• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Dec

Óþolandi vinnubrögð

Nú eru fjórir dagar liðnir frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og óþreyja verkafólks eftir kjarabótum fer vaxandi. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði Starfsgreinasamband Íslands, sem er stærsta landssambandið innan ASÍ, fram metnaðarfulla en jafnframt hófstillta launakröfu. Launakröfu sem byggðist á því að launataxtar SGS myndu hækka um 20.000 kr. En rétt er að geta þess að lægsti taxtinn innan SGS er einungis 191.752 kr. og hæsti taxtinn er einungis rétt rúmar 227.000 kr. Eins og áður sagði hafði mikil vinna verið lögð í að búa til nýja launatöflu og kröfugerðina í heild sinni.

Gríðarleg samstaða og einhugur var á meðal aðildarfélaga SGS um að reyna að bæta kjör lágtekjufólks eins vel og kostur væri og því voru launakröfurnar að mati samninganefndar sanngjarnar enda var einungis verið að tala um að ná lægsta taxta SGS upp í 211.752 kr. í árssamningi. Á þingi Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri fyrir nokkrum vikum síðan ríkti einnig mikill einhugur og baráttuandi. Enda var samþykkt þar ályktun sem kvað á um að SGS ætlaði að brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem hér hefur ríkt og yrði ekki gefið eftir í þeirri baráttu.

Á grundvelli þessarar ályktunar voru vonbrigðin gríðarleg á samningafundi SGS í gær. Þar ákvað meirihluti samninganefndar SGS að lækka kröfugerð sambandsins, sem lögð hefur verið mikil vinna í, um 50% og fara í fullt samstarf með samninganefnd ASÍ. Með öðrum orðum það var samþykkt að kröfugerðin skyldi hljóða upp á 10.000-11.000 kr. taxtahækkun og að almenn hækkun hjá þeim sem ekki starfa eftir launatöxtum yrði 3,25%.

Það er sorglegt miðað við þá miklu samstöðu sem hafði ríkt og áðurnefnda ályktun að menn skyldu voga sér að hverfa frá þessari hófstilltu 20.000 kr. kröfu. Það er gríðarlega mikilvægt að menn átti sig á því að samningsstaða landsbyggðarstéttarfélaganna er griðarlega sterk um þessar mundir. Nægir að nefna í því samhengi að ferðaþjónustunni hefur verið að vaxa fiskur um hrygg og skilað góðri afkomu og síðast en ekki síst liggur fyrir að sjávarútvegsfyrirtækin hafa verið að skila allt að 80 milljörðum í hagnað ár hvert á undanförnum árum. Á þeirri forsendu var sóknarfærið til að leiðrétta kjör fiskvinnslufólks gríðarlegt. Einnig er staða stóriðjunnar sterk sem og annarra útflutningsfyrirtækja.

En enn og aftur ríður samninganefnd ASÍ fram með forseta ASÍ í broddi fylkingar og krefst samræmdrar launastefnu þar sem virðist alls ekki mega taka tillit til sterkrar stöðu útflutningsfyrirtækja. Þetta eru sömu skemmdarverkin og þessir sömu aðilar ástunduðu í kjarasamningunum árið 2011. Það er formanni VLFA gjörsamlega hulin ráðgáta það andvaraleysi verkafólks að láta slík vinnubrögð yfir sig ganga. Því ef hann hefur skilið það rétt á fundinum í gær þá er samninganefnd ASÍ að velta því alvarlega fyrir sér að framlengja samninginn um 12 mánuði sem þýðir á mannamáli að almennt launafólk mun ekki einu sinni geta kosið um framlenginguna.

Það er ljóst að það er búið að eyðileggja samningsstöðu verkafólks vítt og breytt um landið með þessari samræmdu launastefnu. Eitt, tvö eða þrjú stéttarfélög hafa klárlega ekki nokkra samningsstöðu þegar forsvarsmenn ASÍ hafa tekið ákvörðun um að fara í þessa samræmdu launastefnu. Það má segja að það sé þyngra en tárum taki að horfa upp á þessi vinnubrögð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image