• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Dec

Áskorun til verkafólks um að fella nýgerðan kjarasamning

Á laugardagskvöld var undirritaður kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði í húsakynnum Ríkissáttasemjara. Þessi kjarasamningur var svo slæmur að mati 5 aðildafélaga Starfsgreinasambands Íslands að fulltrúar þeirra sáu sér á engan hátt fært að setja nafn sitt undir slíkan samning. Málið var að Starfsgreinasamband Íslands var búið að móta og leggja mikla vinnu í kröfugerð sem byggðist á því að reyna að lagfæra skammarlega lága launataxta sambandsins. Því til viðbótar var samþykkt á þingi Starfsgreinasambandsins, sem haldið var í október á Akureyri, ályktun sem hljóðaði með þeim hætti að SGS ætlaði að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt og lagfæra launataxta verkafólks. Þessi kjarasamningur sem undirritaður var um helgina, er langt frá þeim markmiðum.

Kröfugerðin sem SGS hafði mótað var hógvær og hljóðaði upp á 20.000 kr. hækkun á lægstu töxtum. Þessi samningur hljóðar hins vegar einungis upp á 9.565 króna launahækkun, eða með öðrum orðum: lægsti taxtinn fór úr 191.752 kr. í 201.317 kr. Því til viðbótar kemur engin skattalækkun til þeirra tekjulægstu sem eru með laun undir 250.000 kr. Þetta þýðir að einstaklingur sem er að vinna á þessum töxtum er að fá 114.000 króna launahækkun á ársgrundvelli en í vasann er þetta einungis að skila í hverjum mánuði í kringum 5.600 krónum. Það gerir heilar 185 krónur sem íslenskt verkafólk mun fá í launahækkun í vasann á dag. Þetta er upphæð sem vart dugar fyrir tveimur lítrum af mjólk. Það er rétt að geta þess að rausn Samtaka atvinnulífsins er nú ekki meiri en svo að þeir ætla ekki einu sinni að láta samninginn gilda frá þeim tíma sem hann rann út, eða frá 1. desember, heldur taka þessar smánarlegu launahækkanir ekki gildi fyrr en frá og með 1. janúar 2014. Svo segja þessir menn sem bera ábyrgð á þessum samningi að áhersla hafi verið lögð á lægstu launin!

Hins vegar er það þannig að einstaklingur sem er með eina milljón í laun er að hækka um 28.000 á mánuði og því til viðbótar fær hann skattalækkun sem nemur tæpum 42.000 kr. á ári. Þetta er litlu minna en verkafólk fær í launahækkun á ári þegar búið er að draga skatta og önnur gjöld frá, en það sem verkafólk hefur í vasann er rétt rúmar 67.000 krónur á ársgrundvelli. Því spyr formaður, hvar er réttlætið og sanngirnin í slíkri mismunun?

Það er sorglegt að verkalýðshreyfingin í heild sinni hafi ekki staðið þétt saman í að bæta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi því það er morgunljóst að staða verkafólks er nokkuð sterk og þá sérstaklega hjá þeim sem starfa í útflutningsfyrirtækjunum og nægir að nefna í því samhengi að sjávarútvegurinn hefur aldrei nokkurn tímann hagnast eins gríðarlega og á undanförnum árum og nemur hagnaðurinn sem dæmi rétt tæpum 80 milljörðum á þessu ári. Að verkalýðshreyfingin hafi ekki verið tilbúin að standa í lappirnar og leiðrétta kjör þessa fólks er formanni gjörsamlega hulin ráðgáta. En rétt er að geta þess að grunnlaun fiskvinnslufólks sem starfað hefur 30 ár í greininni og er sérhæft eru rétt rúm 218.000 kr. á mánuði.

Á sama tíma og íslensku verkafólki eru skammtaðar þessar smánarlaunahækkanir er tilkynnt t.d. frá Arion-banka að verið sé að taka upp afkastahvetjandi bónuskerfi fyrir stjórnendur og ekki má gleyma að fyrir örfáum dögum síðan birtist í fréttum að nýtt bónuskerfi til handa lykilstjórnendum N1 verði tekið upp um áramótin, en slíkt bónuskerfi á að geta skilað lykilstjórnendum allt að 19 milljónum í bónus á ári. Setjum þessar tölu í samhengi við þær 5.600 krónur sem íslenskt lágtekjufólk fær í vasann í launahækkun á mánuði. Veruleikafirring þeirra sem hafa samvisku í að auka þessa misskiptingu í íslensku samfélagi er alger, enda er morgunljóst að þeir sem stjórna íslenskum fyrirtækjum í dag myndu ekki undir nokkrum kringumstæðum geta lifað af þeim smánarlaunum sem launataxtar Starfsgreinasambands Íslands kveða á um.

Það er alveg ljóst að íslensk verkalýðshreyfing þarf svo sannarlega að fara í naflaskoðun því þessir kjarasamningsgerð hefði svo sannarlega gefið hreyfingunni tækifæri til að sýna að hún hefur kjark og þor til að standa með sínu fólki og berjast fyrir bættum hag lágtekjufólks, en því miður þá brást verkalýðshreyfingin þessu fólki illilega. Það voru fleiri skemmdarverk unnin í þessum samningi, en Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins gerðu bókun sem gengur út á það að allir kjarasamningar sem stéttarfélög eiga eftir að gera við SA skulu bera sömu skammarlegu launahækkanir og sá samningur sem undirritaður var á laugardaginn. Meira að segja stendur í bókuninni að samningsaðilar skuldbinda sig til að framfylgja þeirri launastefnu sem mótuð var í nýgerðum kjarasamningi. Þetta þýðir á mannamáli að allir sérkjarasamningar stéttarfélaganna, t.d. við stóriðjurnar, síldarbræðslurnar o.s.frv. eiga að taka sömu launahækkunum og áðurnefndur samningur kveður á um. Formaður reyndar dregur það stórlega í efa að slíkt standist lög um stéttarfélög og vinnudeilur að ASÍ og SA geti tekið samningumboðið þannig af stéttarfélögum og samið um launahækkanir í kjarasamningum sem á eftir að gera á komandi ári.

Það er von formanns að íslenskt verkafólk kolfelli þessa kjarasamninga, en það er hins vegar morgunljóst að ef það á að nást samstaða um að lagfæra kjör lágtekjufólks, þá verður verkalýðshreyfingin í heild sinni að standa þétt saman, því það er útilokað fyrir eitt eða örfá stéttarfélög að ætla sér að ná meiri launahækkunum en meirihluti stéttarfélaga hefur samið um. Þess vegna skorar formaður á íslenskt verkafólk að sýna vanþóknun sína í verki með því að greiða atkvæði gegn þessum samningum, því að hans mati er íslenskt verkafólk nánast jafndautt fyrir 185 krónur í vasann á dag. Þetta er og verður gríðarlega erfitt, en með samstöðu alls íslensks verkafólks er margt hægt að gera. En til þess þarf, eins og áður sagði, samstöðu verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image