• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jul

Skrifað undir kjarasamning vegna félagsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað

Rétt í þessu skrifaði Verkalýðsfélag Akraness undir kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna félagsmanna sem starfa hjá Akraneskaupstað.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur formaður unnið að því við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar að ná inn frekari kjarabótum í gegnum sérákvæði. Í gær samþykkti bæjarráð Akraness nokkur atriði sem félagið hafði farið fram á í sérákvæðum og ber hæst að nefna í því samhengi að allir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Akraneskaupstað munu fá svokallaða sumaruppbót að andvirði tæplega 30.000 kr. Einnig fá þeir sem hafa hvað lengstan starfsaldur hjá Akraneskaupstað svokallaða sérstaka júníuppbót sem er 6% af launum júnímánaðar ár hvert.

Helstu atriði kjarasamningsins eru eftirfarandi:

  • Samningstíminn er eitt ár og gildir hann frá 1. maí 2014 til 30. apríl 2015. Þetta þýðir á mannamáli að starfsmenn munu fá leiðréttingu á sínum launum aftur til 1. maí síðastliðins.
  • Laun starfsmanna hækka samkvæmt nýrri launa- og tengitöflu þann 1. maí 2014 og aftur 1. janúar 2015 og laun félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness hækka á samningstímabilinu um að meðaltali rúm 9%. Þó eru dæmi um að einstakir hópar hækki um rúm 10%.
  • Desemberuppbót á árinu 2014 hækkar um 15,9% og fer úr 80.700 kr. í 93.500 kr.
  • Lágmarkslaun frá 1. maí 2014 verða 229.549 kr.
  • Framlag í starfsmenntasjóði starfsmanna hækkar um 0,1%.
  • Gerðar verða breytingar á reglum um ráðningarsamninga starfsmönnum í hag.

Þetta eru helstu atriði samningsins en þar sem samningurinn er nokkuð flókinn þá hvetur formaður starfsmenn til að kynna sér vel innihald samningsins. Kynningargögn verða send félagsmönnum eftir helgi ásamt kjörgögnum og hægt verður að kjósa um samninginn til 28. júlí. Einnig mun félagið vera með kynningarfund sem auglýstur verður síðar.

Formaður vill þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og bæjaryfirvöldum fyrir að vinna að lausn á þessari deilu. Það er ljóst að það hefði ekki tekist nema í gegnum þessi sérákvæði og greinilegt að bæjaryfirvöld hafa fullan skilning á stöðu þeirra tekjulægstu sem starfa hjá sveitarfélaginu. Það birtist meðal annars í þessum sérákvæðum sem gerð voru. Það var einnig rætt að hefja undirbúning að næstu viðræðum strax í haust enda gildir þessi samningur eins og áður sagði einungis til 30. apríl á næsta ári. Var ánægjulegt að finna að skilningur er hjá bæjaryfirvöldum á að lagfæra þurfi kjör þeirra tekjulægstu enn frekar.

Það er morgunljóst að þessi samningur er töluvert betri en samið var um í svokölluðum ASÍ samningi á hinum almenna vinnumarkaði. Nægir að nefna að meðaltals launahækkun starfsmanna er í kringum 20.000 kr. á mánuði en hækkunin á hinum almenna vinnumarkaði var einungis 9.750 kr.

Það er í raun og veru með ólíkindum að núna hafi verið hægt að semja við sveitarfélögin vítt og breitt um landið um 20.000 kr. hækkun að meðaltali. Fyrir samskonar kröfu var formaður Verkalýðsfélag Akraness kallaður lýðskrumari af sumum forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar þegar hann lagði hana fram á hinum almenna vinnumarkaði fyrr í vetur. Já, það er skrýtið að hægt sé að ná fram um og yfir 20.000 kr. hækkun handa ófaglærðu fólki hjá sveitarfélögunum en slíka kröfu hafi ekki mátt gera gagnvart fyrirtækjum sem voru með rekstrarafgang upp á allt að 50 milljarða eins og sjávarútvegsfyrirtæki.

Enn og aftur hvetur formaður félagsins starfsmenn Akraneskaupstaðar til að hafa samband við sig til að fá nánari útskýringar á þessum kjarasamningi.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image