• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Jan

Ekkert þokast áfram í kjaradeilu við Norðurál

Í gær var fundur hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Norðuráls og er skemmst frá því að segja að lítið þokast áfram í þeirri deilu. Enda ber gjörsamlega himinn og haf á milli deiluaðila í þessari deilu. Formaður hefur sagt í gegnum árin að fyrirtæki eins og Norðurál sem býr við góð rekstrarskilyrði, hefur ætíð skilað góðri afkomu og er með hvað lægstu launagreiðslur af heildarveltu á íslenskum vinnumarkaði á og ber skylda til að skila slíkum ávinningi til starfsmanna fyrirtækisins.

Eins og áður sagði hefur Norðurál ætíð gengið vel. Álverð er í þokkalegu ástandi en það eru yfir 1800 dollarar í dag fyrir tonnið. Hinsvegar er dollarinn afar hagstæður fyrirtækinu um þessar mundir en hann stendur í 132 krónum í dag en var í upphafi síðasta árs í kringum 111 krónur. Þetta skiptir Norðurál miklu máli enda selur það allar afurðir út í dollurum en greiðir allan launakostnað í íslenskum krónum.

Á morgun verður fundur með starfsmönnum Norðuráls en hann verður haldinn í Tónbergi, sal tónlistarskólans á Akranesi, og hefst kl. 20. Á þeim fundi mun formaður fara ítarlega yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í þessari kjaradeilu. Það er morgunljóst að ef ekki verður alvarleg hugarfarsbreyting hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins hvað þessa deilu varðar þá mun stefna hér í grjótharða kjarabaráttu þegar starfsmenn munu hafa tækifæri til að sýna vald sitt. Tíminn mun vinna með starfsmönnum og þessari deilu má líkja við knattspyrnuleik þar sem þolinmæði getur verið dyggð. Það er búið að ganga frá kjarasamningum vítt og breitt í samfélaginu, samningum sem hafa verið að gefa um og yfir 30% í 3 ára samningum og það er algjörlega hvellskýrt að ekki verður gengið frá kjarasamningi við forsvarsmenn Norðuráls með öðrum hætti heldur en þar hefur verið gert. Enda engar forsendur fyrir slíku vegna áðurnefndrar góðrar afkomu fyrirtækisins. 

Á fundinum á morgun munu starfsmenn sem mæta á fundinn taka ákvörðun um hvert framhald þessara kjaraviðræðna verður enda er það starfsmanna að ákveða hvað gera skuli þar sem þetta er þeirra lífsviðurværi. En miðað við þann gríðarlega fjölda sem hefur haft samband við formann þá skynjar hann mikla reiði og hryggð yfir því að forsvarsmenn fyrirtækisins séu ekki tilbúnir í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að afkoman sé góð og stórir hópar hafi gert góða samninga, að gera slíkt hið sama. Og það má heyra á starfsmönnum að slíkt verður alls ekki látið átölulaust.   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image