• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jan

Góður fundur með félagsmálaráðherra

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá óskaði Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, eftir að funda með formanni Verkalýðsfélags Akraness og fór sá fundur fram í velferðarráðuneytinu í morgun. Er óhætt að segja að á þessum fundi hafi verið farið yfir mörg mál er lúta að hagsmunum íslensks verkafólks, meðal annars sem tengjast húsnæðismálum, kjaramálum og öðrum hagsmunamálum.

Formaður fór yfir komandi kjarasamninga með ráðherranum og þótti afar ánægjulegt að heyra og finna að hún telur vera svigrúm til að lagfæra kjör íslensks verkafólks og þá sérstaklega hjá útfluningsfyrirtækjum af ýmsum toga. Eygló var einnig sammála formanni um mikilvægi þess að samið verði í formi krónutöluhækkana í komandi kjarasamningum enda ljóst að krónutöluhækkanir koma verkafólki og millitekjufólki hvað best.

Það var ánægjulegt að heyra að Eygló telur að fyrirtæki sem eru sköpuð góð rekstrarskilyrði á íslenskum vinnumarkaði eins og til dæmis í stóriðju og ekki síður í sjávarútvegi sem hafa fengið lækkun á auðlindagjöldum sem nemur milljörðum, skili því í formi hærri launa til þeirra sem starfa í greininni. Enda er morgunljóst að slíkt skilar sér með jákvæðum hætti út í samfélagið, jafnt til sveitarfélaga og til ríkis í formi hærri skatttekna.

Ráðherrann var líka sammála formanni í því að of lág laun íslensks verkafólks geti leitt til mikils samfélagslegs kostnaðar því ef að laun duga ekki fyrir lágmarksframfærslu þá veldur það verri lýðheilsu sem endurspeglast síðan í hærri kostnaði í heilbrigðiskerfinu og félagslega kerfinu. Hún tók undir með formanni um mikilvægi þess að lagfæra kjör íslensks verkafólks, þó með þeirri undantekningu að það hríslist ekki upp allan launastigann til þeirra allra tekjuhæstu.

Þetta var flottur fundur og gott að finna jákvætt viðhorf félagsmálaráðherra til mikilvægis þess að lagfæra hér þann ójöfnuð og þá misskiptingu sem ríkir í íslensku samfélagi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image