• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Mögnuð stemmning á fundi með starfsmönnum Norðuráls í gær Kröfunum verður fylgt eftir!
23
Jan

Mögnuð stemmning á fundi með starfsmönnum Norðuráls í gær

Verkalýðsfélag Akraness hélt hörkufund með starfsmönnum Norðuráls í sal Tónlistarskóla Akraness í gær þar sem farið var yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu stéttarfélaganna við Norðurál. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur nánast öllum kröfum stéttarfélaganna fyrir hönd starfsmanna verið hafnað.

Tilboð fyrirtækisins er vægast sagt rýrt en það hljóðar upp á 2,5% launahækkun, 75.000 kr. eingreiðslu og að tengja aðrar launahækkanir svo við það sem mun gerast á almennum vinnumarkaði. Skilaboðin til samninganefndar stéttarfélaganna voru hvellskýr frá starfsmönnum: Þið hafið ekki heimild til að hvika frá meginkröfum þeirrar kröfugerðar sem stéttarfélagin hafa lagt fram til Norðuráls.

Það er mat formanns VLFA að krafa starfsmanna sé í raun og veru afar hófstillt. Hún byggist meðal annars á að grunnlaun byrjanda hækki úr rúmum 206.000 kr. í rúmar 249.000 kr. Á þessu sést að grunnlaun byrjanda í stóriðju Norðuráls eru algjörlega til skammar og það er morgunljóst að það verður ekki hvikað frá því að grunnlaun starfsmanna hækki verulega í þeim samningum sem framundan eru.

Það var afar jákvætt að finna þá samstöðu og þann einhug sem ríkti á fundinum. Skilaboðin voru skýr eins og áður sagði, ekki gefa þumlung eftir, við höfum nægan tíma og því er mikilvægt fyrir forsvarsmenn Norðuráls að átta sig á því að það verður að verða algjör hugarfarsbreyting af hálfu fyrirtækisins ef samningar eiga að nást. Formaður fór yfir það að Norðurál er glæsilegt fyrirtæki, hefur blessunarlega gengið gríðarlega vel allt frá því það hóf starfsemi sína og skilað tugmilljarða hagnaði frá því það hóf starfsemi. Því er það skýlaus krafa að þessum ávinningi sé skilað með afgerandi hætti til þeirra sem skapa þennan hagnað sem eru jú starfsmennirnir sem vinna í verksmiðjunni.

Það er gott að vita að þessi samstaða er svo sannarlega til staðar og meðal annars kom fram á fundinum að það komi ekki til greina að hvika frá því að tekið verði upp fjölskylduvænt vaktakerfi sem byggist á þrískiptum 8 tíma vöktum og krafan er skýr um að starfsmenn haldi sambærilegum útborguðum launum og þeir eru með fyrir 12 tíma vaktirnar. Þetta er síður en svo óraunhæf krafa. Framhaldið er óljóst en næsti fundur verður haldinn hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Eins og áður sagði þarf að verða mikil stefnubreyting af hálfu forsvarsmanna fyrirtækisins ef þessi kjaradeila á að leysast á næstu vikum eða mánuðum. En ljóst er að starfsmenn eru svo sannarlega tilbúnir til að fylgja sínum kröfum eftir af fullri einurð og hörku ef þurfa þykir eins og sést á myndinni sem birtist með þessari frétt þar sem starfsmenn risu úr sætum á fundinum í gær og sögðust vera tilbúnir til að fylgja sínum kröfum eftir af fullri hörku.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image