• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Jul

Kjarasamningur vegna starfsmanna Akraneskaupstaðar og Höfða kynntur

Nýgerður kjarasamningur Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga, sem gildir fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar og starfsmenn Dvalarheimilisins Höfða, var kynntur fyrir félagsmönnum í gær á Gamla Kaupfélaginu. Á kynningarfundinum fór formaður yfir helstu atriði samningsins og þau sérákvæði sem félagið náði í samningaviðræðum við bæjaryfirvöld hér á Akranesi, en að teknu tilliti til þeirra sérákvæða er samningurinn að gefa starfsmönnum rétt rúm 9%.

Þeir sem ekki komust á fundinn, geta skoðað glærur frá kynningunni hér.

Almennt var að heyra að starfsmenn væru nokkuð sáttir, sérstaklega í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaður var 21. desember 2013 gaf verkafólki einungis 2,8%, eða að hámarki kr. 9.750. Það er ljóst að þessi samningur gefur umtalsvert meiri launahækkanir en kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði gerði, enda er meðaltalshækkunin um og yfir 20.000 krónur á mánuði. Því til viðbótar gildir þessi samningur í 12 mánuði en ekki í 14 mánuði eins og samningurinn á hinum almenna vinnumarkaði.

Formaður fór yfir það á fundinum í gær að það væri með ólíkindum að nú hefði verkalýðshreyfingin samið við sveitarfélögin um launahækkun upp á um 20.000 krónur, sem er akkúrat sú upphæð sem Verkalýðsfélag Akraness vildi að samið yrði um á hinum almenna vinnumarkaði í vetur, en þá krafðist forysta ASÍ þess að krafan yrði lækkuð um helming. Enda kom á daginn að samið var einungis um 2,8% eða 9.750 krónur eins og áður hefur komið fram og voru nokkrir forystumenn hjá landsbyggðafélögum kallaðir lýðskrumarar fyrir að hafa gert kröfu um 20.000 króna hækkun til handa verkafólki á almennum vinnumarkaði. Er það grátbroslegt í ljósi þess að núna var hægt að semja við sveitarfélögin um 20.000 króna launahækkun, en ekki til dæmis handa fiskvinnslufólki sem margt hvert starfar hjá fyrirtækjum sem skila milljarða hagnaði ár eftir ár.

Það er alveg ljóst að þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út í byrjun næsta árs, þá verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að krefjast alvöru leiðréttingar til handa verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði því þessu óréttlæti og ósanngirni sem blasir ætíð við þeim tekjulægstu á hinum almenna vinnumarkaði verður að linna í eitt skipti fyrir öll. Það er nöturlegt til þess að hugsa að oft og tíðum sé það forysta verkalýðshreyfingarinnar sem leggi línurnar um þessa láglaunastefnu sem ríkt hefur á hinum almenna vinnumarkaði, láglaunastefnu sem hefur verið gefið nafnið samræmd launastefna. En þegar á hólminn er komið þá gildir þessi láglaunastefna einungis fyrir þá tekjulægstu, enda hafa nánast allir hópar fengið langum hærri launahækkanir en verkafólk á almennum vinnumarkaði fékk í síðustu samningum.

Félagsmenn sem starfa eftir þessum kjarasamningi eru minntir á póstatkvæðagreiðsluna sem er í fullum gangi, atkvæðið þarf að vera komið í hús fyrir kl. 14 mánudaginn 28. júlí (eftir rúma viku).

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image