• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Sep

Árangurslítill fundur í gær með stjórnendum Norðuráls

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa fjölmargir starfsmenn Norðuráls kvartað sáran yfir stórauknu vinnuálagi á liðnum misserum.  Starfsmönnum ber flestum saman um að þetta álag hafi verið að aukast jafn og þétt á síðastliðnum árum.

Félagið hélt t.d. fund fyrir rétt rúmri viku síðan með starfsmönnum steypuskála en þar hefur vinnuálagið að sögn starfsmanna verið ómanneskjulegt að undanförnu.  Það liggur fyrir að á 12 tíma vakt hafa starfsmenn þurft að nærast í sínum neysluhléum undir mikilli pressu og ná vart 30 mínútna matartíma á 12 tíma vakt.  Meira að segja hefur það komið fyrir að menn hafa vart komist í neysluhlé. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað komið á framfæri þessum umkvörtunum starfsmanna um aukið álag, en þetta aukna álag er ekki bara einskorðað við steypuskálann heldur teygir það anga sína víðar í verksmiðjunni m.a. inn í kerskálana.

Ugglaust eru margar ástæður fyrir þessu aukna álagi en það liggur m.a. fyrir að framleiðsla fyrirtækisins hefur aukist umtalsvert á liðnum árum og hvert framleiðslumetið hefur verið slegið á fætur öðru en núna er framleiðslan að verða komin upp í 300 þúsund tonn á ári. Á sama tíma og þessi framleiðsluaukning á sér stað hefur starfsfólki verið að fækka enda hefur launakostnaður fyrirtækisins lækkað á milli árana 2012 og 2013 um tæp 7%.

Að sjálfsögðu liggur fyrir að álag eykst á þá sem eftir verða þegar starfsfólki fækkar á sama tíma og framleiðslan er að aukast. 

Í gær áttu formaður og aðaltrúnaðarmaður fund með framkvæmdastjóra Norðuráls og einnig framkvæmdastjóra mannauðssvið.  Það er mat formanns að skilningur yfirstjórnar fyrirtækisins á þeim kvörtunum sem hafa borist um aukið álag sé því miður ekki til staðar enda kemur skýrt fram í máli stjórnenda að þetta aukna álag eigi vart stoð í raunverulekanum.  En framkvæmdastjórarnir viðurkenndu þó að það væri tímabundið álag í steypuskálanum vegna steypu á nýrri sérframleiðslu en tóku skýrt fram að við því hafi fyrirtækið brugðist með fjölgun starfsmanna í steypuskálanum.

Starfsmenn segja hins vegar að eðli málsins samkvæmt þurfi að fjölga vegna þessa sérframleiðslu en hún ein og sér kallar á allt að þrjú nú störf. En álagið í steypuskálanum er áfram nánast það sama og ennþá standa menn nánast samfleytt í 12 tíma með einu 30 mínútna neysluhléi sem starfsmenn þurfa að taka undir pressu eins og áður sagði.

Á fundinum í gær var rædd sú krafa sem upp er komin inni í steypuskálanum um að tekið verði upp 8 tíma vaktakerfi eins og er hjá Elkem en ekki var annað að heyra á framkvæmdastjóra Norðuráls að honum hugnaðist ekki slíkt kerfi, en benti þó á að vissulega sé allt undir þegar kjarasamningar losna um næstu áramót.

Það er morgunljóst að komandi kjaraviðræður vegna kjarasamnings Norðuráls verða erfiðar enda er mikilvægt að ef menn ætla að greiða úr að mínu mati réttmætum  umkvörtunum starfsmanna þá verði stjórnendur að hlusta og vera tilbúnir til að viðurkenna vandann en gera ekki eins og strútarnir þegar þeir skynja utanaðkomandi hættu með því að stinga hausnum í sandinn og halda að vandamálið og hættan hverfi við slíkt.

Verkalýðsfélag Akraness mun mjög fljótlega boða til fundar með öllum starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni þar sem þetta aukna álag verður til umræðu sem og hvaða áherslur starfsmenn vilji leggja upp með í komandi kjarasamningum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image