• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
12
Dec

Ráðamenn og atvinnurekendur! Setjið ykkur í spor atvinnuleitanda og lágtekjufólks

Það er þyngra en tárum taki að verða vitni að því að stjórnvöld ætli sér ekki að sjá til þess að atvinnuleitendur fái desemberuppbót greidda eins og aðrir landsmenn. En hér erum við að tala um hóp fólks sem fær í atvinnuleysisbætur rétt rúmar 170.000 krónur á mánuði og því morgunljóst að það getur vart horft til gleðilegrar hátíðar hjá þessu fólki.

Það er formanni VLFA óskiljanlegt það skilningsleysi sem ríkir, ekki bara hjá stjórnvöldum, heldur einnig hjá Samtökum atvinnulífsins gagnvart lágtekjufólki og atvinnuleitendum hér á landi. Það er ekki bara að nú standi til að atvinnuleitendur fái ekki umrædda desemberuppbót, heldur stefnir allt í að fyrirhugaðar skattalækkanir stjórnvalda muni ekki ná til lágtekjufólks, atvinnuleitenda og annarra sem hafa tekjur undir kr. 250.000.

Formaður hefur trú á að þolinmæði íslensks lágtekjufólks hljóti að vera komin að þrotum og það skilningsleysi sem mætir þessum hópi í íslensku samfélagi er orðinn æpandi og ólíðandi. Það er æði margt sem bendir til þess að íslenskt verkafólk þurfi svo sannarlega að fara að stilla saman strengi sína og berjast af alefli fyrir því að réttlæti og sanngirni ríki í íslensku samfélagi. Það er dapurlegt til þess að vita að allar horfur eru á því að engar breytingar ætla að verða hvað varðar aðgerðir til handa þeim sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Það er mikilvægt fyrir ráðamenn þessarar þjóðar og fulltrúa Samtaka atvinnulífsins að setja sig í spor látekjufólks og atvinnuleitenda og fróðlegt væri að vita hvort þessir aðilar myndu treysta sér til að reka heimili fyrir 173.000 krónur á mánuði og halda jafnframt gleðilega hátíð á sama tíma. Formaður VLFA skorar á Alþingi Íslendinga að taka höndum saman og finna fjármagn til þess að atvinnuleitendur geti fengið desemberuppbót og eigi því örlitla möguleika að halda jól eins og aðrir landsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image