• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Jan

Hroki Samtaka atvinnulífsins algjör

Í gær lagði Starfsgreinasamband Íslands fram kröfugerð sína en þeir sem eiga aðild að þessari kröfugerð eru öll verkalýðsfélög á landsbyggðinni. Kröfugerðin er metnaðarfull en samt sem áður hógvær og réttlát enda byggist hún á að stígin verði jöfn og ákveðin skref í átt að því að dagvinnulaun verkafólks dugi fyrir lágmarksframfærslu samkvæmt þeim viðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Krafan hljóðar upp á að innan þriggja ára verði lágmarkslaun á Íslandi orðin 300.000 kr.

Það var eins og við manninn mælt að hrokinn og yfirgangurinn í forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins var algjör þegar þeir svöruðu opinberlega þessari sanngjörnu kröfugerð SGS. Þeir voru náttúrulega búnir að umvarpa þessari krónutöluhækkun yfir í prósentur til að reyna að láta þetta líta út fyrir að vera afar óraunhæfar kröfur en grundvallaratriðið er að prósentur eru til þess fallnar að blekkja. Það vita allir að ef 1 króna er lögð ofan á aðra krónu þá er það 100% hækkun. Með öðrum orðum, þegar krónutala er lögð ofan á afar lág laun þá verður prósentutalan há. Semsagt, prósentur blekkja.

Það er nöturlegt að hlusta á málflutning Samtaka atvinnulífsins þar sem talað er nánast um stórfellt efnahagshrun ef að lágmarkstaxtar á Íslandi hækka um 33.000 kr. á ári næstu 3 árin og verði komin upp í 300.000 kr. í lok samningstímans. Forsvarsmenn SA öskra hátt og skýrt: hafið þið reiknað út áhrifin, til dæmis af verðbólgu og öðrum slíkum þáttum? En skyldu þessir sömu aðilar hafa reiknað út áhrifin af því þegar forstjórar og framkvæmdastjórar hækkuðu um 200.000-300.000 kr. á mánuði á árinu 2013 samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar svo ekki sé talað um hækkun millistjórnenda um 600.000 kr. á mánuði? Nei, svo koma þessir ágætu menn og tala hér um ragnarök ef þess er krafist að íslenskt verkafólk geti lifað af sínum dagvinnulaunum samkvæmt þeim viðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það liggur fyrir að allir hópar sem hafa samið að undanförnu hafa verið að semja um þetta frá 50.000 og upp í allt að 200.000 kr. hækkun á mánaðarlaunum og nægir þar að nefna læknastéttina, kennarana, flugstjórana, flugvirkjana og svo framvegis. Og hvað með formann Samtaka atvinnulífsins sem að jafnframt er formaður Icelandair Group, sem samdi við flugstjóra um allt að 9% um mitt ár í fyrra í nokkurra mánaða samningi og heimildir herma að samið hafi svo verið við þá um 22% hækkun í desember 2014. Skyldi hann hafa látið reikna út áhrifin af verðbólgu og öðrum efnahagsforsendum þegar hann samdi við sína starfsmenn?

Nei, nú þarf íslenskt verkafólk stuðning þjóðarinnar við að lagfæra og leiðrétta kjör íslenskrar alþýðu. Launakjör sem eru á bilinu 201.000 kr. til 238.000 kr. Kjör sem eins og áður sagði duga ekki fyrir lágmarksframfærslu og í raun og veru kosta íslenskt samfélag gríðarlega fjármuni vegna þeirra afleiðinga sem bág kjör geta valdið. Nægir að nefna þar verri heilsu, aukið álag á heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og félagslega kerfið og jafnvel stóraukna örorkubyrði vegna verri lýðheilsu. Það er alveg ljóst að það verður að lagfæra kjör íslensks verkafólks til að fólk geti haldið mannlegri reisn og það liggur hvellskýrt fyrir að það er nægt svigrúm til slíkra leiðréttinga. Nægir að nefna í því samhengi ofsagróða íslenskra útflutningsfyrirtækja eins og til dæmis í ferðaþjónustunni, stóriðjunni og svo ekki sé talað um í fiskvinnslunni þar sem hagnaður og arðgreiðslur eru gríðarlegar um þessar mundir.

Samtök atvinnulífsins skulu átta sig á því að íslenskt verkafólk mun ekki og ætlar sér ekki að láta þetta ofbeldi yfir sig ganga. Að það skuli ætíð standa bunan út úr þessum mönnum þegar kemur að því að semja um laun verkafólks, um skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf ef þessi tiltekni hópur fær einhverjar leiðréttingar á sínum launum. Það stenst ekki skoðun núna og hefur í raun aldrei staðist neina skoðun. Þessum hroka Samtaka atvinnulífsins, honum verður mætt af fullri hörku og nú er mikilvægt að íslenskt verkafólk standi þétt saman í eitt skipti fyrir öll og búi sig undir grjóthörð verkfallsátök ef þurfa þykir.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image