• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Dec

Oft er þörf en nú er nauðsyn á samstöðu

Eins og allir vita er óhætt að segja að kjarasamningsviðræður Samtaka atvinnulífsins við verkalýðshreyfinguna séu botnfrosnar þessa dagana. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins ráku upp stór augu fyrir nokkrum vikum síðan þegar gerð var krafa um að lágmarkstaxtar skyldu hækka um heilar 20 þúsund krónur eða úr 191 þúsund upp í 211 þúsund. Þeir spruttu fram og veifuðu framan í alþýðuna hagfræðiskírteinum sínum og sögðu að slíkar ofurkröfur myndu setja hér íslenskt samfélag á hliðina með óðaverðbólgu.

Á sama tíma og þetta er að gerast koma tilkynningar, meðal annars frá Arion banka, um að verið sé að taka upp alvöru afkastahvetjandi bónusaskerfi til handa lykilstjórnendum. N1 kom og bætti um betur í síðustu viku og tilkynnti að frá og með næstu áramótum yrði tekið upp bónuskerfi, já og takið eftir, handa lykilstjórnendum, og slíkt bónuskerfi á að geta gefið þeim allt að 19 milljónir í bónus á ári.

Og í dag barst síðan tilkynning frá kjararáði um að ráðið hafi samþykkt að hækka laun forstjóra Íbúðalánasjóðs um 79 þúsund krónur og er það til viðbótar við 110 þúsund króna launahækkunina sem hann fékk í júlí á þessu ári. Samtals hefur forstjóri Íbúðalánasjóðs fengið launahækkun sem samsvarar lægsta taxta verkafólks á hinum almenna vinnumarkaði og það bara á þessu ári.

Svo koma þessir snillingar fram og segja að ef að almennt verkafólk fái nokkur þúsund krónur í launahækkun þá muni slíkt hríslast upp allan launastigann með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt þjóðarbú. Hvernig væri nú að þessar ofurlaunahækkanir æðstu stjórnenda íslenskra fyrirtækja færu nú að hríslast niður stigann. Því sem dæmi þá þyrftu lágmarkslaun að hækka um 41% til að ná 79 þúsund króna launahækkun eins og forstjóri Íbúðalánasjóðs fékk í dag.

Formaður getur ekki annað séð en að verkalýðshreyfingin í heild sinni þurfi nú að sýna mátt sinn strax í byrjun nýs árs og fara í þær kjaraviðræður sem nú eru komnar í strand af fullri hörku. Og ef Samtök atvinnulífsins sjá ekki að sér og lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi svo um munar þá er ekkert annað í stöðunni en að beita vopninu, já verkfallsvopninu sem ekki hefur verið notað hér síðustu áratugina. Með samstöðu getur íslenskt verkafólk látið vel finna fyrir sér. Oft er þörf fyrir íslenskt verkafólk að standa saman en nú er nauðsyn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image