• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Jan

Póstatkvæðagreiðsla um nýja kjarasamninga

Nú í þessari viku eru að hefjast kosningar um kjarasamningana sem undirritaðir voru þann 21. desember síðastliðinn. Kosið er hjá flestöllum stéttarfélögum vítt og breitt um landið og lýkur henni þann 22. janúar 2014. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness fer fram póstatkvæðagreiðsla um samninginn og voru kjörgögn póstlögð til félagsmanna Almennrar deildar, Matvæladeildar og Iðnsveinadeildar í dag. Atkvæðaseðlar þurfa að hafa borist kjörstjórn VLFA fyrir kl. 12:00 miðvikudaginn 22. janúar næstkomandi og eru félagsmenn hvattir til að láta skoðun sína í ljós og koma atkvæði sínu til skila í tæka tíð.

Það er ekkert launungarmál að stjórn Verkalýðsfélags Akraness leggst alfarið gegn því að þessi samningur verði samþykktur, enda skrifaði formaður félagsins ekki undir hann og vildi hann með því lýsa yfir vanþóknun sinni á rýru innihaldi hans. Það eru þó félagsmenn sjálfir sem þurfa að kjósa um samninginn og hafa þannig endanlegt ákvörðunarvald.

Á þingi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) sem haldið var í október sl. var samþykkt ályktun sem kvað skýrt á um að SGS ætlaði sér að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt á undanförnum árum og áratugum. Í þessari sömu ályktun kom einnig skýrt fram að hvergi yrði hvikað frá í þeirri baráttu. SGS er landssamband íslensks verkafólks og þing SGS er æðsta vald sambandsins. Það skýtur því skökku við að núna liggur fyrir þessi kjarasamningur, sem er að mati samninganefndar Verkalýðsfélags Akraness afar rýr fyrir íslenskt verkafólk. Krafan var sú að lægstu taxtar innan SGS myndu hækka um 20.000 kr. og með samstöðu er vel hægt að ná slíkri launahækkun fram. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að atvinnugreinar eins og t.d. ferðaþjónustan og fiskvinnslan, er að skila mjög góðri afkomu. Nægir að nefna í því samhengi að heildarhagnaður íslensks sjávarútvegs á síðasta ári nam 80 milljörðum. Að auki hefði verið hægt að ná betri árangri í viðræðum við ríkisvaldið, en þar eru engar skattalækkanir fyrirhugaðar á laun undir 250.000 á meðan skattalækkun á laun yfir 700.000 nemur 42.000 krónum á ársgrundvelli. Við slíkt er ekki hægt að una.

Í nýja samningnum eru launataxtar undir 235.000 kr. hækkaðir um 9.750 krónur. Þetta þýðir að þegar búið er að draga skatta og aðrar skyldur frá þá standa einungis eftir um 5.700 krónur í vasa launafólks á mánuði, sem gerir launahækkun upp á einungis 190 kr. pr. dag. Að auki þvingaði samninganefnd ASÍ samninganefnd Starfsgreinasambandsins til að taka þátt í svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekkert tillit er tekið til góðrar afkomu útflutningsgreinanna.

Það er hins vegar alveg ljóst að eitt, tvö eða þrjú stéttarfélög munu ekki ná fram meiri launahækkunum ef meirihluti stéttarfélaga mun samþykkja samninginn. Því er það von stjórnar VLFA að þessi samningur verði felldur í öllum aðildarfélögum ASÍ. Ef það gerist mun hugsanlega skapast á nýjan leik betri samningsstaða til handa íslensku verkafólki og hugsanlega verður hægt að ná fram frekari kjarabótum.

Stjórn VLFA skorar á þá félagsmenn sem taka laun eftir þessum samningi að segja nei við honum, með von um að verkafólk vítt og breitt geri slíkt hið sama. Ef ekki mun ríkja samstaða á meðal verkafólks um að fella þennan samning þá er ljóst að félagið mun þurfa að ganga frá sambærilegum samningi við SA, enda verður samningsstaðan engin fyrir fámenn félög að gera betri samning við Samtök atvinnulífsins, ef mikill meirihluti stéttarfélaga samþykkir samninginn.

Grundvallaratriði er hins vegar að með samstöðu alls íslensks verkafólk er æði margt hægt að gera og á þeirri forsendu er það óskandi að verkafólk taki höndum saman vítt og breitt um landið og sýni vanþóknun sína í verki og felli þennan samning. Þó ekki sé nema til þess eins að sýna Samtökum atvinnulífsins að það eru fleiri í íslensku samfélagi sem þurfa að axla ábyrgð en íslenskt lágtekjufólk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image