Verður loðnuvertíðinni stefnt í hættu?

Aukningu loðnukvóta og þeirri búbót sem hann færir þjóðinni ber að fagna innilega og ef allt væri eðlilegt þá ætti þessi búbót að auðvelda gerð kjarasamninga verkafólks verulega. Rétt er að benda á að Hafrannsóknarstofnun leggur nú til að loðnukvótinn á yfirstandandi vertíð verði hvorki meira né minna en 580.000 tonn og er það 320.000 tonna aukning frá fyrstu tillögu og meira en þreföldun frá kvóta síðasta árs. Fram hefur komið í fréttum að þessi aukning á loðnukvótanum muni skila þjóðarbúinu 25 til 28 milljörðum í auknum útflutningstekjum. 

Því ber að fagna að afkoma sjávarútvegsfyrirtækja sé mjög góð en jafnframt skal gera þá skýlausu kröfu að fiskvinnslufólk fái hlutdeild í þessari gríðarlegri hagsæld sem ríkt hefur í sjávarútvegnum um allanga hríð. Það liggur fyrir að útgerðin hefur verið að skila tugmilljarða hagnaði síðustu ár og sem dæmi þá nam hagnaðurinn um 53 milljörðum árið 2013. 

Það verður ekki látið átölulaust að ofsagróði útflutningsfyrirtækja eins og  t.d. í sjávarútvegsfyrirtækja sé ekki skilað að einhverju leyti til þeirra sem starfa í greinunum í gegnum hækkun launa og bónusa. Ef við leikum okkur að tölum og skoðum allt fiskvinnslufólk sem SGS semur fyrir þá eru það um 3.300 manns og kostnaður við að verða við kröfum SGS til handa fiskvinnslufólki væri í kringum 4 milljarða á ársgrundvelli.

Það eru því hjáróma raddir sem segja að allt fari á hliðina í samfélaginu ef atvinnulífið greiðir fólki dagvinnulaun sem nægja fyrir framfærslu. SGS hefur lagt áherslu á að hækka laun í gjaldeyrisskapandi greinum, fiskvinnslan er þar efst á blaði. Það er alls ekki ólíklegt að stéttarfélög innan SGS muni  beina sjónum sínum að loðnubræðslunni og hrognatöku ef kemur til verkfallsaðgerða á næstu vikum.

Verður núverandi loðnuvertíð jafnvelstefnt í hættu vegna þess að SA hefur algerlega hunsað kröfur stéttarfélagana og er ekki tilbúið að láta fiskvinnslufólks njóta góðs af ofsagróða útgerðarinnar? Ábyrgð Samtaka atvinnulífsins er gríðarleg hvað þessa kjaradeilu við verkafólk varðar. Ætlar SA virkilega að stefna núverandi loðnuvertíð jafnvel í hættu með því að hunsa algerlega sanngjarnar og eðlilegar kröfur SGS að dagvinnulaun dugi fyrir lágmarksframfærslu? 

Gríðarlegar fjárhæðir gætu verið í húfi ef ekki tekst að semja um leiðréttingu á kjörum verkafólks og eins og fram hefur komið í fréttum, nemur bara viðbótin 25-28 milljörðum í auknar útflutningstekjur til handa þjóðarbúinu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image